Ég var að klára að lesa þetta meistarastykki Joseph Conrad og mæli eindregið með að sem flestir geri slíkt hið sama.
Reyndar ætlaði ég að skrifa veglega grein um hana en komst fljótt að því að til að lýsa henni þyrfti að skrifa heila bók. Því ætla ég að láta duga að lýsa bókinni í stuttu máli.
Bókin fjallar um ferð Marlow's nokkurs til Congo sem við lok 19. aldar er belgísk nýlenda. Í Congo gerist hann skipstjóri á gufubát sem er sendur upp eftir á til að ná í hinn goðsagnakennda mann Kurtz. Kurtz stjórnar útstöð djúpt inni í landi þar sem hann á að safna að sér fílabeini og þykir framúrskarandi hæfur auk þess sem sögur fara af því að hann vilji beita umtalsverðum andlegum burðum sínum til að efla framfarir og mannúð og sjá fyrir enda á hræðilegri villimennsku.
Við fylgjumst með Marlow fara dýpra og dýpra inn í myrkur frumskógarins og nálgast um leið innra myrkur mannsinns. Conrad spinnur sögu fulla af prósa sem er ennþá hryllilegri fyrir þær sakir að hann er að tala af reynslu og hefur örugglega séð margt sem ber fyrir augu í bókinni sjálfur.
Þessi bók er einnig þekkt fyrir það að Francis Ford Coppola byggði mynd sína Apocalypse Now á henni og er það Conrad til lofs að sagan skuli hafa elst það vel að hún gat lýst öðru dimmu tímabili, þremur aldarfjórðungum seinna og mörg þúsund kílómetrum í burtu.