Bókin sem ég ætla að skrifa um heitir Tíðindalaust á Vesturvígsstöðvunum eða All Quiet on the Western Front eins og hún heitir á ensku. Bókin er ein af mörgum bókum sem gerast í seinni eða fyrri heimsstyrjöldinni. Bókin er eftir þýska höfundinn Erich Maria Remarque og var hún gefin út 1928. Bókin fjallar í stuttu máli um hermenn á vesturvígsstöðvunum í Heimsstyrjöldinni fyrri og áhrif stríðsins á mennina ungu.
Í þessari grein ætla ég að fjalla um bókina, söguþráð hennar, persónur, tíma og þema og bera svo saman við atburðina sem gerðust í alvöru og hvernig bókin endurspeglar þá. Er bókin raunsæ lýsing á atburðum fyrri heimsstyrjaldarinnar ? Er reynt að fegra stríðið og sýna fram á nauðsyn þess eða er verið að sýna fram á villimennsku og tilgangsleysi stríðsins ?
Bókin er um þýsku víglínununa í seinni heimsstyrjöldinni. Hún er sögð í 1. persónu og er sögumaður og aðalpersóna bókarinnar Paul Baumer sem að var hvattur, ásamt vinum sínum, til að ganga til liðs við þýska herinn af kennara sínum Kantorek. Kantorek plataði þá nokkurn veginn til að ganga í herinn með fögrum lýsingum sínum af heiðri og dýrð stríðsins og föðurlandsást. Bókin gerist á fremstu víglínunum þar sem Baumer og vinir hans eru að berjast fyrir lífi sínu en hún fer fram og tilbaka frá víglínunum og búðunum þar sem Paul og vinir hans fara stundum. Þegar sagan byrjar er einn vinur þeirra, Josef Behm, þegar dáinn og annar, Kemmerich, hefur misst fótinn. Fljótlega hverfur þessi áhugi sem að þeir höfðu á stríðinu þegar að þeir skráðu sig og þeir sjá hvað stríðið er tilgangslaust og mikil sóun á mannslífi. Einn af öðrum deyja vinir Baumers og í hvert skipti sem einhver vinur hans deyr, deyr smá hluti af Baumer með, alveg þangað til að hann er einn eftir og gjörsamlega niðurbrotinn. Síðan endar bókin með því lýsa tilgangsleysi stríðsins vel þegar Baumer deyr sjálfur einum mánuði áður en skrifað er undir vopnahlé. Bókin endar með því að færast yfir í 3. persónu og er sagt frá því að Paul Baumer féll í orrustu í október 1918. Þann dag var „Tíðindalaust á vesturvígsstöðvunum“.
Hér fyrir neðan ætla ég að fjalla um aðalpersónur bókarinnar:
Paul Baumer er aðalpersóna og sögumaður bókarinnar. Hann er 19 ára þýskur strákur sem að skráir sig í herinn undir leiðsögn kennara síns. Til að byrja með er Paul mjög öruggur með vinum sínum en þegar að þeir deyja einn af öðrum verður hann alltaf meira niðurbrotinn þangað til að þeir eru allir farnir og hann deyr svo á endanum sjálfur.
Kantorek er kennari í skólanum sem að Paul og vinir hans voru í og er eins konar áróðursmeistari sem að fegrar stríðið og dýrðir þess. Hann er ástæðan fyrir því að Paul og vinir hans skrá sig í herinn og seinna fara þeir að hata hann og kenna honum um dauða Behm sem er fyrstur vinanna til að deyja í stríðinu.
Stanislaus Katczinsky er fjörtíu ára gamall hermaður sem að verður svo besti vinur Pauls. Hann er mjög úrræðagóður og er alltaf að finna mat og byrgðir handa Paul og þeim. Þegar að hann deyr er það mikið áfall fyrir Paul.
Muller er einn af vinum Pauls sem að var með honum í skóla. Hann saknar skólans og er alltaf með bækur með sér. Hann er alltaf mjög rökrænn og hagsýnn.
Albert Kropp var með Paul í skóla. Hann er alltaf að hugsa um stríðið og sóun þess. Hann er eini af vinunum sem kemst lifandi heim en hann missir fótinn í staðinn.
