Jæja, loksins tók ég mig til og las Birtíng efitr Voltaire. Mig hefur lengi langað til að lesa þessa bók, en ekki látið verða af því fyrr en nú. Þar sem ég er arfaslök í frönsku las ég bókina á íslensku í þýðingu Halldórs Laxness (það útskýrið í-ið í nafni Birtíngs!). Bókin er örstutt, um 160 blaðsíður í litlu broti í útgáfu HÍB, og því fljótlesin.
Í stuttu máli fjallar bókin um sakleysingjann Birtíng og svaðilfarir hans. Hann elst upp í kastala ríks greifa í Þýskalandi, en þegar hann og greifadóttirin fagra Kúnígúnd gerast einum of náin er hann rekinn þaðan. Hann fer á flæking og lendir í ýmsum ævintýrum. Til dæmis er hann kvaddur í búlgarska herinn, hýddur af embættismönnum spænska rannsóknarréttsins, hlaðinn gulli og gimsteinum í Eldóradó og rændur af sjóræningjum. Á ferðum sínum kynnist hann mörgum skrautlegum karakterum og spáir mikið í lífið og tilveruna.
Birtíngur er talinn höfuðverk Voltaire (1694 – 1778). Bókin heitir á frummálinu Candide ou l’optimisme (Birtíngur eða bjartsýnn) og kom fyrst út 1759, þegar upplýsingastefnan var í hámarki í Evrópu. Í bókinni gagnrýnir Voltaire harðlega kirkjuna, ríkið, aðalsmenn og ýmsa heimspekinga. Lærimeistari Birtíngs, heimspekingurinn Altúnga, aðhyllist skoðanir þýska heimspekingsins og stærðfræðingsins Leibniz. Leibniz hélt því fram að heimurinn okkar væri hinn besti allra heima og að allt sem gerist gerist af fullkomlega skynsamlegri og réttri ástæðu, bæði gott og illt, því allt miðar að hinu góða. Í forspjalli Þorsteins Gylfasonar að bókinni kemur fram að orðið optimismus (bjartsýni) hafi verið fundið upp árið 1737 til þess að lýsa þessum skoðunum Leibniz. Birtíngur trúir í blindni því sem Altúnga kennir, en þó er ekki laust við að hann efist öðru hverju og spyrji sig hvort þessi heimur okkar geti virkilega verið svona fullkominn og góður. Að lokum kemst hann svo að því að “maður verður að rækta garðinn sinn”. Með ævintýrum Birtíngs og samræðunum hans og vina hans gagnrýnir Voltaire barnalega bjartsýnisstefnu margra upplýsingamanna og trú þeirra á að rökleg hugsun ein saman geti bjargað heiminum frá öllu illu.
Sem sagt, mjög skemmtileg og fljótlesin bók sem fær mann til að hugsa!