Ýmislegt eiga þessar tvær bækur sameiginlegt annað en höfundinn. Báðar fjalla þær um karlmenn sem eru frekar hlédrægir og verða seint krýndir meistarar í mannlegum samskiptum. Í báðum tilfellum er söguþráðurinn spunninn í kringum tiltölulega venjulega atburði. Í Samkvæmisleikjum um þrítugsafmæli söguhetjunnar en í Sendiherranum heldur aðalpersónan á ljóðahátíð í Litháen. En af einhverjum ástæðum sprettur úr þessum venjulegu atburðum röð afar óvenjulegra atburða.
Samkvæmisleikir fjalla um prentnemann Friðbert sem býður nokkrum kunningjum sínum í veislu í tilefni af þrítugsafmæli sínu. Ekkert sérlega markvert gerist í þessu afmæli nema Elísabet, vinkona og leigusali Friðberts, deyr áfengisdauða í rúminu hans og eitt skópar er í óskilum við dyrnar. En eftir afmælið fer í gang atburðarás sem breytir lífi margra sögupersónanna um alla framtíð.
Bókin er sérstök að uppbyggingu, en segja má að hún byggist upp á götum. Flakkað er fram og aftur í tíma u.þ.b. viku fyrir og eftir afmælisveisluna. Lesandinn gerir sér fljótlega grófa mynd af því sem gerst hefur en eftir því sem líður á bókina er stoppað í fleiri og fleiri göt og ekki er allt eins og það sýndist í fyrstu.
Reyndar fannst mér á endanum fátt eins og það virtist í fyrstu. Sjaldan hefur bók vaxið jafn mikið í áliti mínu eftir að ég kláraði hana. Ég las hana af áhuga og fannst hún jafnvel spennandi á köflum en verulega góð fannst mér hún ekki fyrr en ég lokaði henni og byrjaði að hugsa um hana. Hægt er að finna fjölmörg þemu í textanum og breyta þarf skoðunum sínum á fólki og atburðum eftir því sem meira er ljóstrað upp. Ýmsu er snúið á rönguna við það sem við eigum að venjast og textinn er fullur af fyrirboðum og lúmskum húmor.
Í Sendiherranum segir frá ljóðskáldinu og húsverðinum Sturlu Jóni sem fenginn er til að vera fulltrúi Íslands á ljóðhátíð í Litháen. Að vissu leyti þykir honum nokkur heiður í því að vera boðinn á hátíð sem þessa, þótt honum finnist þær tilgangslausar. Hann tekur sín hlutverk alvarlega. Hann hefur tekið hlutverk sitt sem ljóðskáld alvarlega en ætlar nú að segja skilið við ljóðformið og taka hlutverk sitt sem prósahöfundur alvarlega. Hann tekur hlutverk sitt sem sendiherra alvarlega. En hefur hann kannski misskilið einhver grundvallaratriði varðandi þessi hlutverk?
Eins og í Samkvæmisleikjum er ekkert eitt sérstakt atvik sem hrindir atburðarrásinni af stað. Með aulahætti kemur Sturla Jón sér í vandræðalegar aðstæður sem hann ræður ekki við að leysa úr og vinda bara upp á sig.
Einnig eiga bækurnar það sameiginlegt að það er tiltölulega erfitt að skrifa um þær án þess að ljóstra upp of miklu um söguþráðinn. Báðar segja þær sögu sem gætu hljómað eins og íkjusögur. Þær eru athyglisverðar en láta lesandann hafa fyrir því að íhuga það sem hann er að lesa og leita uppi húmorinn í textanum sem þó er sannarlega er til staðar.
Persónulega fannst mér Samkvæmisleikir skemmtilegri en gaman væri ef einhver væri á annarri skoðun og myndi gefa álit þess efnis og rökstyðja það.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.