Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna Gunnar Gunnarsson hefur ekki hlotið hærra undir höfði en raun ber vitni. Það leikur enginn vafi á því að hann er einn besti skáldsagnahöfundur okkar Íslendinga á síðustu öld. Vissulega kemst hann ekki sama flokk og Halldór Laxness en samt sem áður á Gunnar til perlur, svona inn á milli, sem standast fyllilega samanburð við bækur nóbelsskáldsins.
Það er ein bók sem mér finnst alltaf standa upp úr hjá Gunnari. Bók sem, að mínu mati, á sér engan líka í íslenskri bókmenntasögu. Það er bókin ,,Sælir eru einfaldir“. Bókin daðrar við módernisma án þess þó að fanga hann fullkomlega, er undir gríðarlega miklum áhrifum af táknsæi en skilur samt aldrei við íslenska sagnastílshefð. Í henni mætast margir ólíkir stílar og stefnur og það er bæði hennar sterkasta hlið og veikasta. Það er náttúrulega erfitt að samræma þessar stefnur og það þarf nokkuð mikið til að sannfæra lesandann um ágæti þess en ég held að flestir geti verið sammála um að Gunnari takist það ætlunarverk sitt.
Bókin gerist í Reykjavík árið 1918, rétt um það leyti þegar Katla byrjar að gjósa og spænska veikin herjar á bæjarbúa. Sagan segir frá vinahóp menntamanna, svolítil ,,borgara-stemmning” yfir þeim hóp, og því sem drífur á daga þeirra. Það sem er frekar nýstárlegt við söguna er kaflaskipting hennar annars vegar og hins vegar sjónarhorn höfundar. Gunnar ákveður að notast við aukapersónu sem sögumann, einstakling sem horfir á alla atburði sögunnar utan frá, upplifir þá lítilega en heldur sig aðallega til hlés. Kaflaskiptingin er með mjög módernísku móti. Kalfarnir í sögunni eru sjö og er vitnað þar í sköpunarsöguna(genesis-bók bíblíunnar). Slíkt var nýlunda þá, sbr. hugmyndir manna um kveðskap á þeim tímum, atómkveðskapur að ryðja sér til rúms(Sorg Jóhanns Sigurjónsonar kom út nokkur árum seinna). Bókin er gefin út 1920, um svipað leyti og Vefarinn mikli frá Kasmír og Bréf til Láru.
Myndmál sögunnar og tákn heilluðu mig aftur á móti mest. Sagan er myrk og dimm, minnir í senn á hryllingsrómantík HP Lovecraft og Divine Comedy eftir Dante. Það er hvívetna drungi og dauði yfir en samt aldrei þannig að hann verði yfirþyrmandi og maður leggi bókina frá sér. Fyrir ykkur sem hafið ekki lesið þessa bók drífið í því, hún er í raun skyldulesning fyrir þá sem vilja þekkja þróun módernisma í íslenskri bókmenntasögu. Fyrir alla þá sem hafa gaman af hryllingssögum, draugasögum oþh. er þetta bókin.