Kannski hafa einhverjir heyrt um eða jafnvel séð sjónvarpsþáttaröðina Bones sem meðal annars hefur verið sýnd á Stöð 2. Ekki er þó víst að allir hafi gert sér grein fyrir því að hugmyndin að þættinum er byggð á metsölubókaflokki eftir réttarmannfræðinginn Kathy Reichs.

Ég fór að horfa á þættina, eins og örugglega margar aðrar ungar stúlkur, til að slefa yfir David Boreanaz, en komst að því að þetta var þræl skemmtilegur nörda þáttur í anda C.S.I. með góðum skammti af húmor og slettu af óuppgerðri kynferðislegri spennu (e. unresolved sexual tension). Þegar ég rakst óvænt á eina bókina eftir Reichs í sumarfríinu mínu stóðst ég ekki mátið og fór að lesa. Við skulum segja að ég er orðin ansi góð að finna R-ið í ensku-bóka deildum bókasafnanna í mínu nágrenni.

Um höfundinn
Kathy Reichs fæddist í Chicago og lauk doktorsprófi í líkamlegri mannfræði (þýing höfundar á physical anthropology) frá Northwestern háskólanum árið 1975. Hún er ein af 77 fullgildum réttarmannfræðingum í Bandaríkjunum. Reichs býr jöfnum höndum í Charlotte í Norður-Karólínu og Montreal í Kanada. Hún er prófessor í mannfræði við Háskóla Norður-Karólínu og vinnur sem réttarmannfræðingur við að bera kennsl á líkamsleifar fyrir dánardómstjóra Norður-Karólínu og Laboratoire de Sciences Judiciaires et de Médecine Légale í Quebec.

Bones vs. Bones
Áður en lengra er haldið ætla ég að snúa sjónum mínum örstutt að sjónvarpsþáttunum sem, eftir lestur bókanna, ég hef komist að eru mjög lauslega byggðir á bókunum. Það skiptir engu máli hvort þú hefur horft á sjónvarpsþættina, bækurnar eru allt öðruvísi. Nánast það eina sem er sameiginlegt er að bæði fjalla um afar snjallann réttarmeinafræðing að nafni Temperance Brennan. Engar aðrar persónur hafa verið yfirfærðar í sjónvarpsþættina úr bókunum og í tilfelli Temperance er það nánast bara starfstitillinn og nafnið sem er sameiginlegt.
Sterkasta vísunin í bækurnar úr sjónvarpsþáttunum er að þar er Temperance metsölu rithöfundur í hliðarstarfi og skrifar bækur um réttarmannfræðinginn Kathy Reichs. Aðrar samsvaranir virðast tilviljanakenndar.
Reyndar er synd, finnst mér, að alvöru bækurnar innihalda ekki „all the sex stuff“ sem bækurnar í sjónvarpsþáttunum eiga að innihalda, en það er aukaatriði.

Bækurnar um beinin
Þegar þetta er skrifað hafa komið út ellefu bækur um hina snjöllu Temperance Brennan á enskri tungu en því miður engin á íslensku. Þær heita:
1. Déjà Dead
2. Death du Jour
3. Deadly Decisions
4. Fatal Voyage
5. Grave Secrets
6. Bare Bones
7. Monday Mourning
8. Cross Bones
9. Break No Bones
10. Bones to Ashes
11. Devil Bones

Fyrsta bókin Déjà Dead kom út árið 1997 og komst á metsölulista New York Times og hlaut Edward Ellis verðlaunin fyrir bestu fyrstu skáldsögu höfundar.

Temperance Brennan er eitursnjall réttarmannfræðingur og gengur vel í störfunum sínum þremur, sem kennari við háskólann í Charlotte í Norður-Karólínu, sem réttarmannfræðingur fyrir Quebec fylki í Kanada og sem ráðgjafi dánardómsstjóra Norður-Karólínu. Í einkalífinu hinsvegar burðast hún með sinn skerf af farangri.
Þegar við kynnumst Tempe fyrst er hún tiltölulega nýskilin við eiginmann sinn til nærri 20 ára eftir að hann hélt framhjá henni. Dóttirin er að mestu farin að heiman í háskóla og forboðið aðdráttarafl Bakkusar reynir reglulega á ákveðni hennar.
Við fáum að fylgjast með Tempe að störfum við að greina líkamsleifar, eiga við misjafnlega samvinnuþýða lögreglumenn og við að koma sjálfri sér og stundum vinum og ættingjum í og úr vandræðum.
Svo er það spurninginn hvort hinn fjall myndarlegi, en frekar ótryggi, rannsóknarfulltrúi Andrew Ryan sé áhættunnar virði.


