Ég gerði kjörbókarritgerð um þessa bók fyrir nokkru síðan og tók hérna aðalatriðin úr henni og vildi deila því með ykkur, enda finnst mér þetta frábær bók.
Bókin sem ég fjalla um heitir Afturelding og er eftir Viktor Arnar Ingólfsson. Útgáfustaður er Reykjavík árið 2006 í kilju. Útgefandi er Mál og menning. Bókin er 285 blaðsíður.
Afturelding fjallar í stuttu máli um raðmorðingja sem gengur laus á Íslandi og hefur unun af því að fara á gæsaveiðar, en ekki til þess að veiða gæs, heldur til að skjóta og drepa gæsaveiðimenn sem eru við veiðar. Aðalsögupersónur bókarinnar eru rannsóknarlögregluteymið sem reyna að leysa þessi morð. Birkir og Gunnar, Dóra og Símon, og svo loks Magnús, yfirmaður þeirra allra.
Sagan sjálf gerist á okkar tíma og sagan öll gerist á nákvæmlega einni viku, og er það mjög skýrt vegna þess að höfundurinn lætur koma í ljós hvaða dag og klukkan hvað atburðir eiga sér stað. Sögusviðið er Reykjavík og nágrenni, einnig Borgarfjörður, þar sem morð voru framin, Akureyri, en þar á margt eftir að koma í ljós og svo loks Dimmuborgir við Mývatn, en þegar byrjað er að segja frá hvað gerðist þar þá fer allt að koma betur í ljós.
Ég held að boðskapur sögunnar sé að þó að Ísland sé lítið og einangrað, að þá erum við ekkert laus við allt það rugl sem er út í heimi eins og til dæmis raðmorðingja eins og er í þessari sögu.
Mér finnst að höfundinum hafi tekist mjög vel að skapa persónur, hann lýsti öllu fólkinu sem kom fram í sögunni þó það kæmi ekki fram nema í smástund, og maður var kominn með alveg skýra mynd af hverri manneskju sem maður las um. Aðalpersónunum var líka mjög vel lýst, allt það merkilega sem hafði komið fyrir þær, og alveg nákvæmt sagt frá hvernig þau komust í starfið sem þau eru í þarna, rannsóknarlögreglan.
Umhverfið var líka mjög skýrt, enda hlýtur hann að vera mjög kunnur á þessu svæði sem var í bókinni, allt var svo vel útskýrt og eins og með persónurnar, að þá hafði maður skýra mynd í huganum af umhverfinu, þó að maður hafi ekki komið á alla þessa staði.
Að koma boðskapnum til skila, sem mér finnst að sé að Ísland er ekki svona lítið og saklaust eins og ég sagði áðan, hefur tekist vel, enda er fylgst með hverju fórnarlambi áður en að það er myrt, eða þá að öll sagan bak við hvað gerðist kemur eftir á. Og hvað morðinginn er lúmskur líka, enginn hálfviti.
Viktori hefur tekist að koma efni bókarinnar vel til skila af því að bókin er mjög vel skiljanleg og allar flækjur sem myndast leysast fyrr eða síðar í sögunni.
Uppbygging bókarinnar var einnig góð af því að hún hélt manni spenntum við lesturinn og alltaf var maður að pæla hvað gæti verið að gerast, og oft var maður alveg pottþéttur á því að þetta mundi leysast á ákveðinn hátt sem maður var búinn að hugsa en svo þegar upp er staðið þá er það allt annað en það sem maður hélt sem að er svarið við öllu saman, og margt af því hefði manni aldrei dottið í hug.
Frásagnaraðferðin er einnig nokkuð góð, en hann valdi að hafa hvern kafla bara einn dag, og svo segir hann hvað gerðist þennan dag, og tímasetur allt líka. Svo maður veit alveg nákvæmlega hvenær allt gerist. Mér finnst þetta henta bókinni ágætlega, persónurnar eru mikið á ferðinni svo það er ágæt viðmiðun að sjá tímann í byrjun hvers kaflahluta. Öll bókin er skrifuð í þriðju persónu og heppnast það vel, og ekki erfitt að skilja hvað er að fara fram. Bókin hefði getað verið skrifuð frá sjónarhorni einhverrar persónu í bókinni, og það hefði vissulega verið mjög áhugavert að lesa hana þannig. Ég held samt sem áður að frásagnaraðferðin sem Viktor notaði hafi verið góð.
Mér finnst þetta mjög skemmtileg bók, söguþráðurinn sjálfur skemmtilegur og lýsingarnar á öllu vel heppnaðar.
Ég mæli eindregið með þessari bók.