Það er merkilegt að bókin One to Count Cadence skuli ekki vera þekktari enda um merkt bókmenntaverk að ræða að mínu mati. Það hefur kannski dregið úr orðstýr höfundarins James Crumley að þetta er hans fyrsta og eina “bókmenntaverk” en seinni bækur hans voru allar spæjarasögur en margar meðal þeirra bestu í þeim geira.
Ég er nýbúinn að leggja bókina frá mér, var að lesa hana í annað skipti og nokkuð liðið síðan ég las hana fyrst. Ég man enn eftir að hafa verið hrifinn og sleginn yfir henni fyrst en eins og með margt gott þá hjálpar aukinn þroski við að skilja söguna betur í seinna skiptið. Satt best að segja held ég að það þurfi þriðja skipti til að ég skilji hana almennilega, allavega er ég enn að velta fyrir mér erindi rithöfundarins þegar þetta er skrifað.
Fyrir þá sem hafa alist upp á myndum Hollywood um Víetnamstríðið gæti þessi bók orðið nokkur stór löðrungur. Það skiptir ekki öllu máli hvaða stríð sér fyrir sjónarsviði en bókin kemur út 1969, einmitt þegar almenningsálit í Bandaríkjunum hefur snúist sem hraðast gegn stríðinu í Asíu eftir Tet sóknina 1968. Sagan gerist hinsvegar 1963; bandarískir hermenn eru enn bara “ráðgjafar” í Suður Víetnam en aðalpersóna sögunnar Jacob Slagsted Krummel liggur á sjúkrabeði sínu á Filipseyjum. Í legu sinni byrjar hann að festa á blað minningar sínar um atburði síðustu mánaða.
Við kynnumst rólega hvernig þessi greindi háskólaborgari gengur aftur í herinn eftir misheppnað hjónaband og hvernig hann kynnist Joseph Morning, hugsjónamanni uppfullum af hatri á sjálfum sér og heiminum. Samband þeirra, samflétta af vináttu og gagnkvæmu hatri verður þungamiðja sögunnar sem notar þessa tvo ólíku menn sem eiga samt svo margt sameiginlegt til að kryfja til mergjar hlutverk og viðhorf til karlmennsku á 20. öldinni.
Í rólegri framvindu framan af minnir bókin þónokkuð á Heart of Darkness eftir Joseph Conrad og Crumley virðist ekki reyna að fela þau áhrif heldur vitnar í Heart of Darkness á eftir tileinkun bókarinnar. Það er samt kannski frekar að áhugi manns á Hemingway kvikni því að sagan snýst þegar öllu er á botninn hvolft um karlmennsku, en meira um það seinna.
Þegar við höfum kynnst Krummel þar sem hann liggur í sárum hverfum við aftur í tímann þar sem hann kemur til Filipseyja og tekur við stöðu liðþjálfa hjá samskiptadeild í Bandaríkjaher. Við kynnumst honum og mönnum hans, sérstaklega Joe Morning, meira í gegnum svalllíferni í frítíma þeirra en í gegnum störf þeirra. Rólega dregur þó til tíðinda og sveitin er send til Víetnam þar sem hún lendir í grimmilegum bardaga við skæruliða Viet Cong. Krummel særist og endar aftur á Filipseyjum eins og komið hefur fram.
Ég held það væri synd að segja meira frá sögunni ef einhver getur komist yfir bókina því hún er spennandi og endirinn langt í frá klipptur og skorinn. Þrátt fyrir að þarna sé um að ræða góða bók í alla staði, frásagnarlist og persónusköpun bæði prýðileg, þá er það kannski spurningarnar sem höfundurinn vekur um hlutverk og meiningu karlmennsku í fortíðinni og svo á 20. öldinni (og þar með í raun á okkar tíma líka) sem standa upp úr. Það er ekki svo einfalt að bókin dásami karlmennskuna eða hafni hugmyndinni. Frekar veltir höfundurinn fyrir sér hvernig staða hennar hefur breyst með breyttu siðferði 20. aldarinnar, hvernig orðið er misnotað og hugtakið á bakvið orðið hefur útvatnast í nútíma samfélagi.
Nú hef ég líklega fælt alla kvenlesendur frá þessari bók og það væri verra. Ég verð þó líklega að viðurkenna að sagan höfðar líklegast ekki almennt til kvenfólks. Þetta er stríðssaga sem er ekki hrein ádeila heldur sýnir okkur inn í huga stríðsmanns, hryllinginn sem hann sér en velur að upplifa og sem slík enn áhrifaríkari en bók sem er hrein og bein gagnrýni eða ádeila. Það sem mestu máliskiptir er að þetta er umhverfið þar sem við kynnumst þeim Slag Krummel og Joe Morning. Umhverfið sem annar þeirra leitast við að finna sig í en hinn hatar af lífi og sál, kannski vegna þess að hann er hræddur við að uppgötva sjálfan sig í því…
Þannig að ef saga sem spyr áleitinna spurninga um stríð, karlmennsku og siðferði og krefur mann um svör til handa sjálfum sér hljómar áhugaverð þá er þessi bók tilvalin lesning. Ég mæli eindregið með henni enda ein besta, ef ekki sú besta, bók sem ég hef lesið!