NoLogo-Andkapitalismi Andkapitalískar óeirðir víða um heim hafa varla farið framhjá fréttaþyrstum landanum. Í tilefni þess langar mig að vekja athygli ykkar á þeirri bók sem skýrir málstað breiðustu mótmælafylkingarinnar. Bókin heitir “NoLogo” og er eftir kanadísku andófskonuna Naomi Klein. Hún fjallar fyrst og fremst um sívaxandi áhrif fjölþjóðafyrirtækja og neikvæðar afleiðingar þeirrar þróunar. Hún rekur sögu ´vörumerkisins´ sem þjóðfélagsfyrirbæris og bendir á hvernig stórfyrirtækin eru búin að breyta heiminum öllum í auglýsingarými. Þá á hún við að allt í kringum okkur eru endalausar auglýsingar og vörumerkingar; fötin sem við göngum í, strætisvagnar, byggingar, flugvélar, íþróttavellir og lið, list/listhús, og allir fjölmiðlar. Í kjölfarið fjallar hún um hvernig þetta leiðir til þess að auglýsendur hafa síaukin áhrif til að ritskoða og móta alla tjáningu og hversu gelt samfélagið verður (eða er) þarafleiðandi.
Fyrirtækin verða einnig sífellt stærri og voldugri, og það reynist ríkisstjórnum nær ómögulegt að hefta áhrif þeirra vegna þess að þau eru ekki átthagabundin, heldur geta flutt sig milli landa eftir hentugleik. Slíkir flutningar, eða hótanir um þá, eru mikið vogarafl í öllum viðræðum fyrirtækja við stjórnvöld og telur höfundur að slík þróun sé hættuleg.
Verstu dæmin um hroka stórfyrirtækjanna eru til dæmis dauðasveitir kóka kóla í mið-ameríku (beitt gegn verkalýðsforingjum) og ótvírætt ofurvald Shell olíufyrirtækisins yfir stjórnvöldum Nígeríu (í gríni oft nefnt: Nígeria: A Shell Subsidiary) og hér heima þekkjum við auðvitað gott dæmi sem er geta erlendra iðnfyrirtækja til að gerbreyta landslagi hálendisins óbeint með kröfum um virkjanir og ódýra orku.
Bókin er sérstaklega merkileg þar sem hún er orðin eins konar biblía mótmælendanna og því gefur hún innsýn í hugarheim þeirra. Höfundur fer víða í efnistökum sínum og er þarafleiðandi mis-sannfærandi. Hún er á köflum aðeins of ákveðin í að sanna hversu skaðleg stórfyrirtækin geta verið og teygir sig þarafleiðandi aðeins um of í röksemdafærslum sínum en yfirleitt er þetta vel skrifuð og hnitmiðuð bók sem er vægast sagt eftirtektarverð. Ég ætla ekki beint að líkja henni við Das Kapital, en þó er hún að vissu leyti skyld henni einfaldlega vegna vægi síns innan alþjóðlegrar hreyfingar andkapitalista.
Ég ætla í raun ekki að fjalla frekar um efni bókarinnar hér en efnisleg umræða væri áhugaverð ef fleiri lesendur finnast (látið semsagt í ykkur heyra sem hafið lesið gripinn).
______________________________