Jæja ágætir vinir og samspilarar, senn líður að jólum og því ekki úr vegi að birta dagskránna á Jóla-laninu mínu núna í desember. Fyrir þá ykkar sem koma algerlega ofan af fjöllum hvað þetta málefni varðar, þá eru frekari upplýsingar að finna hér.
Þar sem þetta gekk svona undurvel fyrir sig síðastliðin jól þýddi vitaskuld ekki annað en að endurtaka leikinn nú í ár. Dagskráin verður svipuð en þó með nokkrum undantekningum. Eins og í fyrra þá verður mæting hjá mér 1. desember (ATH. bætt var við plássi fyrir um 100 spilara í viðbót, en það þýðir að um 600 manns komast að. Í fyrra komust mun færri að en vildu, þannig að það er um að gera að skrá sig sem fyrst, annað hvort með því að senda mér pm hér á huga eða með því að senda mér línu á joli51@hotmail.com). Þeir sem eru í prófum í desember þurfa ekki að hafa áhyggjur því ég hef sett mig í samband við alla grunn- og framhaldsskóla hér á höfuðborgarsvæðinu sem og alla stærri skóla úti á landi. Ykkur mun þá vera úthlutað vottorð hér á laninu sem þið framvísið við einkunnaafhendingu og þá verðiði sjálfkrafa metnir með einkunn upp á 9-10 í hverju fagi. Ekki amalegt það.
Eins og fyrr segir þá er mæting hér 1. desember. Í ár verður tekið á móti hverjum og einum þátttakanda með jólaglöggi og piparkökum auk þess sem hver og einn fær eilítinn glaðning. Í spilun verða allir heitustu fjölspilunarleikirnir, og þar ber auðvitað helst að nefna BF, BFV og öll þau mod sem þessum leikjum tengjast (nýjustu útgáfur allra heitustu moddanna verða á local ftp server, þar með talið v. 2,0 af jólasveinmoddinu, sem vakti mikla lukku á síðasta ári).
Líkt og síðast verða gerð stutt hlé á matmálstímum og hef ég ráðið einvalalið matseldarmanna sem sjá munu um allar máltíðir (morgunverður, hádegisverður, kaffitími og þríréttaður kvöldverður auk nætursnarls). Mun þó ástkær móðir mín hafa yfirumsjá með öllu þesu. Þess má svo geta að konfekt- og smákökuskálar verða staðsettar við hvert borð og verða þær rækilega merktar. Eru þessi ágæti vitaskuld innifalin í inngönguverðinu.
Þegar nær dregur að jólum munum við svo væntanlega taka u.þ.b. eina klukkustund á dag (eða eftir því sem hugur er fyrir) í piparkökubakstur og skreytingu. Á meðan verða jólalögin auðvitað botnuð, en með tilliti til þess má nefna, að inni í tómstundaherberginu verða jólalög spiluð frá því að fólk mætir á svæðið og fram yfir jól. Þar verður jafnframt hægt að spila borðspil upp á gamla mátan ef áhugi er fyrir því.
Líkt og síðast verða jólalög sungin saman á hverju kvöldi. Það gaf góða raun að syngja saman á TS á síðasta ári, og því reikna ég með að öll þau herlegheit verði með sama móti í ár… með eilítið breyttu sniði þó. Ég hef í samvinnu við þróendur TS og Ventrilo hannað nýtt samskiptaforrit sem býður upp á mun betri gæði en fyrirrennarar þess. Auk þess verður Web-Cam við hverja vél og koma þær til með að tengjast beint við skjávarpa inní tómstundarherberginu, þannig að ef einhver vill kanna möguleika sína á því að gerast sólójólasöngvari, þá ætti þetta að vera tilvalið umhverfi. Um að gera að prófa bara….
Á aðfangadag munum við svo hringja inn jólin saman og að því loknu verður etið. Inni í stofu verður staðsett risavaxin Kanadafura sem þjóna mun tilgangi jólatrés. Hún verður rækilega skreytt þannig að engin þörf er á því að mæta með eigið tré á svæðið. Fjölskyldur allra þátttakenda eru þó auðvitað velkomnar, og að loknum matnum (sem verður auðvitað með veglegra sniði en gengur og gerist… meira um það síðar) skundum við öll inn í stofu, lesið verður úr jólaguðspjallinu og svo verða pakkarnir opnaðir. Þá verða jafnframt færðar fram möndlugjafirnar, en í stað þess að hafa eina möndlu í grautnum verða þær 20. Vinningar eru m.a. siglingar í Karrabíahafinu, sportbílar, tölvur og þar fram eftir götunum. Þeir sem ekki vinna þurfa þó ekki að örvænta, en gefnar verða veglegar sárabótagjafir. Enginn fer leiður heim. Á jóladag verður svo haldið til ömmu…. (like I said… some things never change) í jólaboð. Svo verður bara haldið áfram að spila (með stuttu hléi þegar flugeldasölurnar opna… en þá förum við í verslunarleiðangur). Á gamlárskvöld verður svo farið upp á Garðarholt, en þar er indælt útsýni yfir höfuðborgarsvæðið. Auk þess verður vegleg flugeldasýning á okkar eigin vegum, þannig að enginn skortur ætti að vera á ljósadýrðinni. Líkt og síðast mun fólk svo bara sofa eins og það listir á nýársdag og upp úr því fer fólk bara að halda heim á leið. Og þannig er það bara.
Með von um jákvæðar móttökur og góða þáttöku,
Brynjólfur “Jóli” Ólafsson.