1. Huganafn:
Bilskirnir.
2. Aldur:
18 ára.
3. Kyn:
Ég er kvenkyns. :)
4. Atvinna/Nám:
Nemi í Menntaskólanum í Reykjavík.
5. Fjöldi stiga á /bækur:
Aðeins ein 68 stig…
6. Hvers konar bækur lestu helst?
Hvað sem er í rauninni. Allt sem er vel skrifað og heldur manni vel við efnið. Ég hef sérstaklega gaman af fantasíu, einstaka reifari getur líka verið dágóð dægrastytting. Klassík og skáldsögur af ýmsu tagi geta líka verið mjög góð lesning, eitthvað eins og Flugdrekahlauparinn eða Jane Austen bækurnar til dæmis.
7. Uppáhaldsbók/bækur:
Þær eru margar mjög góðar en eins og á við um flest fólk á mínum aldri á Harry Potter sér sérstakan stað í hjarta mínu… Ég aldist upp með þessum bókum, las þá fyrstu þegar ég var að læra að lesa og hef ekki hætt síðan.
8. Uppáhaldshöfundur:
Þeir eru margir góðir og með mig er þetta eins með bókmenntir og tónlist: eftirlætin breytast dag frá degi. Miðað við höfunda sem ég hef verið að lesa nýlega þá er ég sérlega hrifin af J. R. R. Tolkien, John Steinbeck og Jane Austen. Eftir að hafa lesið the Catcher in the Rye væri ég alveg til í að lesa fleiri bækur eftir J.D. Salinger… J.K. Rowling er líka alltaf í vissu uppáhaldi sem og höfundur A Song of Ice and Fire seríunnar: George R.R. Martin. Mér þótti Dan Brown líka æði hérna áður fyrr en miðað við nýjustu bækurnar hans er þetta eitthvað farið að dala hjá karlgreyinu… Svo eru Eragon bækurnar hálfgert guilty pleasure hjá mér þannig að ég verð að segja Chris. Paolini líka. :)
9. Hvað ertu að lesa í augnablikinu?
Eins og er virðist ég vera að drukkna í námi og hafa lítinn tíma fyrir annað… Er þess vegna aðeins að lesa kjörbækur fyrir skólann. Í ensku er ég að lesa To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee og lofar hún góðu enn sem komið er. Ég fer vonandi fljótlega að geta byrjað á Brennu-Njáls sögu fyrir íslensku líka. Uppi í skáp er svo bókamerkið enn á sínum stað í Pride and Prejudice eftir Jane Austen og í bók Stephens Hawkings, Sögu tímans. Ég ætla mér að grípa í þær aftur þegar ég hef tækifæri til.
10. Hvað lastu síðast?
Í rauninni er kominn svolítill tími síðan ég lauk við bók síðast en það var bókin Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini. Síðan hef ég byrjað á bókum en ekki náð að klára sökum anna.
11. Hvað ætlarðu að lesa næst?
Ég ætla að klára það sem ég er byrjuð á og nefndi fyrir ofan. Eftir það eru þónokkrar bækur uppi á skáp sem ég býð spennt eftir að lesa, t.d. Grapes of Wrath eftir John Steinbeck, Salka Valka eftir Laxness, A Thousand Splendid Suns eftir Khaled Hosseini og fleiri. Ég er alltaf á leiðinni að lesa Birtíng eftir Voltaire og Don Kíkóta líka og svo er löngu kominn tími á að fara að byrja á Millenium seríunni eftir Stieg Larsson.
12. Kaupirðu þér oft bækur?
Já. Mín skoðun er sú að þú getir aldrei eytt peningum í bækur, þetta eru verðmæti sem þú átt alltaf og hafa að mörgu leyti betra notagildi en peningar. :) Hins vegar mætti segja að ég kaupi of mikið af þeim því ég á mun fleiri nýjar bækur en ég hef tök á að lesa.
13. Hvað lestu ca. margar bækur mánaðarlega?
Það fer allt eftir því hversu upptekin ég er í skóla, hvort ég sé í jólafríi eða að vinna. Ég get, eins og aðrir, klárað skáldsögu í fullri lengd á 2-3 dögum en oft tekur það lengri tíma.
14. Nýtirðu þér almenningsbókasöfn?
Svo sannarlega, ég á alltaf 2-3 kort á bókasöfn á höfuðborgarsvæðinu auk skólabókasafns. :)