Ég stundaði það mikið að lesa bækur á mínum yngri árum (ekki það að ég sé neinn elliheimilismatur) og las þá jafnvel sömu bækurnar oft og mörgum sinnum.
Núna um daginn ákvað ég að rifja aðeins upp þessar bækur sem ég las svo oft, og fyrst á listanum var þá Sagan Endalausa.
Ég hef örugglega lesið þessa bók 5 sinnum, eða oftar, og alltaf finnst hún mér jafngóð. Það er frekar langt síðan ég las hana síðast svo ég mundi ekki alveg söguþráðinn og var það bara betra, hún gat þá komið mér á óvart aftur=) Og það gerði hún svo sannarlega!!
Bókin byrjar á að kynna til sögunnar Bastían Balthasar Búx sem er 10 ára strákur, frekar feitlaginn, feiminn og óskaplega ólögulegur á allan máta. Hann fer inn í bókabúð til að losna undan bekkjarfélögunum og þar sér hann bók sem hann hnuplar með sér og fer upp á loft í skólanum til að lesa. Sú bók er Sagan endalausa.
Þar les hann um Hugarheima, land ævintýranna þar sem allt getur gerst og fylgir söguhetjunni Atrejú í langt og strangt ferðalag sem hann fer í til að reyna að bjarga Hugarheimum frá eyðingu. Bastían dregst smátt og smátt meira inn í bókina og á endanum verður hann hluti af henni.
Ég ætla ekki að segja meira um söguþráðinn svo ég spilli ekki fyrir neinum sem á eftir að lesa hana=)
Þessi bók er snilldarlega skrifuð í alla staði. Söguþráðurinn er langt frá því að vera hefðbundinn (ef það er þá til) og höfundurinn kemur manni sífellt á óvart með ótrúlegu hugmyndaflugi sínu og frumlegum hugmyndum og pælingum. Og mjög vel þýdd af Jórunni Sigurðardóttur einnig!
Michael Ende var þýskur og bókin heitir á frummálinu Die unendliche Geschichte. Hann hefur einnig skrifað snilldarbókina Mómó sem er efni í aðra grein.
Það var gerð bíómynd eftir fyrri helming þessarar bókar, ég held hún heiti einfaldlega Neverending Story en ég hef ekki séð hana.
Ég mæli eindregið með þessari bók fyrir alla!! Bæði krakka sem vilja lesa almennilegt ævintýri og líka fyrir fullorðna sem vilja lesa góða bók og alla þar á milli=) Þetta er ein af mínum uppáhaldsbókum og ég hef lesið þær margar!!
Daddy, don't ever die on a friday! It can seriously damage your health!