Það er synd að Málfríður skyldi ekki lifa bloggöldina. Hún hefði verið svakalegur bloggari.
„Samastaður í tilverunni“ er sjálfsævisöguleg frásögn en þó ekki eiginleg ævisaga. Bókin skiptist í 9 hluta og er hver þeirra með nokkrum köflum sem bera hver sitt heiti. Kaflarnir eru stuttar hugleiðingar Málfríðar um hin og þessi efni sem henni hafa verið hugleikin – ekki ósvipað bloggfærslum samtímans.
Ég verð að játa að mér fannst bókin erfið aflestrar. Stíllinn er sérstæður og bera hugleiðingarnar þess merki að þær hafi verið skrifaðar af miklum móð og ekki með það í huga að þær birtust ókunnugum á prenti. Strax í fyrstu köflunum er minnst á mikið af fólki. Sumt er kynnt til leiks en aðra er nánast ætlast til að lesandinn þekki. Auk þess eru kynningar á þeim sem kynntir eru ruglingslegar.
Ekki eru augljós þemu í hverjum hluta og flakkað er um í tíma og rúmi. Ekki er alltaf ljóst hvar frásögnin á að gerast og því síður hvar Málfríður er stödd þegar hún skrifar þær endurminningar (það væri ekki nauðsynlegt nema vegna þess að hún gefur sjálf færi á að lesandinn spyrji sig þeirra spurninga). Enn fremur er nokkuð um endurtekningar og fáu nýju bætt við í seinni umfjölluninni.
Það sem bjargar bókinni er að kaflarnir eru frekar stuttir og er því þægilegt að lesa aðeins lítið í einu.
Vissulega á Málfríður góða spretti. Orðfæri hennar er ólíkt öllu sem ég hef lesið og er ákaflega kjarnyrt. Hægt væri að setja saman mjög skemmtilega tilvitnanabók með fleygum setningum hennar. Ein uppáhalds klausan mín í bókinni er í kaflanum „Læknisdómar í æsku minni“. Í lok kaflans segir:
„Heimskan, hún var þykk svo að þykkari getur heimska varla orðið. Ekki nenni ég að segja frá því.“ (Málfríður Einarsdóttir, 2008, bls. 154).
Ég hefði áhuga á að fá yfirlit yfir æviferil Málfríðar, hún virðist hafa verið afar merkileg kona. Þar sem það er ekki í boði hér, nema hugsanlega með ærinni yfirlegu, finnst mér aðstæðulýsingarnar það merkilegasta í bókinni. Málfríður lýsir aðstæðum sínum og annara á mjög svo raunsæan hátt og á annan hátt en hefðbundnar kennslubækur í Íslandssögu myndu gera. Þetta á bæði við um hýbíli í Borgarfirðinum, þar sem hún elst upp, aðstæður sem hún býr við síðar í Kaupmannahöfn og Reykjavík sem og lýsingar á aðbúnaði á berklahælinu á Vífilsstöðum. Einnig eru lýsingar hennar á tískufyrirbærum svo sem á þeirri áráttu fólks sem taldi sig heldra, að sletta uppá dönsku, kosturlegar. Sá siður fór agalega í taugarnar á Málfríði.
Samastaður Málfríðar í íslenskri bókmenntasögu er merkilegur ef ekki bara fyrir það að hún er ein fárra kvenna í henni. Einnig grunar mig að ekki finnist margir, ef einhverjir, íslenskir höfundar fyrr og síðar sem líkjast henni hvað varðar efnistök og framsetningu. Að njóta þess sem Málfríður hefur uppá að bjóða er þó ekki æfing í hraðlestri.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.