Ég las þessa bók nýlega, og varð algjörlega hugfangin, og ég bara varð að skrifa grein um hana.
Brýrnar í Madísonsýslu (The Bridges of Madison County) eftir Robert James Waller segir frá stuttu en afdrifaríku ástarsambandi Robert Kincaid og Francescu Johnson. Sagan gerist árið 1965 og á árunum eftir það. Hún er fertug, gift bóndakona í landbúnaðarfylkinu Iowa en hann flakkandi, fimmtugur ljósmyndari fyrir National Geographic. Þau kynnast þegar hann biður hana að vísa sér á brú sem hann ætlar að mynda, og verða strax hugfangin hvort af öðru. Eiginmaður Francescu er þá á landbúnaðar sýningu, og hún og Robert eyða næstu dögum saman.
Bókin var mjög vinsæl fyrir u.þ.b tíu árum í Bandaríkjunum, fékk verðlaun og sat lengi á toppum vinsældalista. Mynd með Meryl Streep og Clint Eastwood í aðalhlutverkum var svo gerð eftir bókinni, en ég hef ekki séð hana.
Þessi bók er svo einföld og laus við allar klisjur. Það er ekki oft sem við rekumst á ástarsögur um miðaldra fólk sem gat orðið svo hrifið hvort af öðru. Hér er engin dramatík í gangi, enginn sem reynir að skemmar fyrir þeim. Í bókinni eru blóm og kertaljós, en það gerir hana bara hversdagslegri, maður getur nærri því fundið fyrir atburðunum.
Ef þið lásuð ekki þessa bók þegar hún var hvað vinsælust, ættuð þið að gera það núna, hún hefur engu tapað.