Inngangur
Bókin sem ég ætla að skrifa um heitir Eragon: Arfleifðin. Hún er fyrsta bókin af þremur og er eina bókin eftir Christopher Paolini sem hefur verið þýdd yfir á íslensku. Hún var fyrst gefin út Vestra árið 2003 og var svo þýdd af Guðna Kolbeinssyni og gefin út af JPV útgáfunni 2005. Prentsmiðjan Oddi.hf sá um prentun. Christopher Paolini hefur skrifað tvær bækur og heita þær Eragon og Eldest, mun sú síðasta koma út sennilega einhverntímann í kringum 2007. Christopher Paolini byrjaði að hans eigin sögn að skrifa Eragon upp úr hreinum leiðindum. Hann segir einnig að hann hafi orðið fyrir miklum áhrifum af þekktum rithöfundum s.s. George Lucas (Star Wars), J.R.R. Tolkien o.fl.. Ég leitaði einnig upplýsinga á vefnum um höfundinn og hef minn fróðleik um hann þaðan.
Forsagan
Fyrir langa löngu urðu drekariddararnir til. Að verja og vernda var hlutverk þeirra og um þúsundir ára sinntu þeir því hlutverki. Þeir áttu engann sinn líkan í bardagalistum því hver og einn þeirra var tíu manna maki. Þeir voru ódauðlegir nema vopn eða eitur yrði þeim að aldurtila. Afl sitt nýttu þeir eingöngu til góðs og undir umsjá þeirra voru byggðar háreistar borgir og turnar af lifandi steini. Meðan þeir tryggðu friðinn blómstraði landið. Þá ríkti gullöld. Álfarnir voru bandamenn þeirra og dvergar voru vinir manna. Auður safnaðist í borgum og hagur manna stóð í blóma. En því miður gat slíkt eigi varað um aldur og ævi. Þótt enginn óvinur gæti tortímt þeim gátu þeir eigi varast sjálfa sig. Þegar veldi þeirra stóð sem hæst fæddist drengur að nafni Galbatorix. Hann var valinn til að verða drekariddari. En þegar hann og vinir hans voru sendir í mikla háskaför langt norður í land úrgala fylltust þeir hroka og gleymdu að sýna varfærni og eina nóttina var ráðist á þá og vinir hans og drekar þeirra drepnir. Með mikilli hreystni og smá heppni tókst Galbatorix að drepa alla úrgalana en því miður hæfði ör drekan hans í hjartastað. Á þeirri stundu var sæði brjálseminnar sáð. Hann var svo harmi sleginn að hann leitaði dauðans ótt og réðist gegn hverri lifandi skepnu sem hann sá. En dauðinn vildi ekki vitja hans og brátt datt honum í hug að drekariddararnir myndu láta hann hafa annan dreka. Knúinn af þeirri hugsun gekk hann aftur yfir Hrygg. Hann var mánuðum saman að komast yfir svæði sem hann hafði áður flogið yfir á drekanum sínum. Þegar hann komst loks niður af fjöllunum var hann nær dauða en lífi. Bóndi nokkur kom að honum liggjandi í leðjupolli og kallaði drekariddarana á vettvang. Hann var fluttur í virki þeirra meðvitundarlaus og líkami hans læknaður. Þegar hann vaknaði sýndi hann engin merki um hugarástand sitt og krafðist þess að fá nýjan dreka. Örvæntingin og ófyrirleitnin kom upp um hann og sýndi hver hann var í raun. Þegar hann missti alla von sannfærðist hann um að það væri drekariddurunum að kenna að drekinn hans dó. Nótt eftir nótt nærði hann þá hugsun og ákvað Galbatorix að hefna sín. Hann sveik drekariddarana og drap einn af meðlimum æðstaráðs riddarana með hjálp vinar síns. Eftir verknaðinn réðst hann að vini sínum og drap hann. Riddararnir komu að honum með blóðdrifnar hendur. Hann flýði og var svo slægur að hann fannst ekki. Hann fékk einn af riddurunum til að hleypa honum inn og stal hann þar drekaunga nýskriðnum úr eggi. Með hjálp drekariddarans sem hafði hjálpað honum inn, Morzan að nafni, og nýja drekans hans Galbatorix réðust þeir gegn öllum drekariddurum sem þeir mættu. Tólf drekariddarar gengu í lið með þeim og með Morzan voru þeir kallaðir hinir þrettán eiðsvörnu. Þeir réðust að drekariddurunum, sem voru óviðbúnir og felldu þá. Álfarnir börðust geyst gegn Galbatorix en töpuðu og urðu að fela sig á leyndum stöðum og hafa ekki sést síðan. Það var einungis Vrael leiðtogi Drekariddaranna sem stóðst árásina en féll síðar í hörðu einvígi við Galbatorix. Við það fylltist Galbatorix nýjum krafti og hann lýsti sig konung yfir allri Alagesíu.
