Ég gerði nýlega ritgerð fyrir íslensku (203) um nöfn á sögupersónum. Við áttum að velja eitthvað sem tengdist Skugga-Baldri eftir Sjón, af því við vorum að lesa hana. Mér fannst bara tilvalið að skella henni hérna inn fyrst ég var hvort sem er að skrifa þetta :) Gjörið svo vel:

Ég hef stundum tekið eftir því í bókum þegar höfundar velja persónum sínum sérstök nöfn eftir persónuleika. Þetta finnst mér mjög áhugavert. Nafnið er stór hluti af persónunni í bókum og þess vegna ætti það að segja eitthvað til um persónuna. Margir höfundar nota bara venjuleg nöfn, Jón og Gunna, til að það geti verið hver sem er sem sagan fjallar um. Sumir nota sérstök nöfn þegar þeir vilja að maður muni eftir persónunni. Best finnst mér þegar maður getur tekið þýðinguna á nafninu og séð hvernig þessi persóna er. Ég hef mest tekið eftir þessu hjá breska rithöfundinum Joanna Kathlin Rowling sem er heimsfræg fyrir bækurnar sínar um galdramanninn Harry Potter. Í þeim bókum eru ótalmargar mjög sérstakar persónur, bæði vondir galdramenn og góðir. Persónusköpun Rowling er mjög góð og hún sækir mörg nafnanna í gríska og rómverska goðafræði. Ég ákvað að láta þessa ritgerð aðallega fjalla um persónur Rowling en einnig nokkrar aðrar persónur.

Refamaðurinn
Bókin Skugga-Baldur eftir Sjón fjallar um séra Baldur Skuggason. Hann kom aldrei neitt sérstaklega vel fram við sóknarbörn sín og var frekar fúllyndur. Í bókinni fer hann út að skjóta tófu sem endar með því að hann, nær dauða en lífi, fer í tófuham og breytist í tófu. Þessi saga er mjög þjóðsagnakennd og óraunveruleg. Í orðabók stendur:

Skugga-baldur KK 1 þjóðtrú afkomandi kattar (sem föður) og tófu eða hunds 2 illur andi 3 myrkramaður, sá sem dylur nafn sitt, læðupoki.

Þetta sýnir alveg hvernig persóna séra Baldur var, læðupoki og illur andi. Hann breytir sér í endann í tófu en kannski hefur höfundur fengið þá hugmynd úr þessari skýringu á nafninu. Sjón notar samt skýringuna ekki alveg því séra Baldur tengist ekkert ketti. Það er samt flott hvernig nafnið tengist persónunni.

Stjörnufjölskylda
Í Harry Potter-bókunum eru flestar persónurnar galdramenn. Í sumum galdrafjölskyldum skiptir miklu máli að vera hreinn galdramaður, þ.e. ættaður einungis af galdramönnum. Galdramenn kalla fólk sem kann ekki að galdra gjarnan “mugga” (e. muggle) og þeir sem ekki eru hreinir eru stundum kallaðir blóðníðingar (e. mudbloods), en það þykir mjög niðurlægjandi.
Ein þessara hreinræktuðu galdrafjölskylda er Black-fjölskyldan. Flestir meðlimir fjölskyldunnar voru í Slytherin-heimavistinni og fylgjandi illa galdramanninum Voldemort. Slytherin er ein af fjórum heimavistum breska galdraskólans Hogwarts og þeir galdramenn sem fara þangað lenda oft á slæmu hliðinni í galdraheiminum. Voldemort er leiðtogi slæmu galdramannanna og mjög valdagráðugur. Hann er hræðilegasti galdramaður allra tíma. Bækurnar um Harry Potter fjalla í rauninni um baráttu milli þess vonda og illa.
Flestir í Black-fjölskyldunni voru vondir, en nokkrir voru góðir og voru þá útilokaðir frá fjölskyldunni. Black er þess vegna viðeigandi nafn fyrir þessa fjölskyldu, en á sumum tungumálum hefur það verið þýtt og þýðir þá ,,Svartur”, þótt það hafi ekki verið gert á íslensku. Flestir í ættinni heita eftir stjörnum því það er hefð fyrir því. Einn af þeim er Sirius Black, guðfaðir Harrys og besti vinur föður hans. Hann er undantekning í ættinni og var í rauninni gerður útlægur fyrir það. Hann hjálpar þeim góðu og missir svo líf sitt fyrir góðan málstað. Hann gerðist ólöglegur kvikskiptingur, en það eru galdramenn sem geta breytt sér í dýr að vild. Sirius gat breytt sér í hund og þess vegna er mjög viðeigandi að nafn hans sé eftir stjörnunni Síríusi eða hundastjörnunni. Sirius er bjartasta stjarnan á himninum og sú bjartasta í stjörnumerkinu Stórahundi. Sirius Black er líka eini í fjölskyldunni sem gerði eitthvað gott og merkilegt. Hann er einn af aðalpersónum bókarinnar og skiptir mjög miklu máli. Það má segja að hann hafi verið ,,bjartasta stjarnan” í fjölskyldu sinni.
Bróðir hans, Regulus Black, var vondur og sagður hafa dáið þegar hann guggnaði á að vinna verk sem hann átti að gera. Nafnið Regulus kemur líka úr stjörnufræði. Regulus er stærsta og bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu ljóninu og hefur nafnið verið túlkað sem ,,hjarta ljónsins” eða ,,prins”. Harry Potter aðdáendur um allan heim hafa komið með margar kenningar um það af hverju Rowling valdi persónu sinni þetta nafn, sérstaklega þar sem þetta virðist ekki passa við persónuleika hans. Sumir halda því fram að Regulus eigi eftir að gera merkilega hluti í lokabók seríunnar eða hafi gert eitthvað merkilegt áður en hann dó. En enginn veit það nema höfundurinn sjálfur.
Eini meðlimur Black-fjölskyldunnar sem heitir ekki eftir stjörnu er Narcissa Malfoy, móðir Draco Malfoy, óvinar Harrys úr skólanum. Það er ekki mikið talað um persónuleika hennar en hún er allavega ekki góð. Nafnið kemur úr grískri goðafræði og er kvenkyns mynd af nafninu Narcissus eða Narkissos (Νάρκισσος á grísku). Til eru nokkrar útgáfur af sögunni um Narcissus en þær hafa allar sama söguþráðinn. Narcissus var undurfagur og elskaði sjálfan sig meira en nokkuð annað. Hann ætlaði að fá sér að drekka í lindinni en gat ekki hugsað um neitt annað en fallegu spegilmyndina sína og dó úr þorsta. Þetta nafn bendir til þess að Narcissa hafi verið falleg og sjálfselsk þótt það sé ekki neitt sérstaklega minnst á það í bókinni. Það getur vel verið að Rowling hafi gefið henni þetta nafn til að lýsa persónunni í staðin fyrir að lýsa henni beint, vegna þess að þetta er alls ekki mikilvægt.
Þetta eru bara örfá dæmi um persónur Rowling en þau eru mörg í bókunum sex um Harry Potter og ekki er hægt að skrifa um þau öll.

