Sagan gerist líklega undir lok 25. aldar en aldrei er sagt hvaða ár sagan gerist, enda ekki stuðst við okkar tímatal í því samfélagi sem hún lýsir. Þó má reikna það út þar sem sagt er á einum stað að árið sé 632 eftir Ford og er þá vísað til Henrys Ford, bílaframleiðanda (uppi 1863-1947). Sagan greinir frá því er nýtt samfélag hafði risið upp úr rústum annars heims. Alheimsríkið var orðið til, þar sem trúarbrögð og sagnfræði höfðu verið bönnuð sem og barneignir og ýmislegt annað. Í stað barneigna eru börn ræktuð í sérstökum líftækniverksmiðjum; þau eru öll klónuð glasabörn. Allir eru svo skyldagaðir eða skilyrtir til þess að falla í rétt samfélagsmynstur. Það er að segja, hver einn og einasti samfélagsþegn er heilaþveginn. Samfélagið er líka rammlega stéttarskipt. Í því eru fimm stéttir: alfa, beta, gamma, delta og epsilon. Lágstéttirnar (gamma, delta og epsilon) eru ræktaðar heimskari en hástéttirnar og eru heilaþvegnar þannig að þær una sér best við vinnu t.d. í kolanámu og vilja ekki önnur hlutskipti en þeim er ætlað.
Sagan greinir svo frá því þegar Bernard Marx og Lenina Crowne (takið eftir nöfnunum) fara til verndarsvæðis í Nýju Mexikó þar sem enn lifa ”villtir” menn. Þar hitta þau ”villimanninn” John, en móðir hans, sem hafði verið beti, hafði fætt hann á verndarsvæðinu og verið þar í um tuttugu ár. Bernard Marx tekur hann með sér aftur til Lundúna þar sem villimaðurinn veldur miklum usla.
Í 16. og 17. kafla eru magnaðar samræður þar sem villimaðurinn ræðir við Mustapha Mond, yfirstjórnanda Vestur-Evrópu. Þeir ræða m.a. um frelsið og frjálsa hugsun, gildi Shakespears og annarra lista og um Guð og hamingjuna. Hvers virði eru þessir hlutir í samfélagi þar sem sjúkdómum hefur verið útrýmt og þar sem allir hafa vinnu og engin býr við sáran skort?
””En ég hafna þægindum. Ég vil hafa Guð, ég vil hafa skáldskap, ég vil raunverulega hættu, ég vil frelsi, ég vil gæsku. Ég kýs að hafa synd.”
”Í raun og veru ertu að krefjast þess að fá að vera óhamingjusamur, ” sagði yfirstjórnandinn
”Já, allt í lagi, ” svaraði villimaðurinn þrjóskulega, ”ég er að krefjast þess að fá að vera óhamingjusamur.”
”Svo ekki sé talað um réttinn til að eldast og verða ljótur og getulaus, réttinn til þess að fá kynsjúkdóma og krabbamein, til að hafa of lítið að éta, réttinn til að vera lúsugur og réttinn til að lifa í stöðugum ótta um hvað morgundagurinn beri í skauti sér, réttinn til að smitast af taugaveiki og réttinn til að vera þjakaður af alls konar óbærilegum kvölum.” Það varð löng þögn.
”Ég krefst alls þessa, ” sagði villimaðurinn að lokum.
Mustapha Mond yppti aðeins öxlum og sagði: ”Verði þér að góðu.” (bls. 197).
Þýðingin er að mestu leyti sæmileg en þó hnökrar á köflum. Á einum stað segir t.d. ”Spjaldskráin er 88 teningsmetrar…” (bls. 11). Hvað ætli teningsmetrar séu? Ætli hér sé ekki reynt að þýða ”cubic metres”, sem eru að því er ég best veit bara venjulegir rúmmetrar. Þá er einnig nokkurt ósamræmi í meðferð nafna. Aftan á bókinni er eftirnafn Leninu stafað ”Crown” en annars staðar í bókinni ”Crowne”. Útgáfan er því hreint ekki til fyrirmyndar. En það ætti enginn að láta fara of mikið í taugarnar á sér. Sagan er eftir sem áður vel þess virði að hún sé lesin.<br>
Bókfræðilegar upplýsingar:
Höfundur: Aldous Huxley (1894-1963)
Titill: Veröld ný og góð
Titill á frummáli: A Brave New World
Kom fyrst út: 1932 á ensku
Þýðandi: Kristján Odsson
Útgefandi: Mál og menning
Útgáfustaður: Reykjavík
Útgáfuár: 1988
Blaðsíðufjöldi: 212 bls.
___________________________________