Varúð - spoiler
Kristín Marja Baldursdóttir er lærður kennari og kenndi við grunnskóla Reykjavíkur á árunum 1975-1988. Þá skipti hún um starfsvettvang og gerðist blaðamaður hjá Morgunblaðinu þar sem hún vann til ársins 1995. Kristín er með B.A.-próf í íslensku og þýsku frá Háskóla Íslands og hefur þar að auki sótt námskeið í blaðamennsku í Þýskalandi. Mávahlátur var fyrsta skáldsaga Kristínar og kom út árið 1995. Eftir henni hefur verið unnin leikgerð sem sett var upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur og samnefnd kvikmynd byggð á bókinni kom út haustið 2001. Kristín Marja hefur skrifað fjórar aðrar skáldsögur, smásagnasafn og auk þess ritað ævisögu Vilborgar Dagbjartsdóttur, skáldkonu.
Hin 12 ára gamla Agga stendur í fjörunni einn páskadagsmorgun þegar Freyja, frænka hennar birtist öllum að óvörum í þorpinu eftir 7 ára dvöl í Ameríku. Maðurinn hennar, sem var liðsforingi í bandaríska hernum, hefur dáið úr hjartaslagi og hún ákveðið að snúa heim. Hún flytur inn til ömmu og afa Öggu með 7 koffort full af fötum og fyllir húsið af ilmi allra heimsins ilmvatna og krema. Freyja er fögur, líkust álfadrottningu, með mjaðmasítt hár, rauðar varir, fullkomlega vaxin, hávaxin og grönn, en með ísköld, jökulblá augu. Öggu líkar illa við hana frá byrjun.
Hún kunni ekki við þessa konu. Hún var öðruvísi. Hún var of fín og það var kalt í kring um hana. Hún talaði mjúklega en augun voru eins og jökull. (bls. 9)
Freyja snýr friðsælu bæjarlífinu á hvolf, heillar alla karlmenn upp úr skónum, vekur reiði ráðsettra frúa og hagar sér þvert á allar siðareglur samfélagsins. Það dirfist enginn að stoppa þessa dularfullu og stórhættulegu fegurðardís með augun köldu.
Mávahlátur gerist í litlu sjávarplássi á Íslandi í kring um árið 1950, skömmu eftir seinni heimsstyrjöldina, og spannar um það bil 3 ár. Agga er aðalsögupersónan. Frásögnin er í 3. persónu en hugsanir Öggu og minningar fléttast inn í hana. Foreldrar Öggu dóu úr berklum þegar hún var aðeins mánaðargömul og er hún alin upp hjá ömmu sinni og afa, móðursystrum sínum og afasystur. Á heimilinu er sannkallað kvennaveldi þar sem afi Öggu er sjómaður og er því sjaldan heima. Konurnar ráða andrúmsloftinu í bænum en karlarnir standa lítilhugaðir hjá, yfir sig hrifnir af Freyju.
Það er kreppa á sögutímanum, allar nauðsynjar eru af skornum skammti og miklar stjórnmálalegar sviptingar í samfélaginu. Einkum eru áberandi átökin milli kratanna og Íhaldsins og kristallast þau í afa Öggu. Hann er harðskeyttur krati og segir fátt sem ekki tengist stjórnmálum. Agga sjálf er útundan á heimili sínu þar sem hún er of ung til að teljast til kvenna. Hún lætur það þó ekki stoppa sig og fylgist með öllu sem gerist, ýmist falin bak við bók, á stigaganginum eða undir sófa. Þannig tekst henni að gera sér glögga mynd af því sem fram fer og þótt hún skilji það ekki allt hefur hún á því sterkar skoðanir. Þar sem hún er enn barn og þarf ekki að hugsa um óskráðar reglur samfélagsins, stéttaskiptingu og virðingu fjölskyldunnar, getur hún horft á það utan frá, án þess að vera bundin af siðareglum. Í þorpinu er skýr virðingarstigi og eru samskiptin eftir því.
Freyja er fædd og uppalin í þorpinu, óskilgetin dóttir almúgakonu, og væri undir venjulegum kringumstæðum föst á botni virðingarstigans. Í æsku var hún þybbin og varð fyrir einelti vegna þess. Það hafði djúpstæð áhrif á hana og þjáist hún af lotugræðgi sem fullorðin manneskja. Eftir heimkomuna frá Ameríku er hún háskakvendi sem rænir athygli allra í bænum, stingur undan dóttur helstu góðborgara bæjarins og gengur þvert á allar siðareglur samfélagsins með því að fremja morð: hún brennir inni ofbeldisfullan eiginmann bestu vinkonu sinnar. Agga kemst ein á snoðir um þetta en enginn trúir henni. Hún reynir að sannfæra lögreglufulltrúa bæjarins – sem er vinur hennar – um hvernig í pottinn sé búið og hvernig innræti Freyju sé en hann leggur ekki trúnað á orð barns, frekar en nokkur annar. Undir lok bókarinnar trúir hann loks á frásögn hennar, enda hefur Freyja þá drepið annan mann, en þá dregur Agga orð sín til baka og segist hafa logið öllu saman. Hvers vegna? Hvers vegna ákveður hún að hylma yfir með manneskju sem framið hefur glæpi gegn samfélaginu og henni hefur geðjast illa að frá upphafi?
Agga hefur tapað frelsi barnsins og sér sig knúna til að taka afstöðu. Hefur hún líka misst sjálfstæða og gagnrýna hugsun með kynþroskanum? Hefur hún gengist samfélaginu á hönd, ákveðið að gera einfaldlega eins og hinar konurnar í fjölskyldunni og hylma yfir með frænku sinni? Eða hefur hún ákveðið að taka þátt í uppreisn Freyju gegn kúgun samfélagsins, jafnvel þótt Freyja hafi snúið allri tilveru hennar á hvolf? Sér hún réttlæti í gerðum Freyju og möguleika á betra lífi ef hún gerir hið sama? Eða var hún kannski einfaldlega enn fúl út í Magnús lögreglufulltrúa fyrir að trúa sér ekki? Við þessum spurningum eru engin einhlít svör.