Eins og fuglinn fljúgandi
Artemis Fowl er aðalpersónan í samnefndum bókum eftir Eoin Colfer. Hann er frábrugðin sögupersónum í öðrum fantasíu-bókum að því leiti að hann er glæpamaður, og hann er aðeins tólf ára gamall. Nafnið Artemis kemur úr grískri goðafræði en Artemis er veiðigyðjan. Það er reyndar kvenmannsnafn en karlmenn sem eiga það skilið geta borið það, eins og hann segir í einni bókinni. Nafnið Artemis á vel við hann því hann er glæpamaður og er að leita að einhverju.
Fowl þýðir á mörgum tungumálum fugl. Þar getur höfundur verið að vísa í það að hann ferðast mikið. Bækurnar um Artemis Fowl gerast einmitt í öllum heimshornum og hann hefur ferðast nokkuð mikið. Fowl getur líka átt að þýða villa, þar sem orðið villa á ensku (foul) hljómar mjög svipað. Það á kannski að sýna að Artemis er ekki venjulegur, heldur glæpamaður.

Andstæður
Engilbjört og Illhuga eru frekar óvenjulegir tvíburar. Það gerðist eitthvað undarlegt þegar þær urðu til, önnur þeirra fékk alla góðu eiginleikana og hin slæmu. Engilbjört grét ekki þegar hún kom í heiminn, hún hóstaði kurteisilega og brosti til foreldra sinna. Illhuga var hinsvegar ekki svo auðveld. Hún hágrét eins og heimurinn væri að farast og var foreldrum sínum mikið erfiði í uppeldinu. Á ensku heita systurnar Angela og Diabola. Angela er bara önnur mynd af orðinu angel sem þýðir engill. Diabola er mjög svipað enska orðinu devil eða djöfull og er mjög viðeigandi.

Þetta var mjög áhugavert efni og það sem mér fannst merkilegast var að þegar ég var að leita að bókum með þessu fann ég bara ævintýrabækur eða fantasíur. Kannski hafa höfundar þannig bóka meira hugmyndaflug eða eyða meiru í persónusköpun en aðrir höfundar. Ævintýri og fantasíur eru í uppáhaldi hjá mér og það er ekki verra þegar maður getur líka pælt í nöfnum. Þótt ég hafi bara fjallað um örfáar persónur eru til miklu fleiri sem hafa sérstök nöfn en þetta er aðallega hægt að finna í ævintýrabókum.


Heimildaskrá

Banks, Lynne Reid. 2000. Engilbjört og Illhuga. Íslendingasagnaútgáfan, Hafnarfirði.

Mörður Árnason. 2002. Íslensk orðabók. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.

Rowling, J. K. 1999. Harry Potter og viskusteinninn. Bjartur, Reykjavík.

Rowling, J. K. 2000. Harry Potter og leyniklefinn. Bjartur, Reykjavík.

Rowling, J. K. 2000. Harry Potter og fanginn frá Azkaban. Bjartur, Reykjavík.

Rowling, J. K. 2001. Harry Potter og eldbikarinn. Bjartur, Reykjavík.

Rowling, J. K. 2003. Harry Potter og Fönixreglan. Bjartur, Reykjavík.

Rowling, J. K. 2005. Harry Potter og blendingsprinsinn. Bjartur, Reykjavík.

Sjón. 2005. Skugga-Baldur. Bjartur, Reykjavík.

http://en.wikipedia.org/wiki/Artemis. Höfundur ókunnur. Sótt 7. mars 2006

http://en.wikipedia.org/wiki/Fowl. Höfundur ókunnur. Sótt 7. mars 2006.

Priscilla Spencer. 2000-2005. http://www.theninemuses.net/hp/index.html. Sótt 21. mars 2006.