Í byrjun nóvember er von á fjórðu skáldsögu fjöllistamannsins Hallgríms Helgasonar, þeirri fyrstu í fimm ár og af því tilefni er ætlunin að fara á hundavaði yfir rithöfundaferil Hallgríms.

Áður en Hallgrímur vatt sér í að skrifa skáldsöguna Hellu starfaði hann við blaðamennsku, þýðingar og dagskrágerð. Meðal annars skrifaði hann vikulegar greinar í Helgarblað Þjóðviljans frá 1986-88 og DV 89. Sama ár byrjaði hann með Útvarp Manhattan á Rás 2. Til fróðleiks má benda á að hinn durgslegi, fúllyndi húmoristi Hlynur Björn kom þar nokkrum sinnum fram við misjafnar undirtektir.

Hella segir frá fjórtán ára stelpu sem vinnur í sjoppu út á landi. Afgreiðir pylsur og gos ofan í túrista og annað pakk, svo sem famelíur úr Reykjavík. Á bókarkápu er sagt að Hella sé nýstárleg saga um Ísland. Hér sé lýst ungu fólki og ungri þjóð, dægurmenningu og umróti, aldagömlum hefðum og rótgrónum einkennum og ekki síst: síkvikri náttúru.

Jú, víst er þessi kurteisa saga frásögn af ungu fólki og rótgrónum hefðum. Saga af ást, þannig að sagan sjálf verður aldrei nýstárleg. Það er stíllinn sem gerir það að verkum. Orðavalið. Hvernig Hallgrímur raðar þeim upp. En þrátt fyrir það nær sagan ekki flugi. Kannski er skýringuna að finna í því að þetta er misskildasta bók Hallgríms. Hér kann einhver að segja “hananú, hvað um 101 Reykjavík”, en leyfið mér að útskýra. Undir textanum í Hellu er nefnilega önnur saga. Annað sjónarhorn. Falin myndavél er hægt að kalla það.

Dæmi? Hér kemur textabrot: “Þær taka sér ósjálfrátt stöðu við bílinn, halla sér að honum og minna á varð-ketti frekar en hunda. Hún hallar sér aftur á frambrettið og án þess að verða mikið vör við það finnur hún fyrir beyglu undir sér, það er eins og rassinn falli inn í brettið.” Það að hún halli sér að beyglunni á að merkja að hún sé sjálf ekkert annað en lítil, skemmtileg beygla í bíl í lífi stráksins sem á eftir að afmeyja hana seinna í sögunni. Annað dæmi: Hún er að fara inn í tjald til þessa sama stráks en skömmu áður stendur þetta: ”Úti er mið nótt og það niðar í laufi undir himninum sem þó virðist fullkomlega kyrr, þunn samgróin skýjahimna. Það er sem gusti undir hvolfdri skál.“ Hér erum við sem sagt stödd inn í miðju meyjarhafti sem brátt verður sundrað, enda má lesa þetta stuttu eftir að drengurinn hefur lokið sér af og hún er komin út úr tjaldinu: ”Úti er birtan köld og skýjahulan enn á himni þó víða hafi slitnað göt í hana og glitti í blátt um gráa himnuna.“ Sem sagt, meyjarhaftið er rifið. Það er óhætt að taka undir orð Hallgríms að kannski hafi þetta verið of útpælt. Það má segja að þessi stílbrögð minni á Íslandsklukkuna þar sem Laxness tjáir aldrei líðan persóna, heldur speglast tilfinningar þeirra eingöngu í athöfnunum. Hallgrímur gengur þannig skrefi lengra, eða skrefi aftar. Þetta var vinsælt trix hjá klámhöfundinum Þorgils Gjallanda að nota náttúruna sem falda myndavél. Upp við fossa eftir Þorgils er einmitt slík saga. Þegar dimmt var orðið læddist fólk út í hlöðu með þessa skruddu og fróaði sér – og það má bóka að það sá eitthvað allt annað fyrir sér en fossa og hylji en það er allt önnur saga.

Hella nær aldrei flugi. Sennilega er það þessi (felu)leikur um hvað sé í raun og veru að gerast sem gerir það að verkum. Einnig verður sagan oft á tíðum tilgerðarleg, þó margar setningarnar séu vel heppnaðar. Maður fær það á tilfinninguna að Hallgrímur hafi verið að skrifa fyrir bókmenntafræðingana og ég efa ekki að þessi saga hafi glatt þá, enda af nógu af taka og túlka.

