Mig langaði að deila þessum vangaveltum mínum með ykkur fyrst ég er búin að hafa fyrir því að koma þeim á læsilegt mál.

Hvað eiga eftirtaldar setningar sameiginlegt ?

„What is he abath? Girt eedle seeght!”

„Hvað er hann að gera slæpinginn sá arna?”

„Hvað er hann að úðra, andstyggðar letinginn?“

Þetta eru þrjár útgáfur af sömu setningu. Sú fyrsta er frumgerðin eftir Emily Brönte sem birt var 1847. Önnur setningin er íslensk þýðing Sigurlaugar Björnsdóttur frá 1982 á þeirri fyrstu. Sú þriðja er svo þýðing Silju Aðalsteinsdóttur frá 2006 á upprunalegu setningunni.

Fýkur yfir hæðir eftir Emily Brönte er ein af þessum stóru klassísku skáldsögum enskrar tungu. Ég las hana fyrst fyrir nokkrum árum og þá aðallega vegna orðspors hennar sem stórkostlegrar ástarsögu. Eftir að hafa lesið Jane Austen var Fýkur yfir hæðir ofbeldisfull, grimm og hrottaleg. Ég sá hvorki ritsnilldina né frábæru ástarsöguna.

Síðan þá hefur þessi bók rekist inn í líf minn á ýmsan hátt. Hún var þýdd upp á nýtt á íslensku og þótt mér leiðinlegt að þessi fíni íslenski titill hafi ekki verið notaður við það tilefni. Ég hef hlustað á lag sem vangaveltur eru um hvort fjalli um það þegar Heathcliff grefur upp lík Cathy og rifjar upp samverustundir þeirra. Svo las ég bók þar sem aðalpersónan er agalega hrifin af þessari bók og gaf mér vísbendingar um hvernig mætti túlka hana.

Ég ákvað því að gera aðra atlögu að sögunni. Ég var hrædd um að enski textinn væri full flókinn fyrir það sem ég var að sækjast eftir nú og hafði fordóma gegn nýju þýðingunni vegna enska titilsins á henni. Ég fékk aftur sömu útgáfuna af bókinni og ég hafði lesið áður, þessa íslensku frá 1982.
Það var sambland af smámunasemi og tilviljun sem réð því að ég bar saman valda stutta kafla af eldri og nýrri þýðingunni en endaði svo líka með frumtextann mér við hlið ásamt íslensku orðabókinni og ensk-íslenskri orðabók.

Bara á þessum litlu textabútum sem ég skoðaði fékk endanlega staðfest að þýðingar eru ákaflega vandasamt verk.
Ef við tökum setningarnar í upphafi þessarar greinar sem dæmi, þá skil ég ekki þá ensku. Án sértækrar þekkingar á enskum sveitamállýskum veit ég ekki hvað maðurinn er að segja. Í nýjustu þýðingunni, sem mér virðist samt sú nútímalegasta, kemur fyrir orðið „úðra” sem ég hef ekki heyrt áður og þurfti að fletta upp í orðabók. Í þessu tilfelli er það þýðingin frá 1982 sem gefur mér mest.
Á öðrum stað fannst mér enski frumtextinn bæði vera aðgengilegastur og fallegastur.
En eftir þessa vísindalegu athugun er ég nú að lesa þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur, þrátt fyrir útlenska titilinn. Allt í allt virtist mér sú þýðing henta mér best. Þrátt fyrir nokkur orð sem ég þekki ekki þá finnst mér textinn flæða betur en í hinni þýðingunni auk þess sem uppsetning hans er þægilegri. Ég er með enska útgáfu líka ef einhverjar setningar vekja sérstaka athygli mína og ég stefni á að lesa söguna á frummálinu í þriðju tilraun (hvenær sem það verður). Kannski ég hafi samt íslenska þýðingu til hliðsjónar þá til að hjálpa mér með mállýsku vinnumannsins.


Tilvitnanir í upphafi greinar:

Emily Brontë. (2000). Wuthering Heights. Were, Hertfordshire: Wordsworth Classics. Bls. 59.

Emily Brontë. (1982). Fýkur yfir hæðir (Sigurlaug Björnsdóttir þýddi). Reykjavík: Sögusafn heimilanna. Bls. 73.

Emily Brontë. (2006). Wuthering Heights (Silja Aðalsteinsdóttir þýddi). Reykjavík: Bjartur. Bls. 80.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.