Ég las enska vasakilju Slaughterhouse-Five fyrir skömmu, og gef hér álit mitt á henni.
Bókin er tegund vísindaskáldsögu þar sem vísindaskáldskapurinn sest í aftursætið fyrir andstríðsreksturs- en þó aðallega heimspekiboðskapi bókarinnar. Aðalhetjan, Billy Pilgrim, fer á táningsaldri á stríðsvöll seinni heimsstyrjaldarinnar fyrir hönd Bandaríkjanna. Þar er Billy tekinn til fanga af Þjóðverjum og er loks fluttur ásamt félögum sínum til Dresden, þar sem þeir dúsa sem fangar í Sláturhúsi fimm.
En á meðan á þessu stendur upplifir Billy atburðina ekki eins og hver maður myndi gera; meðvitundin hans stekkur milli tímapunkta í lífi hans. Fyrirvaralaust á hann það til að vera ‘kominn inn’ í annan tímapunkt í lífi sínu.
Hann tekur þessu með nokkru jafnaðargeði, sömuleiðis þegar hann er brottnuminn af geimverum síðar í lífinu.
Það má ljóst vera að Vonnegut eyðir litlu púðri í undrun tímaflakk- og geimfarans, sem hefði krafist allnokkurrar sálfræðilegrar pælingar og hefði líklega verið öllu leiðinlegra, en kýs í staðinn að fjalla um málið allt á heimspekilegum nótum. Geimverurnar sem nema Billy Pilgrim á brott segjast geta séð heiminn í fjórum víddum, það er þær geta séð allt sem hefur gerst í fortíðinni og allt sem mun gerast í framtíðinni (allt að endalokum heimsins), og benda honum á að lítið sé hægt að gera í framtíðinni. Hún sé sett í stein, hvort sem honum líki það betur eða verr.
Og þetta virðist vera mergurinn málsins. Öllu sem kemur fyrir Billy Pilgrim tekur hann með jafnaðargeði, því hann gerir sér ljóst að svona er þetta bara. Nauðhyggja kallast það víst.
Þetta samtvinnast umræðunni um loftárásirnar á Dresden, sem eru síður en svo óumdeildar, enda lögðu þær borgina í rúst. Þótt stríð séu ömurlegt fyrirbrigði segir frásegjandinn í bókinni (sem ekki er víst að sé Vonnegut, þótt það geti vel verið) að þegar hann hafi ætlað að skrifa ‘andstríðsrekstursbók’ hafi hann verið spurður hvers vegna hann skrifaði ekki andskriðjöklabók! Lítið er hægt að gera við þeim sömuleiðis. Miðað við rauða þráð bókarinnar er lítið hægt að gera við loftárásirnar á Dresden annað en að sætta sig við þær.
Þar sem Kurt Vonnegut var staddur í borginni þegar árásirnar áttu sér stað er honum viðfangsefnið hugleikið, og byggir hann bókina að þónokkru leiti á eigin reynslu. Þrátt fyrir drungalegt yfirskin bókarinnar að þessu leiti er hún skemmtilega sögð, og gaf Vonnegut sjálfum sér A+ fyrir hana í bók sinni Pálmasunnudagur (Palm Sunday). Ég held að ég verði að vera sammála.
Post scriptum: LOST áhangendur gætu haft áhuga á að vita að vísað er í mörg minni bókarinnar í þáttunum, misaugljósum. Ég lofa þeim að hafa upp á þeim sjálfir.