1994 gefur MogM út skáldsöguna Þetta er allt að koma. Í aðalhlutverki er Ragnheiður Birna listamaður. Það er svolítil lykt af Nietzsche í þessari sögu (sorrí, Hallgrímur). Þetta er saga um meðalmennsku eða öllu heldur ádeila á meðalmennskuna og hvað hún er dýrkuð. Sagan er feykivel skrifuð, ef ekki best skrifuð af bókum Hallgríms og byggð upp með ítarlegum viðtölum við Röggu sem koma mjög vel út. Þannig horfir lesandinn á söguna frá öðru sjónarhorni á köflum og brýtur upp þennan ”venjulega” frásagnarmáta.

Það fór ekki mikið fyrir Þetta er allt að koma þegar hún kom út en pistlahöfundur mælir með því að þau sem hafa ekki lesið þessa sögu verði sér úti um hana hið snarasta.

Til frekari fróðleiks má benda á að kveikjan að þessari sögu er Birtingur eftir Voltaire þar sem hann ræðst á eða gerir grín að bjartsýninni.

1996 kemur 101 Reykjavík út. Bók sem var mjög umdeild svo ekki sé meira sagt. Gagnrýnendur hökkuðu hana í sig, meira að segja góð vinkona Hallgríms, Kolbrún Bergþórs kom fram í Dagsljósi og sagði afsakandi að sér hefði nú fundist Þetta er allt að koma mjög góð bók en þessi væri eitthvað svona, ja, svona hundrað blaðsíðum of löng.

Höfundur var farinn að fá þær hugmyndir að verkið væri andvana fætt. en það eru nú einu sinni svo, eins og Hallgrímur sagði seinna, að gagnrýni verður líka dæmd. 101 Reykjavík er nefnilega fín saga, þó það þurfi að taka tvær pásur þegar maður fer í gegnum hana til að anda og jafna sig á orðaflauminum. Það er líka hálfleikur í fótbolta og hundrað leikhlé í körfubolta, svo það er í góðu lagi.

Í 101 Reykjavík stekkur fram á sviðið holdgerfingur videokynslóðarinnar, síðasti geirfuglinn, fulltrúi hinnar útdauðu tegundar; karlrembukarlsins. Hann þolir ekki náttúru eða veit varla hvað hún er, lifir sínu lífi á netinu og K(affi)-barnum og verðleggur kvenfólk í gríð og erg. Hér verður ekki farið ofan í söguþráðinn, fólk skal gjörasvovel að lesa bókina, en ég skal gauka því að ykkur að hún er lauslega byggð á Hamlet, runkaranum mikla frá Danaveldi.

Það sem fór mest fyrir brjóstið á fólki (femínistunum) var verðlagning á kvenfólki. Ég held að fólk hafi tekið það of alvarlega. Það hafi ekki séð að þetta var grín hjá Hlyni, einkahúmor. En í þessum verðleggingum felst ákveðinn sannleikur. Við erum alltaf að verðleggja fólk, hvort sem okkur líkar það betur eða verr og að horfast í auga við það getur verið vont – fyrir suma. Einnig ætti (kven)fólk að sjá að það eru þær sem koma miklu betur út í þessari sögu heldur en karlarnir, sem eru með kynlíf og bjór á heilanum. Það má líka skoða verðlagninguna sem ádeilu á okkar nútíma þjóðfélag sem setur verðmiða á alla hluti.

Þrátt fyrir "slátrun” gagnrýnenda hérna heima seldist hún í tvöþúsund eintökum jólin ´96 og Baltasar keypti kvikmyndaréttinn. Hallgrímur á Baltasar mikið að þakka, það þarf vart að taka fram. Honum tókst að búa til virkilega fína mynd úr sögunni sem hefur farið sigurför um heiminn og þar með gefið 101 Reykjavík nýtt líf. Það sást á bókamarkaðinum í Frankurt í fyrra þegar útgáfurétturinn var seldur til átta landa.

Það er kominn tími á að enda þennan pistil. Hér verður engin niðurstaða nema sú að Hallgrímur hefur skrifað tvær góðar bækur og eina vonda. Í næsta mánuði er von á þeirri fjórðu sem ber nafnið Höfundur Íslands og fjallar um rithöfund sem vaknar upp eftir dauða sinn í sögu sem hann skrifaði löngu áður. Hallgrímur hefur sagt að hugmyndin hafi kviknað eftir að hann dreymdi að Laxness vaknaði upp í Sjálfstæðu fólki og Bjartur fór að reka hann úr túninu eins og hverja aðra kind. Ef Höfundur Íslands hefur einhverja skírskotun í Sjálfstætt fólk kemur það ekki á óvart. Fyrsta bókin sem Hallgrímur las sautján ára gamall var einmitt þessi fræga saga meistarans.


Mksk