Hómer (uppi á 8. öld f.Kr.) er höfuðskáld Grikkja fyrr og síðar. Margar grískar borgir vilja eigna sér skáldjöfurinn sem sagan segir að hafi verið blindur en að líkindum hefur hann komið frá eynni Kíos undan strönd Litlu Asíu eða frá borginni Smyrnu. Alltént bendir eitt og annað til þess að ljóðabálkar þeir sem honum eru eignaðir séu ortir á því svæði. En um Hómer sjálfan er lítið sem ekkert vitað. Því hefur meira að segja verið haldið fram að það hafi aldrei verið til neinn Hómer, þ.e. eitthvert eitt skáld sem samdi þau kvæði sem Hómeri eru eignuð. Ljóðabálkarnir sem Hómer eru eignaðir eru tveir, Ilíonskviða og Ódysseifskviða, en lengi var í tísku að halda því fram að um tvö skáld væri að ræða, eitt fyrir hvora kviðuna. Þótt þessi kenning verði sjálfsagt ekki hrakin endanlega má þó segja að hún sé ekki í tísku meðal fræðimanna um þessar mundir.
Kviðurnar tvær eru ortar á forngrísku, á mállýsku sem er einhvers konar blanda af æólískri og jónískri mállýsku, en oft er fjallað um málið á Hómerskviðum eins og um sérstaka mállýsku væri að ræða í málfræðibókum um forngrísku og til eru sérstakar orðabækur fyrir grísku Hómerskviðanna. Kviðurnar eru ortar undir bragarhætti sem nefnist hexametur eða sexliðaháttur en hefur einnig verið nefndur hetjulag á íslensku. Íslensku þýðingarnar eru hins vegar á óbundnu máli en almennt tíðkast hvort tveggja að þýða fornan kveðskap yfir á bundið og óbundið mál. Það var Sveinbjörn Eglisson (1791-1852) sem vann það þrekvirki að þýða kviðurnar yfir á íslensku á 19. öld. Hann hófst reyndar handa við að koma Ilíonskviðu yfir á bundið mál en entist ekki ævin til þess. Sonur hans Benedikt Gröndal (1826-1907) lauk því verki og Ilíonskviða er því einnig til á íslensku undir fornyrðislagi, en sú útgáfa er löngu ófáanleg.
Ódysseifskviða segir frá hrakförum Ódysseifs á leið sinni heim til Íþöku frá Tróju þar sem Grikkir höfðu setið um borgina í tíu ár, eins og segir frá í Ilíonskviðu, og að lokum lagt hana í rúst. Ódysseifur átti ekki sjö dagana sæla á leið sinni heim. Eftir tíu ára hersetu um Tróju þurfti hann að flækjast um í önnur tíu ár á leið sinni heim þar eð förunautar hans höfðu reitt guðinn Helíos til reiði er þeir átu naut hans. Á leiðinni heim ratar Ódysseifur í alls kyns raunir sem eru hreint út sagt með ólíkindum, enda er Ódysseifskviða ævintýri. Í sjö ár tvaldi hann á eyju hjá gyðjunni Kalypsó sem nauðgaði honum til samlags við sig á hverju kvöldi. Þegar Ódysseifur kemst þaðan lendir hann m.a. í Skyllu og Karybdísi, Kýklópanum Polýfemosi - eineyðgum risa sem Ódysseifur blindar - og seiðkerlingunni Kirku sem breytir förunautum Ódysseifs í svín.
Grípum niður í textann:
„En er vínið tók að svífa á risann, þá talaði ég til hans blíðum orðum, og sagði: „Spyrðu mig, risi, að mínu alkunna nafni; ég skal segja þér satt frá því, en þú gef mér gestgjöf nokkura, eins og þú hést mér. Nafn mitt er Enginn, og Engan kallar mig móðir mín og faðir minn og allir vinir mínir”.
Svo mælti ég, en hann svaraði mér aftur af grimmum hug: „Ég skal eta Engan síðastan, þegar ég er búinn áður að ljúka við alla förunauta hans; þetta skal vera gestgjöfin þín”.
