Það hefur verið sýnt framá, sagði hann, að hlutirnir geta ekki verið öðruvísi en þeir eru, því þar sem alt er miðað við einn endi, hlýtur allt um leið að vera miðað við þann allrabesta endi. Athugið hvernig nef manna hafa verið gerð fyrir lonníetturnar; enda höfum við líka lonníettur. Það er bersýnilegt að fætur manna eru til þess gerðir að vera skóaðir, enda höfum við öll eitthvað á fótunum. Grjót hefur orðið til svo hægt væri að höggva það sundur og byggja úr því kastala; og minn herra á einn dægilegan kastala; mesti greifinn í landsfjórðúngnum verður að hafa best í kríngum sig; og til þess eru svínin gerð að maður éti þau, enda erum við étandi svín ár og síð: þar af leiðir að þeir sem segja að alt sé í lagi eru hálfvitar; maður á að segja að alt sé í allrabesta lagi.”, (bls. 32)
Birtíngur eða Birtingur eða Bjartsýnin eins og hún heitir fullu nafni heitir á frummálinu Candide ou l'optimisme. Hún kom fyrst út árið 1759 í Genf, París og víðar og var gefin út undir dulnefni en á titilblaðinu stóð Hrólfur læknir (Mr. le docteur Ralph) skrifaður fyrir henni. En það var "ámóta auðráðið af Birtíngi hver samið hafði bókina og er af hinni íslenzku þýðingu hver þýtt hefur", eins og Þorsteinn Gylfason kemst að orði í inngangi að íslenskri þýðingu Halldórs Laxness (bls. 9).
Birtíngur er einhver skemmtilegasta bók sem samin hefur verið. Hún er í senn sprenghlægileg bók og afar vitruleg. Bókin er skrifuð sem svar til heimspekingsins Gottfrieds Wilhelms Leibniz (1646-1716) en Voltaire tekst á ógleymanlegan hátt að gera grín að kenningum Leibniz og er sagan öll einhvers konar reductio ad absurdum, eða niðursöllun í fáránleika. Bókin er þó læsileg öllum, en ekki einasta áhugafólki um heimspeki. Íslensk þýðing Halldórs Laxness er auk þess prýðileg og nær einstakur stíll Halldórs afar vel að tjá spaugileg blæbrigði Voltaires.
Bókfræðilegar upplýsingar:
Höfundur: Voltaire (1694-1778)
Titill: <i<Birtíngur
Titill á frummáli: Candide ou l'optimisme
Kom fyrst út: í Genf, París og víðar, 1759
Þýðandi: Halldór Laxness
Inngangur eftir: Þorstein Gylfason
Útgefandi: Hið íslenzka bókmenntafélag
Útgáfustaður: Reykjavík
Útgáfuár: 1975, önnur útg. 1996
Blaðsíðufjöldi: 208 bls.
___________________________________