Komið sæl!
Ég hef lengi velt fyrir hvers vegna ekki sé til staðar jafn fjölbreytt bókmenntalíf hér á landi, eins og í enskumælandi löndum. Þar má auðveldlega finna bókaflokka sem lítið sem ekkert hefur sést af hér á landi, eða það er litið niður á þá. Sem dæmi, þá er hér um vil engar vísindaskáldsögur eða fantasíu-skáldsögur gefnar út á íslensku, og álíka margar þýddar. Þetta þykir mér miður.
Þó er ein bókmenntagrein sem er nokkuð mikið þýdd, miðað við vísindaskáldsögur, en hér um bil ekkert af íslenskum rithöfundum sinnir, að öðru leyti. Þetta eru hryllingsbókmenntir. Bækur eftir Stephen King hafa verið þýddar(nú verð ég eflaust púaðir niður af aðdáendum alvöru hryllingsbóka fyrir að hafa nefnt King á nafn) og eitthvað á stangli héðan og þaðan. En hvers vegna ætli íslenskir rithöfundar séu svo einsleitir?
Lengi vel var spennusagan jafnvel talin óhæf íslenskum bókamarkaði, en sem betur fer er það nú að breytast. Arnaldi Indriðasyni og fleiri góðum spennusagnahöfundum hefur tekist að lyfta þeirri bókmenntagrein til vegs og virðingar.
Ég er samt á þeirri skoðun að það hefur einn íslenskur höfundur reynt að skrifa hrylling og tekist bærilega upp. Það er Gunnar Gunnarsson. Bækur hans og smásögur eru margar hverjar skrifaðar undir áhrifum frá Poe og íslenskum draugasögum. Augu Dauðans er gott dæmi um slíka smásögu. En , því miður, hefur enn þann dag í dag ekki verið fjallað um bækur hans út frá þeim punkti. Sem dæmi má nefna, að þrátt fyrir að efnistök séu ólík, má finna margt sem er líkt með þeim Gunnari og meistara H.P. Lovecraft.
En, samt sem áður er það staðreynd, að í dag eru ‘popp-bækur’, bækur á borð við Dís, sem ráða ferðinni. Útgefendur eru hræddir við að taka áhættur þegar kemur að því að gefa út bók, og treysta frekar á hagfræðina en fagurfræðina. Þeir vilja frekar panta rithöfunda til að skrifa ákveðna tegund af bókum, sbr. Dís, heldur en að gefa út eitthvað sem hefur ekki birst áður á íslensku. En sem betur fer er alltaf ein og ein útgáfa sem reynir að sinna því hlutverki, og verð ég að segja að Bjartur er virkilega að reyna.
Í raun má segja að það fari um mann hrollur, þegar maður heyrir af ‘jólabókaflóðinu’. En því miður verður það víst eini hrollurinn sem maður fær þessi jól.