Í Skugga Vampírunnar - Kjörbókaritgerð í Íslensku - Sagnfræðingurinn Hér á eftir fylgir kjörbókaritgerð um Sagnfræðinginn eftir Elizabeth Kostova sem ég gerði í Íslensku nýlega.

Inngangur

Hér á eftir ætla ég að skrifa um bókina Sagnfræðingurinn eftir Elizabeth Kostova, sem er jafnframt fyrsta bók hennar. Bókin fjallar um leit ungrar stelpu ásamt föður hennar Paul sem er sagnfræðingur að Drakúla. Hún er sögumaðurinn (ekki er greint frá nafni hennar) en bókin er í raun þrjár sögur. Þ.e: Ferðalag sögumanns árið 1972 með háskólanemanum Stephen Barley, ferðalög Paul’s föður hennar á 6. áratugnum í leit að Bartolomew Rossi prófessor sínum og ferðalög Bartolomew Rossi í Austur-Evrópu um 1930 í leit að Drakúla. Ég ætla að greina betur frá söguþræði bókarinnar og fara í söguna á bakvið bókina.

Söguþráður:

Sagan gerist árið 1972 og er sögð frá sjónarhorni ungrar 16 ára stelpu og er hún jafnframt sögumaður. Á meðan hún ferðast um Evrópu með Paul föður sínum sem er sagnfræðingur segir hann henni frá ferðalögum sínum um Evrópu á 6. áratugnum í leit að prófessor sínum Bartolomew Rossi. Áður en hann nær að klára söguna hverfur hann skyndilega en í herbergi föður síns finnur hún bréf sem segja frá öllu því sem fór fram. Þegar Paul var í háskóla fann hann gamla skrítna bók meðan hann var að læra á bókasafninu. Bókin var gjörsamlega tóm fyrir utan mynd af dreka ásamt orðinu “Drakulya” í miðju hennar. Hann fór með hana til lærimeistara síns Bartolomew Rossi og komst að því að hann átti eins bók. Rossi hafði einnig fundið sína bók fyrir slysni á bókasafni þegar hann var í háskóla um 1930. Það leiddi hann (Rossi) út í mikla rannsókn og ferðaðist hann um alla Austur-Evrópu á þessum tíma í leit að Drakúla. Eftir að Rossi hafði sagt Paul sögu sína hvarf hann með dularfullum hætti af skrifstofu sinni. Með hjálp ungrar konu að nafni Helen sem er dóttir Rossi’s hefur Paul umfangsmikla leit að honum og Drakúla. Þau ferðast fyrst til Istanbúl og hitta þar mann að nafni Turgut Bora sem er mjög fróður um Drakúla og hjálpar þeim mikið. Á ferð þeirra verður Helen fyrir því óhappi að verða bitin af vampíru tvisvar en það þarf þrjú bit til að verða að einni sjálfur. Á leið sinni hitta þau margar mismunandi persónur í mörgum löndum m.a. prófessor Hugh James, Anton Stoichev, prófessor Sándor og frænku Helenar Éva Orbán sem kemur þeim í samband við móður Helenar. Í ferðinni komast þau einnig að því að Rossi hitti móður Helenar þegar hann var að leita að dvalastað Drakúla og varð ástfanginn af henni, en honum var síðan gefið eitur sem fékk hann til að gleyma henni. Þau finna loksins Rossi í gömlu klaustri en Drakúla hafði rænt honum til þess að gera hann að aðstoðarmanni sínum. Þau þurfa að reka silfurhníf í hjartað á honum vegna þess að Drakúla hafði gert hann að vampíru, Drakúla sleppur þó undan. Eftir þetta hætta þau leiðangrinum og eignast stuttu síðar barn, sögumanninn. Stuttu eftir að Helen fæðir barnið hverfur hún á dularfullan hátt. Sögumaðurinn ferðast ásamt háskólanemanum Stephen Barley til klausturs í Frakklandi í leit að Paul föður sínum. Hún finnur hann þar og Helen sameinast þeim aftur. Í grafhvelfingu klaustursins finna þau Drakúla og Helen drepur hann með því að skjóta silfurkúlu í hjarta hans.

