Íslenskir spennusagahöfundar hafa aldrei verið í uppáhaldi hjá mér. Ég les mikið af reyfurum og hef alltaf gert það, þegar ég var yngri var það Alistair Maclean, Hammond Innes osfrv. Þegar ég eldist var það Stephen King, Micheal Chricton, Clive Barker ofl.
Í dag er ég eiginlega hættur að lesa reyfara, maður er búin að lesa svo mikið að það kemur fátt, ef eitthvað, manni á óvart. Ég hef reynt að lesa íslenska höfunda. Ég hef mjög oft gaman að íslenskum bókum, en hef aldrei skemmt mér við íslenskum reyfurum. Ástæðan fyrir því hefur oftast verið sú að þeir eru leiðinlegir og ótrúverðugir.
Síðan var mér bent á Arnald Indriðason. Faðir minn, sem les aldrei reyfara, sagði að hann væri nokkuð góður. Þar sem ég treysti gamla kallinum þá ákvað ég að líta eftir einni af bókunum hans Arnalds. Keypti mér bókina Napoleon skjölin á 1500 kall í kiljubindi. Mér var sagt af afgreiðslukonunni að þetta væri hans besta bók. Ég byrjaði að lesa hana og kláraði hana á 2 dögum. Þetta var ekta reifari, leigumorðingar, leyndarmál sem hefur verið grafið öldum saman og eltingaleikar í gegnum nóttina. Ég sat límdur við bókina og gat varla látið hana frá mér. Það var á köflum þar sem mér fannst hún ótrúverðug en hún var það góð að ég lét hana ekki frá mér. Fléttan í henni var alveg frábær, þótt að hún hún hafi verið stór og ótrúverðug.
Ég gat ekki setið á mér og keypti mér aðrabók, líka á 1500 krónur, sú hét “dauða rósir” og í henni kvað allt annan tón. Þetta var lágstemd bók sem byrjaði á því að ung kona finnst látin og bókin fylgir rannsóknarlögreglunni og þeirra persónum. Fléttan í henni er mjög skemmtileg en aftur á köflum ótrúverðug. En samt nógu skemmtileg til þess að ég lagði hana ekki frá mér fyrr en hún var búin.
Síðan hef ég lesið “Mýrin” og “Grafarþögn” ég las sá seinni á 5 klukkutímum, þegar ég byrjaði þá gat ég ekki lagt hana frá mér. Þarna var hann komin í gírinn. Þær báðar fjölluðu um rannsókn á einhverjum hlut og var trúverðug allan tíman. Engir fjöldamorðingar þar, eða eltingaleikir ekkert svoleiðis. Spjall við alla sem tengdust málunum þangað til að lausninn fannst.
´
Ég á eina bók eftir “synir duftsins” sem var hans fyrsta bók. Ég ætla mér að lesa hana sem fyrst, vegna þess að þetta er frábær spennusagna höfundur!