Í því hann sagði þetta, valt hann á bak aftur og datt upp í loft, lá svo og beygði út á hlið sinn digra svíra; greip hann þá svefninn er sigrar allt. Gaus þá vínið upp úr kverkunum og mannakjötsbitarnir, en hann var að æla, ofdrukkinn af víninu. Þá tók ég staurinn, rak hann í eymyrju og hélt honum þar uns hann varð brennheitur. Hughreysti ég með orðum alla lagsmenn mína, svo enginn skyldi verða ragur og renna. En er viðsmjörsviðarstaurinn, enn þótt hann væri glænýr, var orðinn næsta hvítglóandi og við sjálft lá að í honum mundi kvikna, þá tók ég hann úr glóðinni og bar hann nær. En lagsmenn mínir stóðu umhverfis og blés guð nú miklu áræði í brjóst oss. Þeir tóku viðsmjörsviðarstaurinn og hleyptu oddmjóa endanum inn í augað, en ég vó mig upp á efra endann og hringsneri staurnum. Eins og þegar einhver smiður borar skipatimbur með stórviðarbor, en sveinar hans sem standa undir niðri halda í streng beggja vegna og hringsnúa rennibornum svo hann hleypur viðstöðulaust, eins tókum vér hinn oddbrennda staur og hringsnerum honum í auga risans; var staurinn glóðheitur og flaut blóðið upp með honum öllum megin. Hvarmarnir og brýrnar alstiknuðu af svælunni, meðan sjáaldrið brann; sauð þá í augnatóftinni af eldinum. Það var viðlíka og þegar járnsmiður herðir stóra bolöxi eða handöxi og bregður henni í kalt vatn svo hún suðar hátt við, því það er það, sem gefur járninu hörkuna aftur; eins sauð í auganu þegar viðsmjörsviðarstaurinn stóð í gegnum það.
Risinn öskraði þá ógurlega hátt svo að glumdi í öllum hellinum, en vér urðum hræddir, og stukkum burtu. Síðan kippti hann staurnum allöðrandi í blóði út úr auganu og þeytti honum frá sér af hendi, því hann þoldi ekki við. Hann kallaði hástöfum á þá Kýklópa er bjuggu í grennd við hann í hellum, hér og hvar um fjallahæðirnar. En er þeir heyrðu ópið, komu þeir úr sinni átt hver, numu staðar hjá hellinum og spurðu, hvað að honum gengi: „Hvað er þér svo mjög að angri, Polýfemos, er þú æpir svo hátt á náttarþeli, og heldur vöku fyrir oss? Hvort vill nokkur ræna þig fé þínu að óvilja þínum? Eða vill nokkurr drepa þig með vélum eða ofríki?”
Hinn sterki Polýfemos svaraði þeim inni í hellinum: „Enginn drepur mig, góðir vinir, með vélum og ekki með ofríki”.
Þeir svöruðu honum með vængjuðum orðum og sögðu: „Fyrst svo er, að þú ert einn þér, og enginn veitir þér ofríki, þá sækir þig víst einhver sjúkleikur frá hinum mikla Seifi og hjá honum verður ekki komist. Er þér því best að heita á hinn volduga Póseidon, föður þinn, þér til hjálpar.”” (bls. 103-104)
Í þessari útgáfu er að finna þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar endurskoðaðað af Svavari Hrafni Svavarssyni. Þýðing Sveinbjarnar er framúrskarandi hagleikur og á allan hátt glæsileg. Hún er hins vegar komin til ára sinna og því hefur orðfæri Sveinbjarnar og stafsetningu verið breytt á stöku stað til þess að gera textann læsilegri fyrir nútímalesendur. Langoftast hefur þó orðfæri Sveinbjarnar verið látið standa óbreytt. Þá hefur þýðingunni verið breytt á stöku stað þar sem nákvæmni var umdeilanleg og línum verið bætt inn sem fallið höfðu brott hjá Sveinbirni, en Sveinbjörn hafði sjálfur í endurskoðun sinni á textanum fellt brott ýmsar línur sem þótt höfðu grunsamlegar allt frá því á fornum tíma, jafnvel þótt hann hafi upphaflega haft þær með í þýðingunni. Svavar Hrafn gerir grein fyrir þessum og öðrum smávægilegum breytingum í stuttum eftirmála við þýðinguna, auk þess sem þar segir m.a. frá útgáfusögu íslensku þýðingarinnar. Helstu breytingar eru merktar í textanum sjálfum með örlítið daufara letri og getur þá lesandinn borið textann saman við útgáfu þá sem Kristinn Ármansson og Jón Gíslason önnuðust um miðja 20. öld (Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1948). Á eftir eftirmálanum er að finna kort af ferðum Ódysseifs, skýringar Svavars Hrafns Svarassonar, þá nafnaskrá manna og vætta, því næst nafnaskrá þjóða og hópa og að lokum efnisyfirlit.
Þessi útgáfa kviðunnar er afar smekkleg og aðlaðandi. Það er vonandi að Ilíonskviða verði ekki skilin eftir heldur verði hún nú einnig tekin sömu tökum og gefin út að nýju.
Bókfræðilegar upplýsingar:
Höfundur: Hómer (8. öld f.Kr.)
Titill: Ódysseifskviða
Þýðandi: Sveinbjörn Egilsson, Svavar Hrafn Svavarsson annaðist útgáfuna
Útgefandi: Bjartur
Útgáfustaður: Reykjavík
Útgáfuár: 2004
Blaðsíðufjöldi: 314 bls.
(gthth)
___________________________________