Einhverjir nýgræðlinganna (eða þeir sem ekki hafa spilað BF lengur en í eitt ár) hér á Battlefield-áhugamálinu hafa eflaust haldið að með titlinum á greininni ætti undirritaður við Skjálfta 4 | 2005, eða öllu heldur skort þar af, en ég ætla bara að byrja strax á að leiðrétta þann misskilning. Því nei, ónei… ef við förum hægt og rólega gegnum þetta sjáum við glöggt að það er jú kominn desember. Og hvað gerist aldrei í desember lengur? Jú. Mikið rétt. Það er alveg hætt að snjóa í desember. En það er málinu alls óviðkomandi.
Í desember hefur nefnilega undanfarin 2 ár verið haldið helst til sérstætt lan-partí. Sérstætt að því leiti að hér er fléttað saman hágæða lan-partí og sjálf hátíð ljóss og friðar (og jú… dágóður slurpur af helst til ofvirku ímyndunarafli), á afar hressilegan hátt. Fyrir þau ykkar sem koma gjörsamlega ofan af fjöllum hvað þetta varðar (eða þau ykkar sem hafa ekkert á móti léttu vappi niður minningargötuna góðu) mæli ég eindregið með því að þið smellið á eftirfarandi hlekki og lítist aðeins um:
http://www.hugi.is/bf/threads.php?page=view&contentId=1379151
http://www.hugi.is/bf/threads.php?page=view&contentId=1805145
Jæja. Nú er mér ekki lengur til setunnar boðið, og kynni ég því hérmeð dagskrána á Hinu Alræmda Jólalani 2005!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Eins og venjulega er þáttakendum frjálst að koma hvurnær sem þeim sýnist, en húsið er opið frá 1. desember og út allan desembermánuð. Í ár verður þó breytt smávægilega út af vananum, því í stað þess að halda lanið í auðmjúklegum heimkynnum mínum inní Hafnarfirði (líkt og undanfarin ár), þá höfum við og álf… uhm… aðstoðarmenn mínir ákveðið að færa það til, og verður því Hið Alræmda Jólalan 2005!!!!!!!!!!!!!!!!!!! haldið í… uhmmm… *sumarbústaðnum* mínum á Norðurpólnum. Til auðveldunar má finna upplýsingar um leiðarkerfi strætó á www.bus.is
Pláss er fyrir alla þá sem vilja, og því, í fyrsta skipti í sögu jólalansins, alls óþarft að skrá sig fyrirfram. Bara að mæta á staðinn. Það er allt. Eða… það er auðvitað æskilegast að tölvan sé meðferðis, en ef einhverjir vilja bara koma og borða piparkökur, þá er það auðvitað líka velkomið.
Sem endranær verða allir heitustu fjölspilunarleikirnir í spilun á laninu góða. Eða… svona. Þetta er náttúrulega fyrst og fremst Battlefield-lan, þannig að heitustu fjölspilunarleikirnir verða sennilegast að bíða eitthvað. En sem betur fer er enn mikil gróska í mod-heiminum, þannig að vinsæl mod á við DC, Interstate, Pirates FH 0.7 og FH2 (ójá… haldiði að ég hafi ekki tengsl, ha?) verða sennilegast sjáanleg á Hinu Alræmda Jólalani 2005!!!!!!!!!!!!!!!!!!! *Hóst* Afsakið.. hvar var ég? Já, auðvitað! Rúsínan í pylsuendanum verður svo Jólasveinamoddið sívinsæla í endurbættri þrívíddarútgáfu. Ójá.. Þið heyrðuð rétt. Ég hef verið að vinna leynilega að þessu síðan ég var 4 ára og nýbyrjaður að læra að forrita. Þrívíddargleraugu verða til sölu á staðnum, og koma til með að kosta eitt *knúþ* hvert. Ekki verða sett mörk á það hversu mörg gleraugu hver þátttakandi má kaupa, svo lengi sem kaupendur eru tilbúnir að borga uppsett verð.
Haldin verður keppni í öllum þeim leikjum og moddum sem áhugi er fyrir að keppa í á annað borð. Þessum keppnum verður þó þannig hagað í ár að allir vinna, óháð úrslitum og framistöðu (þannig að allar fyrrum og núverandi [I'm]-dúllur geta ótrauðar mætt og tekið þátt). Í verðlaun verða tryggingaskírteini upp á “bara harða pakka jólin 2005”. Ekki amalegt það.
Sem fyrr verða piparkökur, konfekt, mandarínur, þýskar jólakökur, jólaglögg og annars konar kræsingar til boða á meðan á laninu stendur, fyrir svanga tölvu- og jólanörda.
Í ljósi kvartana nágranna (og m.a.s. þeirra sem ekki áttu heima svo nálægt) í fyrra neyðist ég til að tilkynna að hópsöngurinn sívinsæli verður ekki hluti af dagskránni þetta árið. Jú… vissulega verður lanið haldið á Norðurpólnum í ár, en þeir sem mættu í fyrra og tóku þátt í hópsöngnum geta eflaust vitnað um það að staðsetning lansins í ár er engin trygging fyrir því að við verðum ekki fyrir aðkasti “ótónelskandi”… uhm… nágranna.
Á þorláksmessu verður ekki kæst skata, því af henni er fnykur. Við munum hins vegar sameinast um það að skreyta erfðabreyttu kanadísku risafuruna okkar (og þá meina ég risafuru… hún er stærri en Dabbi Vileshout þegar hann stendur ofan á öxlunum hans Gumma Iceberg) og að því loknu verður boðið upp á hamborgara. Með piparmintusósu.
Á aðfangadag er svo auðvitað öllum frjálst að bjóða fjölskyldum sínum að koma og taka þátt í hátíðarhöldunum. Í fyrra var boðið upp á alla hina “hefðbundnu” jólarétti með tilheyrandi eftirréttum og æðislegheitum. Í jól bætum við þó um betur og bjóðum upp á allan mat í heiminum!*19 Já… hvern hefur ekki langað til þess að smakka kengúrukjöt með brúnuðum kartöflum á jólunum? Ha? Eða hund í gljáaðri karamellusósu? Jæja, kæru matgæðingar! Takið gleði ykkar á ný, því biðin er á enda.
Að matnum loknum er svo bara stundin sem við höfum allir verið að bíða eftir!
Eftirrétturinn!
Og svo megiði opna pakkana eftir á.
Í ár verður gamlárskvöldið með helst til öðrum hætti en hingað til. Við gerðum samning við Kína. Og þeir (Kínverjarnir) ætla að koma og selja okkur flugelda á staðnum. Frítt. Selja þá ókeypis. Ég veit nú ekki hversu margir ykkar hafa nokkuð viðskiptavit, en ég sko sagt ykkur að þetta er sko alls ekki ónýtur díll. Og svo verður bara sprengt eins og við eigum lífið að leysa. Já… spennó!
Síðan verður bara sofið fram á 3. janúar, og þá má bara fara að pakka saman, og byrja að hlakka til Næsta Alræmda Jólalans!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Ég vonast auðvitað til að sjá sem flesta þarna. Ég get lofað því að enginn verður svikinn af þeirri allsherjareðalskemmtun sem þessi Jólalön eru (og þið megið taka það í bankann, ef ykkur sýnist sem svo að það sé eitthvað sem þið viljið gera).
Að lokum verð ég svo að árétt að ég var ekkert allt of viss um hvort ég ætti að senda þetta inn á BF1942-korkinn eða BF2-korkinn, þannig að ég ákvað bara að senda þetta inn sem grein.
Ég sé einhvern veginn ekki eftir því núna. :)