Sögurnar sem nú eru kenndar við Esóp eru rúmlega tvöhundruð talsins. Sögurnar hafa orðið sígild ævintýri sem lesin hafa verið fyrir börn öldum saman. Þær eiga það allar sameiginlegt að í þeim öllum er boðskapur sem er einfaldur en fallegur. Oft eru dýrin í aðalhlutverki, en ef til vill má segja samt sem áður að sögurnar snúist öðru fremur um mannlífið. Þannig hefur boðskapurinn uppeldislegt markmið. Og hann á ekki síður erindi við okkur í dag en hann átti fyrir tvöþúsund árum síðan. Hann fjallar um dygðir og lesti, eins og stolt og hroka, þakklæti, stórmennsku og sannsögli (hver kannast ekki við söguna um drenginn sem hrópaði „Úlfur!”?). Boðskapur sagnanna sem og sögurnar sjálfar eru sannarlega tímalausar.
Ýmsir hafa orðið til þess að þýða dæmisögurnar yfir á íslensku. Má þar nefna Stefán Ólafsson, Pál Vídalín og Steingrím Thorsteinsson auk annarra. Nýlegasta og ef til vill aðgengilegasta þýðingin er hins vegar þýðing Þorsteins frá Hamri sem kom út árið 1979 hjá Bókaforlaginu Sögu. Í þessari útgáfu eru að vísu ekki allar sögurnar, heldur úrval sagna, 114 talsins, en það er einungis rúmlega helmingur þeirra sagna sem við Esóp eru kenndar. Óskandi hefði verið að sögurnar væru allar aðgengilegar íslenskum lesendum. Þýðing Þorsteins er afar læsileg og vönduð. Myndskreytingar Franks Baber eru einnig mjög fallegar og gera lestur bókarinnar jafnvel ánægjulegri.
Eins og áður sagði hafa dæmisögurnar fyrir löngu síðan orðið sígild ævintýri sem lesin eru fyrir börn, en vitaskuld eru þær ekki einvörðungu ætlaðar börnum, heldur geta fullorðnir einnig haft af þeim bæði gagn og gaman. Þeir sem bókina eiga ættu að endurnýja kynnin við hana; þeim kæmi það ef til vill ánægjulega á óvart hversu skemmtilegar dæmisögurnar eru enn á fullorðinsárum; og er þá tilvalið að lesa hana fyrir yngri kynslóðina í leiðinni. En þeir sem þekkja ekki til bókarinnar ættu umfram allt að kynna sér hana.
Bókfræðilegar upplýsingar:
Höfundur: Esóp (uppi á 6. öld f.Kr.)
Titill: Dæmisögur Esóps
Þýðandi: Þorsteinn frá Hamri
Myndskreyting: Frank Baber
Útgefandi: Bókaforlagið Saga
Útgáfustaður: Reykjavík
Útgáfuár: 1979
Blaðsíðufjöldi: 116 bls.
(gthth)
___________________________________