Þetta er bókmenntaritgerð sem ég gerði um bókina Peð á plánetunni jörð þegar ég var í 7 bekk.
Ritgerð uppá 10!
Inngangur:
Bókin „Peð á plánetunni jörð“ eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur er unglingabók sem gefin var út af Máli og Menningu árið 1995 og var síðan gefin út aftur í kilju árið 2002. Hún var valin á heiðurslista Ibby-samtakanna og var því gefin út í Tælandi árið 2003. Bókin sem er 174 blaðsíður er fimmta bók Guðrúnar en aðrar bækur sem hún hefur skrifað eru: „Trilla, álfarnir og dvergurinn Túlli“ (1972), „Búrið“ (1977), „Vegurinn heim“ (1982) og „Ævintýri á jólanótt“ (1992). Auk þess hefur Olga þýtt fjölda bóka og leikrita til útgáfu og fyrir útvarp.
Söguþráður:
Margrét Kristín eða Magga Stína eins og hún vill láta kalla sig, er fjórtán ára stelpa sem er upp á kant við skólakerfið. Ekki vegna þess að hún sé slæmur nemandi og nenni ekki að læra, heldur eru flestir kennararnir í skólanum hennar á móti henni. Sérstaklega Hólmfríður „handavinnu bani“ sem heldur að Magga Stína sé með fjórtán þumalputta og greindarvísitöluna NÚLL.
Magga Stína á góða fjölskyldu, pabba sem er prófarkalesari, mömmu sem er leikari og lítinn bróður sem elskar fisk.
Besta vinkona Möggu Stínu er Vala. Pabbi hennar Völu er frægur söngvari en mamma hennar er skítblönk og ætlar að flytja til vinkonu sinnar í Noregi og vinna á hóteli. En þá þarf Vala að flytja líka og það vill Sigga Magga ekki og býðst þá til að ættleiða Völu.
Magga Stína er skotin í Matta en hann er í sambandi við sætustu stelpuna í skólanum, hana Heiðu.
Jónas, besti vinur Matta stofnaði hljómsveit og fékk Matta og Heiðu í hana.
Hljómsveitin fékk nafnið Spendýrin en þar sem ekkert þeirra var sérstaklega gott í að semja söngtexta fékk Jónas Möggu Stínu til þess að vera textahöfundur Spendýranna.
Magga Stína var ekki alveg til í það fyrst því Heiða átti að syngja textana en lét síðan til leiðast.
Þegar Vala mætir ekki í skólann tvo daga í röð fer Möggu Stínu að þyrsta í vinskap og ákveður að fara með Heiðu á skauta.
Eftir skautaferðina kemst Magga Stína að því að Heiða er ágætis stelpa en ekki þessi fullkomna barbídúkka sem hún hefur alltaf haldið að Heiða væri.
Heiða og Magga Stína verða góðar vinkonur. Þegar ekkert bólar á Völu í skólanum fer Magga Stína í heimsókn til hennar og kemst að því að það er búið að loka fyrir símann og rafmagnið heima hjá henni og Vala er mjög veik.
Magga Stína biður foreldra sína um að hjálpa þeim en mamma hennar segir að þau eigi líka í vandræðum með peninga og geti það ekki í bili.
Nótt eina kemur systir hennar Völu heim til þeirra dauðhrædd og segir að Vala sé fárveik og mamma þeirra hafi fengið taugaáfall.
Pabbi og Mamma Möggu Stínu flýta sér að hringja á sjúkrabíl og keyra heim til Völu meðan Magga Stína bíður heima og passar bróður sinn.
Magga Stína hringir bálreið í pabba Völu og hellir sér yfir hann í gegnum símsvara en síðan svarar hann og hún segir honum að Vala sé á Landsspítalanum.
Möggu Stínu sem er búin að vera í heilsuátaki líður svo illa að hún fer inn í eldhús og borðar allt sætt sem hún finnur.
Bókin endar þó vel. Vala verður hress, Pabbi hennar Völu býðst til að hafa hana hjá sér meðan mamma hennar og systur fara til Noregs og Magga Stína verður hrifin af Jónasi.
Viðfangsefni:
Það er fengist við mörg vandamál í sögunni, m.a. peningaskort, útlit, öfund og leiðinlega kennara.
Mér finnst frekar ótrúlegt að kennarar komi svona fram við nemendurna sína en þetta gæti samt gerst. Það að fleiri en einn kennari séu að leggja nemanda í einelti held ég að geti bara alls ekki gerst.
Boðskapurinn gæti verið að maður eigi ekki að dæma fólk eftir útlitinu.
