Söguþráður og efnistök
Í „Gunnlaðar Sögu“ segir frá íslenskri konu sem kölluð er til Kaupmannahafnar þegar Dís, dóttir hennar, er handtekin fyrir að stela dýrmætu keri úr forngripasafni Kaupmannahafnar. Móðirin kemur til að hjálpa dóttur sinni, en dóttirin stendur fast á því að hún hafi ekki stolið kerinu, heldur verið að endurheimta það fyrir Gunnlöðu, sem Óðinn átti að hafa stolið skáldskaparmiðinum frá. Þessi undarlega hegðun dótturinnar leiðir móðurina í heilmikla sjálfsskoðun auk þess sem hún kynnir sér betur hver þessi Gunnlöð eiginlega var. Eftir því sem hún heyrir meira af frásögn Dísar því sterkar virkar hún á móðurina, skilin milli raunveruleika og goðsagnarinnar verða ógreinilegri og lesendur fylgjast með Gunnlöðu undirbúa það að taka á sig allar skyldur hofgyðju og vígja nýjan konung, Óðinn, í embætti (1).
Því verður ekki neitað að bókin er mjög vel skrifuð, orðfærið einstakt og sagan athyglisverð. Framsetning hennar er hinsvegar frekar flókin. Sögumaðurinn rifjar upp dvöl sína í Kaupmannahöfn meðan hún er flugvélinni á leiðinni heim til Íslands. Upprifjunin er nokkurs konar æfing fyrir frásögnina sem hún ætlar að segja eiginmanni sínum þegar heim er komið og á stundum er lesandinn ávarpaður sem eiginmaðurinn, þ.e. í 2. persónu eintölu. Þegar kemur að þætti Gunnlaðar verður erfiðara fyrir lesandann að staðsegja sögumann. Í fyrstu virðast goðsagnarkaflarnir vera endursögn sögumannsins af frásögn Dísar sem fannst hún upplifa þetta en svo færist sjónarhornið til Gunnlaðar sjálfrar.
Það sem ruglaði mig mest var saga Gunnlaðar. Þegar ég hóf lesturinn bjóst ég við að heyra söguna af því hvernig Óðinn dregur Gunnlöðu á tálar og stelur skáldskaparmiðinum sem hún geymir fyrir föður sinn, jötuninn Suttung. Söguna úr Snorra-Eddu sem ég hafði lesið bæði í grunnskóla og menntaskóla, nema hér sagða frá sjónarhóli Gunnlaðar. Það var aldeilis ekki raunin. Allt í einu var Gunnlöð voldug hofgyða en ekki jötunmær innilokuð í helli. Óðinn þurfti ekki að sveipa sig dulargervi, ljúga til nafns eða skríða inn í dyngju Gunnlaðar í ormslíki heldur var verðandi konungur. Og Loki var ekki slyngur svikari sem stofnar til vandræða heldur æsku- og trúnaðarvinur Gunnlaðar.
Höfundurinn
Ég gat ekki skilið hvers vegna Svava kaus að gera þetta, breyta goðsögunni á þennan hátt. Rithöfundur á hennar mælikvarða hlyti að hafa sínar ástæður. Ég ákvað því að lesa mér til um „Gunnlaðar sögu" og Svövu Jakobsdóttur sem ég vissi álíka lítið um og sögumaðurinn í „Gunnlaðar sögu" vissi um Gunnlöðu í upphafi bókarinnar.
„Gunnlaðar saga" er eitt af síðustu skáldverkum Svövu Jakobsdóttur og kom út 1987. Svava hafði fyrst stigið fram á ritvöllinn með smásagnasöfnunum „Tólf konur" (1965) og „Veisla undir grjótvegg" (1967) og þóttu efnistök hennar og frásagnaraðferðir nýtstárlegar og athyglisverðar. Yfirleitt fjölluðu sögurnar um konur, oft heimavinnandi húsmæður og hversdagslíf þeirra. Um það leiti sem smásagnasöfnin komu út var umræðan um stöðu kvenna í samfélaginu að verða háværari og féllu sögur Svövu vel inn í hana (2). Svava virðist ekki hafa lagt upp með að skrifa endilega feminískar bókmenntir heldur var staða konunnar efni sem var henni nærtækt. Í viðtali frá 1998 var hún spurð hvort hún hafi alltaf ætlað sér að skrifa fyrir konur. Svava svarar: „Nei, en ég vissi að ég var kona.“ (3).
