Eins og ég ef skrifað annars staðar þá er ég að lesa þessar:
Das Buch der Tugenden - Ulrich Wickert
Samansafn ummæla mikils metinna manna um dyggðir. Sumt er uppfyllt glimrandi innsýnum, sumt er skvapkennd hugsanamóða. Aristóteles er náttúrulega bara vitleysingur.
The Faber Book of Science
Önnur safnbók, þessi er safn brota úr vísindatengdum verkum, svosem ritum Galíleó, Darwin, lýsingum á tilraunum Enrico Fermi til kjarnaklofnings og þvíumlíkt. Mögnuð bók, frábært safn.
The Demon-Haunted World - Carl Sagan
Carl Sagan að kvarta yfir hve margir trúa á fljúgandi furðuhluti. Skemmtilegt að heyra lýsingarnar hans stundum og hann hefur áhugaverðar innsýnir, en í heildina takmarkaðri bók en ég hafði vonast eftir.
The Extended Phenotype - Richard Dawkins
Ég las The Selfish Gene og hef víða séð Dawkins mæla með þessari. Ég er enn í fyrstu köflunum sem rifja upp TSG svo ég get fátt sagt um hana.
My Man Jeeves - P.G. Wodehouse
Wodehouse á það sameiginlegt með Douglas Adams að allt sem hann skrifar verður að gulli. Þessi bók er safn smásagna sem sumar fjalla, augljóslega, um ævintýri Bertie Wooster og Jeeves, þótt aðrar persónur með grunsamlega lík einkenni en önnur nöfn séu viðfangsefni hinna.
The Rough Guide to Climate Change - Robert Henson
Ég vonaðist til að finna yfirlitsbók um þetta viðfangsefni og þessi stendur alveg undir nafni. Hún er blessunarlega laus við fárkenndar handaveifur en vísar ríkulega í rannsóknir sem maður getur leitað uppi. Tilvísanirnar eru reyndar mjög óbeinar og gefa yfirleitt bara upp höfunda og ártal skýrsla og rannsókna. Mér hefði þótt betra að fá alvöru heimildaskrá, en þannig er það bara. Ágætis bók, samt.