Stíllinn er beinskeyttur og sögurnar afar raunsæjar. Mikið fer fyrir lýsingum á starfi Tempe sem eru afar trúðverðugar, vegna bakrunns Reichs, en krefjast þess að lesandinn sé ekki smeykur við stór orð anatómíunnar og efnafræðinnar og geti í það minnsta fylgst með heilum C.S.I. þætti án þess að drepast úr leiðindum yfir tæknilegum atriðum. Þessi alvöru Tempe væri örugglega til í að geta gert alla þessa sniðugu hluti sem fólkið í C.S.I. og Bones gerir en líklega er í besta falli hæpið, að sé hægt að gera í alvörunni. Einnig ættu lesendur sem eru viðkvæmir fyrir hrottalegu ofbeldi, misþyrmingum og limlestingum af öllu mögulegu tagi að hugsa sig tvisvar um áður en þeir taka upp bækur Reichs.

Bækurnar eru skrifaðar í fyrstu persónu og við fáum einungis að vita hvað Tempe er að hugsa, þótt við þurfum alls ekki alltaf að vera sammála dómgreind hennar, sérstaklega þegar kemur að einkalífinu.

Reichs leggur mikið upp úr raunsæi og þar með talið umhverfinu, og eru lýsingar umhverfi afar raunsannar með vísun í götuheiti, staðarheiti og aðstæðulýsingar sem ég efast ekki um að hægt væri að fylgja í alvörunni. Flestar sögurnar gerast í Montreal eða Norður-Karólínu, með undantekningum þó.

Mín skoðun
Ég get neitað því að ég þurfti að venjast bókunum. Reyndar gæti það haft áhrif að fyrsta bókin sem ég las var bók nr. 9 sem ég las á þýsku, sem ekki mitt allra besta lesmál. En eftir að hafa lesið bók nr. 1 á ensku á eftir þessari þýsku var ég föst í netinu.

Ég hef ekki lesið mikið af bókum sem eru skrifaðar í 1. persónu og það fór í taugarnar á mér í fyrstu, en vandist líka.
Það sem heillar mig mest held ég að séu persónurnar. Þær eru flestar ofurraunsæjar og breyskar. Það eru helst hinn óhagganlega fínpússaði og stífi rannsóknarfulltrúi Luc Claudel og syster Tempe, Harry, sem eru ef til vill aðeins of ýktir karakterar, en skemmtilegir þó. Ég get samt ekki neitað því að vísindin heilla mig líka. Bækurnar eru spennandi og flæða ágætlega við lestur.

Reyndar er umhugsunarefni hversu dugleg Tempe, ættingjar hennar og vinir eru að koma sér í miðju glæpamálanna.

Mér finnast líka umhverfis- og stemmingslýsingarnar af sögusviðinu athyglisverðar og sérstaklega hafa bækurnar sem gerast í Montreal heillað mig. Svo mikið að ég er hársbreidd frá því að skrá á frönskunámskeið til að geta heimsótt borgina og notið hennar í botn.

Samantekt
Bækurnar um réttarmannfræðinginn Tempe Brennan eftir Kathy Reichs, eru spennadi, vel skrifaðar og gefa innsýn inn í flókna fræðigrein sem og flóknar manneskjur. Þær eru ekki ætlaðar fyrir viðkvæmar sálir eða þá sem ekki heillast eitthvað af leyndardómum fornleifafræði, mannfræði eða réttarmeinafræði. En fyrir þá sem sem gera það eru þær mikill fengur.

Heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/Kathy_Reichs
http://www.kathyreichs.com/
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.