Franz Kemmerich er annar af vinum Pauls sem að var með honum í skóla. Hann deyr snemma í bókinni þegar að hann missir löppina.
Persónur bókarinnar er allar mjög skemmtilegar og er gaman að sjá viðbrögð þeirra og skoðanir á stríðinu og hlutunum sem að eru að gerast allt í kringum þá. Svo er einnig fullt af öðrum persónum sem hafa minni hlutverk.
Megin tilgangur bókarinnar eða þema, er tilgangsleysi og sóun stríðsins. Bardagarnir og dauðinn í kringum persónurnar er mjög vel lýstur sérstaklega í kafla 6 þar sem Baumer hugsar að honum líði eins og hann sé í búri og bíði bara eftir því að vera drepinn og nýliðarnir eru að tryllast af hræðslu áður en það er barist. Einnig er mjög vel lýst hvernig áhrif stríðið hefur á persónurnar. Fyrst í bókinni eru þeir mjög áhugasamir um stríðið og að hjálpa föðurlandinu sínu en það breytist fljótt og á endanum verða þeir gjörsamlega niðurbrotnir og andlega skemmdir. Einnig er líka sýnt vel hvernig vinskapurinn á milli þeirra heldur þeim gangandi. En eftir því sem fleiri deyja verður Baumer alltaf verri og verri. Vel er einnig lýst villimennsku stríðsins og andrúmsloftið í bókinni er fullt af dauða og vonleysi eins og í 8.kafla þegar franskur hermaður hoppar ofan í gryfjuna hjá Baumer og hann stingur hann. Eftir það líður honum svo illa að hann ákveður að búa um sár hans en á endanum deyr hann. Baumer áttar sig á því að fólkið sem að hann er að berjast við er bara venjulegt fólk eins og hann. Það verður brátt augljóst að tilgangur höfundarins er ekki að reyna að fegra stríðið heldur að segja frá hryllingum þess og tilgangsleysi.
Bókin er mjög vel skrifuð enda var höfundur hennar, Erich Maria Remarque sjálfur kvaddur í þýska herinn í fyrri Heimsstyrjöldinni aðeins 18 ára að aldri. Remarque slasaðist fimm sinnum á meðan að hann barðist á Vesturvígsstöðvunum og þegar að hann var leystur frá störfum vann hann í ýmsum störfum þar til að hann byrjaði loks að skrifa. Fyrsta bókin hans, eftir að hafa skrifað greinar fyrir ýmis blöð, var Tíðindalaust á Vesturvígsstöðvunum sem að hann gerði út frá stríðsreynslu sinni. Eftir að einn bókaútgefandi neitaði að gefa hana út var hún loks gefin út 1928. Hún varð mjög fræg og varð gerð mynd eftir henni 1930 sem hét All Quiet on the Western Front. Hún var mjög góð og er nr. 137 á kvikmyndasíðunni www.imdb.com (Internet Movie Database) yfir bestu myndir sem hafa verið gerðar. En bókin var einnig gagnrýnd í Þýskalandi fyrir að sýna ekki rétta mynd af stríðinu. Höfundurinn skrifaði einnig fleiri bækur og þegar að Nasistar náðu völdum í Þýskalandi flutti hann til Sviss þar sem að hann bjó frá 1931 til 1939 og þar skrifaði hann margar greinar á móti Nasistum. Af þeim sökum voru bækur hans brenndar opinberlega í Þýskalandi og ríkisborgararéttur hans var afturkallaður 1939. Svo flutti hann til Ameríku 1939 þar sem hann bjó þar til að hann dó 1970.
Bókin er gríðarlega áhrifamikil. Það fær mikið á mann að lesa lýsingar höfundarins á lífi hermannanna og því sem að þeir gengu í gegnum sérstaklega í ljósi þess að höfundurinn sjálfur barðist í stríðinu svo að margir atburðir í bókinni gerðust líklega, eða svipað í alvörunni fyrir hann og vini hans. Bókin er nauðsynlegur vitnisburður um tilgangsleysi og villimennsku stríðs og mikilvægi þess að forðast það.