The Firm e. John Grisham Book report:
(Áttu annars ekki allir að reporta allt sem lesið er, svona til að halda áhugamálinu á lofti? Það er fín hugmynd.)

Ég las þessa bók sem kjörbók fyrir skólann. Vantaði einhverja fljótlesna bók með ekki alltof eftirminnilegu plotti, til þess að hræra ekki saman við bókahlunkinn Cryptonomicon sem ég er að lesa. (Búinn að lesa 2 bækur fyrir skólann á meðan..)

The Firm er frekar löng, eða um 500 blaðsíður. En blaðsíðurnar fljúga líka áfram, og bókin er búin áður en maður veit af. Ritstíll John Grisham er mjög hraður, og hann nær að halda spennu nánast út alla bókina.

Sagan fjallar um Mitchell McDeere, topp náunga sem útskrifast frá Harvard með glæsibrag. Eftir útskriftina veður hann í atvinnutilboðum frá stórum og virtum lögfræðistofum á Wall Street, en þegar lítil stofa í Memphis býður honum betur, þá tekur hann því.
Lögfræðistofan sem hann ræður sig hjá heitir Bendini, Lambert & Locke, og hefur um 40 lögfræðinga í starfi. Þeir útvega Mitch glænýjan BMW, stórt hús með lágvaxta lánum, og hærri laun en hann gat nokkurntíma látið sig dreyma um.
Mitch og kona hans Abby eru í skýjunum, og fyrir utan langa vinnudaga hjá Mitch, er allt í himnalagi. En þá fara undarlegir hlutir að gerast. Mitch kemst að því að tveir fyrrum lögfræðingar hjá stofunni hafa látist með dularfullum hætti nokkrum árum fyrr, og þegar tveir í viðbót lenda í óútskýranlegum slysum og deyja, þá er Mitch ekki sama. FBI maður að nafni Wayne Tarrance kemur að máli við hann, og eftir nokkra mótspyrnu fær Mitch að vita sannleikann um Bendini, Lambert & Locke.

Það var gerð bíómynd eftir bókinni, og sá ég hana strax eftir að ég las bókina. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með myndina, því þrátt fyrir að vera 150 mínútur, þá nær hún ekki næstumþví að grípa söguna með sannfærandi hætti. Myndin er þunn og leiðinleg.

Ég mæli eindregið með þessari bók, sem fljótlesinni og góðri spennusögu. Jafvel þótt þið séuð búin að sjá myndina, því að bókin er mikið betri, og meiraðsegja með öðrum endi en myndin.

-HelgiPalli