Drakúla: Maðurinn á bakvið goðsögnina og goðsögnin á bakvið manninn

Drakúla er eitt þekktasta fyrirbrygði allra tíma og það er varla til sá maður sem ekki kannast við greifann með skikkjuna og vígtennurnar. Þó er Drakúla mikið meira en sú ímynd sem Hollywood leikarar eins og Bela Lugosi, Christopher Lee, Gary Oldman, Gerald Butler, Frank Langella ofl. hafa túlkað. Það vita nefnilega ekki margir að Drakúla var í raun og veru til. Þó ekki sem skikkjuklæddur greifi með vígtennur sem breytir sér í leðurblökur, heldur maður af holdi og blóði. Goðsögnin um Drakúla er miklu eldri en bók Bram Stoker’s og rekur rætur sínar alveg til 15. aldarinnar en það var á þeim tíma sem Vlad “Tepes” Drakúla var uppi. Vlad Drakúla var eins og vampíran fursti í Transylvaníu í Rúmeníu og réð um tíma yfir landshluta sem kallaður var Wallachia. Hann fékk viðurnefnið Tepes eða stjaksetjari vegna þess vana að stjaksetja óvina sína og þá sem ekki voru honum hliðhollir. Stjaksetningin fór þannig fram að stór tréstika eða staur var negldur í gegnum líkama fólks, oft í gegnum endaþarm eða kynfæri, og síðan var staurinn reistur upp og látinn standa. Drakúla var mikill stríðsherra og leiddi heri sína oft til sigurs gegn Tyrkjum Ottómanveldisins. Einn stærsti óvinur hans var soldáninn Mehmed II sem hertók ásamt herjum sínum borgina Konstantínópel (síðar Istanbúl) árið 1453. Þrátt fyrir að Drakúla hafi framið mörg viðurstyggileg ódæðisverk á valdaskeiði sínu og látið taka af lífi tugþúsunda manna hefur ávallt verið litið á hann sem þjóðhetju og nokkurskonar “Hróa-Hött” í heimalandi sínu Rúmeníu. Enda er það staðreynd að þrátt fyrir öll ódæðisverkin sem hann framdi gerði hann mikið til að vernda land sitt og átti stóran þátt í uppbyggingu þess, það má þess vegna segja að Rúmenar standi í miklum þakkarskuldum við Drakúla. Það er kannski ekki skrýtið að nafn hans sé iðulega tengt við vampírur enda var hann sannarlega mjög blóðþyrstur og hefur fólk trúað því allt frá dauða hans að hann hafi endurfæðst sem vampíra og eru þeir jafnvel til sem trúa því enn. Sagnfræðingurinn er töluvert lík bók Bram Stoker’s frá 1897 að mörgu leiti. T.d. þá fer mikið af söguþræðinum fram með endurminningum, bréfum og dagbókarskrifum en bók Stoker’s var öll byggð upp þannig, í báðum bókum kemur Drakúla sjálfur frekar lítið við sögu (í Sagnfræðingum kemur hann ekki fram í eigin persónu fyrr en í endanum) en þó hangir hann yfir öllu eins og gríðarlegur skuggi tilbúinn að gera árás, það eru margar persónur sem eltast allar við sama markmiðið (þ.e. að eyða Drakúla) og það er flakkað um alla Evrópu til þess að reyna að ná þessu markmiði.

Lokaorð

Drakúla er sannarlega eitt áhugaverðasta viðfangsefni sem völ er á enda alveg heill heimur útaf fyrir sig. Þó að maðurinn sjálfur sé búinn að vera dáinn í yfir 500 ár (?) er augljóst að goðsögnin um Drakúla greifa á eftir að lifa og dafna um ókomin ár. Sagnfræðingurinn er frábær, æðislega spennandi og jafnframt fræðandi bók sem ég mæli hiklaust með fyrir alla þá sem hafa áhuga á bókum eins og t.d. Da Vinci Lyklinum sem blanda saman staðreyndum og skáldskapi á frábæran og spennandi hátt. Hún getur þó verið kannski aðeins of mikið fyrir suma enda alveg hátt í yfir 700 bls. en þegar maður er kominn á skrið er engin leið til þess að hætta. Einnig er meistaraverk Bram Stoker’s frá 1897 algjör skyldulesning fyrir alla þá sem hafa áhuga á spennu og hryllingi og bara góðum bókmenntum almennt.