Hérna er gagngrýni um Lovestar eftir Þorgerði E. Sigurðardóttir
Andri Snær Magnason hefur komið víða við, gefið út ljóð, smásögur, og barnabók og skrifað leikrit, en hér er um fyrstu skáldsögu hans fyrir fullorðna að ræða.
Sögusviðið er Ísland framtíðarinnar, sem er nú í greipum alþjóðlegs risafyrirtækis, LoveStar sem hefur meðal annars náð hámarksárangri í því að skipuleggja ástarlíf jarðarbúa og markaðssetja dauðann á stórbrotinn hátt og jafnvel enn stærri verkefni bíða þess. Í þessum heimi láta einstaklingarnir stjórnast af tækni og tölfræði, hér er kominn hinn “frjálsi”, handlausi maður, sem er fórnarlamb yfirdrifinnar markaðshyggju, hann lætur öðru fremur stjórnast af áætluðum þörfum sínum innan ákveðins markhóps. Hátæknin hefur gert það að verkum að þörfum hans má að því er virðist fullnægja fullkomlega með hjálp tölfræðinnar og tækninnar. Þetta gengur þó ekki alltaf áfallalaust, eins og fram kemur í sögu elskendanna Sigríðar og Indriða, sem þurfa að glíma við ýmsar afleiðingar þessarar uggvænlegu þróunar.
Þessi saga er til marks um ótrúlega frásagnargleði, hugmyndaflug höfundar er þvílíkt, að lesandinn hefur varla við að taka við nýjum hugmyndum. Sagan er í senn vísindaskáldsaga, ástarsaga, ævintýri og dæmisaga, auk þess að vera skemmtisaga hin mesta. Davíð liggur smurður í grafhvelfingu sinni í Keili, farið er að fjöldaframleiða lóur til að dreifa um móana og verið er að þróa ný gæludýr sem líta út eins og Mikki mús. Á tímabili hafði ég áhyggjur á því að bókin myndi hreinlega springa utan af öllum hugmyndunum, en eins og fram kemur í bókinni, þá stöðvar ekkert hugmyndirnar þegar þær eru komnar af stað, og óhætt er að segja að það eigi vel við um þessa skáldsögu.
En þó að þessi bók sé mesta skemmtilesning, þá er hún engan veginn léttvæg. Mér finnst hún að mörgu leyti rökrétt framhald af barnabókinni Bláa hnettinum, enda er þetta ævintýri fyrir fullorðna með feykilega sterka samfélagslega skírskotun. Hér er á ferð blússandi ádeila á það sem er efst á baugi í samfélagsumræðunni í dag, til dæmis nýtingu náttúruauðlinda, tengsla vísinda og markaðsstarfsemi, samþjöppun valds hjá stórfyrirtækjum, fyrir utan gagnrýni á yfirdrifna tæknihyggju, foringjadýrkun og markaðsást.