Núna er ég eiginlega með þrjár bækur í gangi.
Sú fyrsta er Deutsche Erzähler der Gegenwart, en það er gömul bók með þýskum smásögum sem afi lánaði mér. Ég er að reyna að bæta þýskuna mína fyrir Þýskalandsförina mína í sumar.
Svo er ég líka að lesa Soul Eater eftir Michelle Paver. Þetta er framhald af bókunum Wolf Brother og Spirit Walker, sem komu báðar út í íslenskri þýðingu fyrir nokkrum árum, en svo virðist sem hætt sé að þýða bókaflokkinn (sem er synd því að þær eru virkilega vel þýddar).
Þriðja bókin sem ég er að lesa er Harry Potter and the Chamber of Secrets. Miðað við hvað ég tel mig mikinn HP-aðdáenda var orðið skammarlegt hversu langt var liðið síðan ég las bækurnar síðast. Nú ákvað ég að gera þetta almennilega og kaupa mér bækurnar á ensku og lesa þær á frummálinu.
Eftir að ég hef lesið þessar bækur ætla ég að lesa Bogann eftir Bo Carpelan enn einu sinni, því þetta er yndisleg bók. Ég sá líka framhaldið, Paradís, til sölu á bókasafninu og keypti hana auðvitað og vil því fríska upp á minnið með því að lesa fyrstu bókina.
En nú er ég forvitin. Hvaða bók/bækur eruð þið að lesa í augnablikinu/langar ykkur að lesa á næstunni? Eitthvað sem þið mælið með?