Í eldra viðtali, frá 1993 var Svava spurð um Gunnlöðu. „Ég var bara menntaskólastelpa þegar ég las í fyrsta sinn frásögnina um skjáldamjöðinn hjá Snorra og ég trúði henni ekki. Á einhvern óskýranlegan hátt vissi ég að Snorri hafði rangt fyrir sér. [...] En ég hélt áfram að hugsa um Gunnlöðu, hún fylgdi mér.“ (4).
Það fór fjarri að útgáfa Svövu af sögu Gunlaðar væri úr lausu lofti gripin. Svava hafði lagt stund á amerískar og enskar bókmenntir, fornensku og miðaldabókmenntir í Bandaríkjunum. Hún hóf doktorsnám í íslenskum miðaldabókmenntum í Oxford en gat ekki lokið því vegna augnsjúkdóms sem hrjáði á hana. Hún lagði þó ekki íslensku miðaldabókmenntir alveg á hilluna og gerði til viðbótar við „Gunnlaðar sögu ítarlegan samanburð á Völuspá og kvæðum Jónasar Hallgrímssonar (2).
Goðsögnin
Þótt útgáfa Snorra Sturlusonar af sögunni um skáldamjöðinn sé best þekkt þá er einnig sagt frá samskiptum Gunnlaðar og Óðins í Hávamálum og ber nokkuð á milli frásagnanna. Svava gerir tilraun til að skýra frásögn Hávamála og styður mál sitt með vísunum í fornar keltneskar og austurlenskar goðsagnir.
Túlkun Svövu gengur í megindráttum út á það að Gunnlöð hafi verið landgyðja sem veitti konungum vald með sérstakri athöfn sem fól í sér að gyðja gaf væntanlegu konungsefni að drekka af hinum dýra miði og/eða sængaði hjá honum. Þetta er frásögn sem er vel þekkt í keltneskum sagnaarfi og þemu hennar finnast víða í evrópskum miðaldabókmenntum, s.s. í sögum um leitina af hinum helga gral, Eyðilandinu og sögninni um hinn ríka Fiskikóng (5).
Athyglisvert er að þessi túlkun getur nokkuð einfaldlega skýrt nokkrar línur Hávamála sem erfitt hefur verið að skýra útfrá eldri túlkunum, nema á frekar langsóttan hátt (5).
Það ljóst að túlkun Svövu gefur nokkra aðra mynd af Gunnlöðu en frásögnin í skáldskaparmálum Snorra-Eddu. Samkvæmt þessari túlkun var Gunnlöð ekki auðtrúa og vergjörn jötunmær sem lét Óðinn fífla sig í að gefa sér skáldskaparmjöðinn, heldur var hún valdamikil kona sem Óðinn sveik án þess að það hafi með vitsmuni hennar eða kynferðislegt aðdráttarafl hans að gera.
Ekki er ætlunin að reyna að leggja hér mat á hvor túlkunin á sögunni er líklegri, enda er ég ekki sérfræðingur í norrænum fræðum. Þessi nýi túlkunarmöguleiki minnir mig hinsvegar á nauðsyn gagnrýnnar hugsununar. Í gegnum tvö skólastig tók ég frásögn Snorra Sturulusonar af Gunnlöðu góða og gilda án nokkurrar umhugsunar. Það sama gerði ég við flest annað sem kennt var um norræna goðafræði og fornsögur. Að lesa um rannsókn Svövu minnir mig á að þegar ég les íslenskrar miðaldabókmenntir er ég ekki að lesa bók eftir þekktan höfund, ég er ekki að lesa frumtexta, heldur er ég að lesa túlkun einhvers ritstjóra á þeim heimildum sem hann hafði aðgang að og taldi bestar á þeim tíma sem hann vann verkið. Ég er ekki að lesa um margsönnuð óumbreytanleg náttúrulögmál.
