Allir harmleikirnir grísku hafa verið þýddir nema einn. Þá má finna í þýðingu Helga Hálfdanarsonar í safni frá Máli og menningu sem heitir <i>Grískir harmleikir</i>. Reyndar er sagt í bókinni að þarna séu allir harmleikirnir þýddir, en það er bara ekki rétt. Það vantar í safnið leikritið <i>Meyjar í nauðum</i> eftir Evripídes. (Ekki má rugla því saman við leikrit Æskýlosar sem einnig heitir <i>Meyjar í nauðum</i>). Þýðingar Helga eru frábærar og hreinn skemmtilestur. Hann þýðir samt ekki beint úr frummálunum, þannig að hér er ekki um fræðilegar þýðingar að ræða.
Örlítið fræðilegri þýðingar eru þýðingar Jóns Gíslasonar. Hann er samt ekki eins skemmtilegur aflestrar. Þar að auki hefur hann ekki þýtt nærri því alla harmleikina. En þýðingar Jóns eru til í útgáfu Menningarsjóðs (sem Mál og menning á núna). Þá má líka benda á að framan við þýðingar Jóns eru yfirleitt mjög góður inngangur þar sem m.a. er greint frá ævi og störfum höfundar, efni verkanna og baksviði þeirra, handritageymd o.s.frv. Í útgáfu Menningarsjóðs eru einnig til tveir gamanleikir eftir Aristófanes.
Ef spurt er hvaða leikrit eru skemmtilegust þá er <i>Antígóna</i> Sófóklesar eitt af mínum uppáhaldsleikritum. Þú ert hins vegar búin(n) að lesa hana. Þá mæli ég með <i>Ödípúsi konungi</i>, sem er einnig eftir Sófókles, og <i>Ífigeníu í Ális</i> eftir Evripídes. Hins vegar þykja mér leikritin <i>Ödípús í Kólonos</i> eftir Sófókles, og <i>Ífigenía í Táris</i> eftir Evripídes mun síðri og mæli ég ekki eins mikið með þeim (þótt þau séu alls ekki slæm leikrit útaf fyrir sig).
Önnur góð leikrit eru t.d. <i>Elektra</i> Sófóklesar, <i>Medea</i> eftir Evripídes og <i>Óresteian</i> öll eftir Æskýlos (þ.e. eini þríleikurinn sem varðveist hefur úr fornöld og samanstendur af leikritunum <i>Agamemnon</i>, <i>Sáttarfórn</i> og <i>Hollvættir</i> eins og þau heita í þýðingum Helga Hálfdanarsonar, en þau tvö síðarnefndu heita reyndar <i>Dreypifórnfærendur</i> og <i>Refsinornir</i> í þýðingu Jóns Gíslasonar). <i>Óresteian</i> er reyndar svolítið þung, en Æskýlos er ekki alveg eins lipur höfundur og t.d. Sófókles (lengri ræður og stirðari samræður o.s.frv.). Leikrit Æskýlosar <i>Sjö gegn Þebu</i> er allt í lagi, en <i>Prómeþeifur</i> finnst mér eiginlega leiðinlegast allra leikritanna. Ég held að ástæðan sé sú að <i>Prómeþeifur</i> hafi verið fyrsti hluti þríleiks og fer þá í að kynna persónur o.s.frv. - sem sagt lítið að gerast - en hin tvö leikritin í þríleiknum hafi glatast (höfum í huga að einungis 33 harmleikir eru varðveittir auk nokkurra brota en alls hafa Aþeningar skrifað um 1000 leikrit bara á 5. öld f.Kr.). En það er nú samt bara mín kenning að <i>Prómeþeifur</i> sé fyrsti hluti þríleiks.
En leikritin eru venjulega ekki mjög löng (á að giska frá 30 til 50 síður hvert), þannig að ég mæli bara með að menn gefi sér tíma til að lesa eitt og eitt í einu og mynda sér sínar eigin skoðanir :)<br><br>_____________________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________