Í fyrsta lagi, já það er til skáldaleyfi og ef þú verður einhvern daginn rithöfundur þá geturðu leyft þér að stafsetja orð vitlaust.
Í öðru lagi, það er í dag til lögboðin stafsetning. Hún er samt tiltölulega nýtilkomin. Svona skrifuðu t.a.m. ekki Jónas Hallgrímsson, Sveinbjörn Egilsson og Steingrímur Thorsteinsson á 19. öld. En hvað um það, það var ákveðið að stafsetning skyldi miðast við orðsifjar. Það er að segja, það skiptir öllu af hvaða orðum og orðstofnum orð eru upp á það hvernig þau eru stafsett. Þannig er t.d. skrifað “þótt ég finni” (sögnin “að finna” í nútíð í viðtengingarhætti) en “þótt ég fyndi” (sama sögn í þátíð í viðtengingarhætti). Ástæðan er sú að þátíð viðtengingarháttar er mynduð af þriðju kennimynd sagnar (kennimyndir sagnarinnar “að finna” eru: finna, fann, fundum, fundið. u => y).
Þetta er góð og gild regla. En hún er langt frá því að vera sjálfsögð. Það er alveg eins hægt að ákveða að stafsetning skulið miðast við framburð en ekki orðsifjar. Með öðrum orðum eru lögmál réttritunar engin náttúrulögmál, heldur byggja þau fyrst og fremst á samkomulagi - engu öðru.
Laxness ákvað að stafsetja orð á annan hátt. En hann er ekki í raun að gera neinar stafsetningarvillur. Hvers vegna segi ég það? Jú, vegna þess að “villa” gefur til kynna að hann sé að brjóta reglu(r). En hann ákvað að taka ekki þátt í sama “leik” með sömu reglum. Þetta er svipað og drengur sem er einn úti að leika sér með fótboltann sinn. Svo tekur hann boltann stundum upp með höndunum. En það er ekki hægt að saka hann um að brjóta reglurnar í fótbolta - hann er ekkert að spila fótbolta með þeim reglum sem þar gilda. Laxness er svipaður, hann ákvað að fara eftir öðrum reglum, og það mátti hann alveg. Auk þess er hann sjálfum sér samkvæmur (eða ég veit ekki betur).
Að lokum stenst ég ekki freistinguna: Þeir sem ætla að gagnrýna Laxness ættu að láta það ógert ef þeir geta ekki stafsett rétt sjálfir. Þú segir að frægð ein og sér gefi honum ekki leyfi til “að skrifa stafsetningar villur eins og hann vill”. En “stafsetningarvilla” er eitt orð. Svo segirðu “Við ”Táningarnir“ nú til dags er harðbannað að skrifa svona…”. En ætti þetta ekki að vera “Okkur ”táningunum“ nú til dags er harðbannað að skrifa svona…”?<br><br>_____________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________