Önnur þemu
En aftur að „Gunnlaðar sögu“ sem sannarlega er skáldverk eftir þekktan höfund þótt hluti hennar byggi á túlkun á eldri texta. Eftirgrennslan eftir skýringu á goðsagnahlutanum gerði mér líka ljóst að sagan bókmenntafræðilega mjög flott skáldverk. Saga Gunnlaðar frá fornöld og saga sögumannsins í Kaupmannahöfn 20. aldar eru að stórum hluta hliðstæður og velta upp áleitum spurningum um samspil manns og náttúru.
Þessir djúpu þankar fóru alveg fram hjá mér, áhugasömum leikmanni, við lestur bókarinnar. Mín fyrstu mistök voru líklega að nálgast bókina eins og glæpasögu, sem hún getur ekki talist í hefbundum skilningi. Frásagnaraðferðin er flókin, að mínu mati óþarflega flókin, og auðveldar venjulegum lesanda ekki verkið. Þar ofan á kemur svo goðsagnafléttan, sem í sjálfu sér er heillandi frásögn af dularfullri veröld og það er þessi hluti sögunnar sem mér fannst skapa spennuna. Ef ekki hefði verið fyrir Gunnlaðarkaflana efast ég um að ég hefði lesið alla bókina. Samt sem áður var ég of upptekin við að reyna að fá botn í það af hverju sagan um Gunnlöðu væri svona breytt frá þeirri útgáfu sem ég þekkti, til þess að taka eftir öðrum boðskap verksins.
Niðurstaða
Í heildina var þetta allt saman, flókin umgjörð, óljós skipti á sjónarhorni og óútskýrð umbylting á vel þekktri goðsögu, of ruglandi til að lesturinn yrði mér yndislestur sama hversu flottur textinn er. Verkið er klárlega mjög metnaðarfull og að sumu leiti vel heppnað bókmenntaverk en þarfnast nokkurrar yfirlegu fyrir minna þjálfaða bókmenntarýnendur. Skólakerfisaldir lesendur og ég þurfa klárlega meiri útskýringar á goðsöguköflunum til að geta notið þeirra til fulls. Eftir að hafa skrifað þetta leitar á mig spurning sem ég hef velt fyrir mér áður, en vangaveltur um hana væru efni nokkrar greinar í viðbót: Fyrir hvern á list að vera?
Heimildir:
(1) Svava Jakobsdóttir. (1987). Gunnlaðar saga. Reykjavík: Forlagið.
(2) Soffa Auður Birgisdóttir. (2005). Lífið, leitin, listin. Í Ármann Jakobsson (Ritstj.), Kona með spegil Svava Jakobsdóttir og verk hennar (bls. 14-25). Reykjavík: JPV útgáfa.
(3) Gerður Kristný. (2005). „Grasaferð að læknisráði.“ Viðtal við Svövu Jakobsdóttur. Í Ármann Jakobsson (Ritstj.), Kona með spegil Svava Jakobsdóttir og verk hennar (bls. 44-55). Reykjavík: JPV útgáfa.
(4) Dagný Kristjánsdóttir. (2005). „Hvert einasta orð er mikilvægt.“ Viðtal við Svövu Jakobsdóttur. Í Ármann Jakobsson (Ritstj.), Kona með spegil Svava Jakobsdóttir og verk hennar (bls. 30-43). Reykjavík: JPV útgáfa.
(5) Svava Jakobsdóttir. (1988). Gunnlöð og hinn dýri mjöður. Skírnir, 2, 215-245.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.