Persónulýsingar:
Magga Stína er fjórtán ára stelpa í Fífubrekkuskóla í Reykjavík.
Hún á leynilegan ástmann í bekknum sem er reyndar svo leynilegur að hann veit ekki sjálfur að hún er hrifin af honum. Hann er í sambandi við Heiðu, ofdekraða barbídúkku, sem getur étið og étið sægæti án þess að bæta á sig kílói. Það er annað en hjá Möggu Stínu, hún er í stífri baráttu við kaloríudraugana sem hóta að breyta henni í súmóglímukappa með tveggja sæta rass. Magga Stína og pabbi hennar fara út að hlaupa á hverjum degi til að gá hvort það sé ekki hægt að stinga þá af á hlaupum.
Besta vinkona Möggu Stínu er Vala sem á fátæka mömmu hana Hildigunnur en pabbi hennar Jóhann er frægur söngvari. Mamma hennar Völu vill ekki hjálp frá honum og ætlar að flytja til Noregs í atvinnuleit. Magga Stína verður mjög reið þegar hún kemst að því að pabbi hennar Völu er á föstu með fegurðardrottningu Íslands árið 1993.
Vala á tvær systur, Helgu og Þórdísi. Mamma hennar Völu heitir Hildigunnur og pabbi hennar heitir Jóhann.
Vala er ekki eins góður námsmaður og Magga Stína og er oft með grænbláa bauga þegar hún mætir í skólann eftir að hafa legið yfir bókum alla nóttina svo að hún nái viðunandi einkunn á prófum.
Vala er mjög hrifin af pabba sínum en Helga litla systir hennar þekkir hann varla og Þórdís stóra systir hennar er ekkert hrifin af honum.
Jónas er besti vinur Matta en munurinn á honum og Matta er eins og munurinn á Gáttaþefi og Tom Cruse. Möggu Stínu finnst Jónas vera með mjög stórt nef.
Jónas spilar á fiðlu eins og pabbi hans og afi en þótt að foreldrar hans vilji að hann verði fiðlusnillingur ætlar hann að verða læknir og ferðast um þróunarlönd með Rauða krossinum.
Jónas samdi öll lög Spendýranna sem Magga Stína samdi síðan texta við.
Í lok bókarinnar er eins og Magga Stína verði hrifin af Jónasi.
Heiða á ríka foreldra sem eiga sælgætis og kex umboð og þau búa í risastóru einbýlishúsi með tvöföldum bílskúr.
Mamma hennar Heiðu reyndi að gera skautastjörnu úr Heiðu þegar hún var minni en einbeitir sér nú að því að gera litla púðlu hundinn sinn að verðlaunahundi.
Heiða er með Matta og þess vegna var Magga Stína ekkert hrifin af henni fyrst.
Mér finnst að Heiða fái ekki nógu mikla athygli frá foreldrum sínum.
Hólmfríður „handavinnu bani“ er handavinnukennarinn í Fífubrekkuskóla.
Henni og Möggu Stínu semur ekki vel og það er eins og Hólmfríður noti hvert tækifæri til að niðurlægja hana.
Ég er sammála Möggu Stínu um að engir ættu að fá að taka kennarapróf nema þeir hafi húmor og líta á tilveruna sæmilega björtum augum.
Umhverfi og tími
Sagan gerist í Reykjavík á veturinn 1995-’96. Stéttaskiptingin er mikil, Vala býr við peningaskort en Heiða og fjölskylda hennar vaða í peningum. Fjölskyldan hennar Möggu Stínu er bara nokkuð venjuleg fjölskylda og þau hafa nóg handa sjálfum sér.
Lokaorð
Þetta var mjög skemmtileg bók og frábært að hafa hana sem ritgerðarefni því maður gleymir ekki strax efni bókarinnar eins og gerist stundum þegar maður les bækur sem maður er látinn lesa. Ég er ekki alveg viss um að þetta gæti gerst í alvörunni en maður veit aldrei.
Það eru peningavandamál bæði hjá fjölskyldu Möggu Stínu og fjölskyldu Völu en þau eru leyst þannig að mamma hennar Völu fær vinnu í Noregi og mamma hennar Möggu Stínu fær vinnu við talsetningu á nýrri teiknimyndaþáttaröð og við áramótaskaupið.
Boðskapurinn gæti verið sá að maður á ekki að dæma eftir útlitinu og oftast fer allt vel á endanum.
Það sem m.a. byggir upp spennuna er að það verður hægt og rólega eitthvað á milli Jónasar og Möggu Stínu og líka það hvort Vala verður á Íslandi hjá pabba sínum eða flytur til Noregs með mömmu sinni.
Bókin hentar aldrinum 12-15 ára.