Hvernig bækur lesa Íslendingar?
Ég er tiltölulega nýr hér á Huga, en hef þó tekið eftir því að umræðan um bækur virðist ekki eiga margt skylt með því úrvali bóka sem gefið er út á Íslandi. Hér hef ég séð miklar umræður um fantasíubókmenntir, vísindaskáldskap, hrollvekjur o.s.frv. en það verður að segjast eins og er að svona bækur eru sjaldséðar á íslensku. Eina fantasíubókin sem ég man eftir á íslensku eftir Íslending er barnabókin Í gegnum þyrnigerðið. Það verður að segjast eins og er að íslenskar bókmenntir virðast einskorðast talsvert við ævisögur og misskiljanlegar skáldsögur. Af hverju er þetta svona? Þessar bækur seljast líklega vel en væri ekki hægt að láta bókaútgefendur einhvernvegin vita að við viljum fjölbreyttara úrval? Hins vegar verður að segjast eins og er að það er talsvert erfitt að þýða sumar fantasíubækur. Sjálfur hef ég verið að gera tilraun til að þýða The Colour of Magic eftir Terry Pratchett en hef komist að raun um að það er mjög erfitt. Ég held hins vegar að það sé mjög nauðsynlegt að krakkar geti nálgast þessar bókmenntir á íslensku þá kannski fara þeir að lesa þær á ensku þegar kunnátan verður næg. Ég skora hér með á íslenska útgefendur að fara að gefa út fjölbreyttari bækur og fá einhverja til að þýða góðar fantasíubækur.