(Eragon, bls. 38 – 41)
Söguþráður
Eragon, 15 ára drengur sem býr nálægt smábænum Carvahall, er á ferð yfir nálægan fjallgarð og rekst þá á undarlegan bláan stein. Hann tekur hann með sér heim og ákveður að athuga hvort hægt sé að selja hann fyrir smá mat handa sér og frændum sínum tveimur. Honum tekst ekki að selja eggið en fær þó mat fyrir ölmusu. Síðar þá klekkst eggið út og kemur í ljós dreki. Drekinn er safírblár og kvenkyns og skýrir Eragon hana Safíru. Eftir að heimili hans var eyðilagt af útsendurum ills konungs sem ræður yfir meirihluta Alagesíu, sem er nafnið á landinu sem þeir búa í, þá fer Eragon í æsispennandi ferð með sagnaþulinum Brom með það takmark í huga að hefna fyrir dauða frænda Eragons, Garrows, en hinn frændi Eragons, Roran, hafði farið nokkrum dögum fyrr til annars þorps og vissi því ennþá ekkert um þetta. Eragon ferðast til skiptis á Safíru og hestinum Cadoc, sem þeir útvega sér í bæ sem heitir Þyrinsfurða. Þeir Brom fara til borgarinnar miklu Teirm og hitta þar fyrir sölumann sem er gamall vinur Broms. Þar kynnist Eragon einnig gamalli norn sem heitir Angela og skiptir hún sköpum síðar í bókinni. Þegar á líður þá deyr Brom og Eragon kynnist öðrum manni, Murtagh, sem er aðeins örfáum árum eldri en hann sjálfur. Saman fara þeir til herstöðvarinnar Gilead og hitta þar fyrir einn skæðasta óvin Eragons og frelsa þar álfkonu, Örju að nafni. Þeir flýja þaðan og standa fyrir þeirri ákvörðun hvort þeir vilji ganga í lið með Vörðunum, uppreisnarmönnum sem hafa barist lengi gegn Galbatorix konungi Veldisins og vilja fá frelsi, eða ganga í lið með hinum illa konungi Galbatorix og herja á verðina. Þeir ákveða að ganga í lið með Vörðunum og hefja þá langa ferð í átt að Bjarnarfjöllum, þar sem aðsetur Varðanna er. Þegar þeir koma að rótum Bjarnarfjalla þá taka þeir eftir því að hópur Úrgala er á eftir þeim, en Úrgalar eru illar skepnur sem þjóna Galbatorix. Þeir flýta sér þá til varðanna og komast þar inn. Nokkrum dögum seinna verður mikill bardagi í Farthen Dur, höll dvergana. Þar berst Eragon sem einn af lykilmönnum orustunarinnar og ef ekki hefði verið fyrir hann, þá hefði orustan tapast og hinn illi konungur unnið. En svo varð ekki. Eragon drap Durza, illan Skugga sem hafði hneppt Úrgalana í álög, og er Durza var horfinn þá losnuðu Úrgalarnir úr álögunum og byrjuðu að berjast innbyrðis. Bókin endar svo þar sem Eragon er í sjúkrahúsálmunni og nornin Angela að hjúkra honum. Orustan var unnin og síðustu leifar Úrgalanna voru eltar uppi. Eragon var orðinn síðasti drekariddarinn og nú myndu örlög Alagesíu velta á herðum hans.
Viðfangsefni
Í þessari sögu er höfundurinn að setja saman baráttu góðs og ills á frábæran hátt og hægt að segja að hann hafi náð að setja saman vinsælustu ævintýra og vísindaskáldsögur okkar tíma í eina sögu. Það er frábært hvernig það kemur fram að hver hefur sín eigin örlög en það er alltaf hægt að velja hvernig maður túlkar þau. T.d. þá eru það örlög Eragons að vera fremstur allra á sínu sviði og verða voldugri og sterkari en flestir aðrir menn. En það veltur allt á því hvort hann ákveði að gera það á illan hátt með því að fara í þjónustu konungs, eða hvort hann gengur í lið með góðu gæjunum. Eragon á í þeim vanda í gegnum mestan hluta bókarinnar að hann hefur lítinn áhuga að verða eitthvað meira en sveitastrákur úti í sveit , en skilur samt að það er ekki möguleiki á að slíkt geti nokkurntímann átt sér stað vegna þeirra pólitísku deilna sem um hann eru og verða. Hann ákveður því að fara til Varðanna þar sem Brom hafði treyst þeim. Jafnvel þar er sífellt verið að reyna að hafa áhrif á hann en hann ákveður snemma að taka ekki neina sérstaka afstöðu með einhverjum sérstökum hópum heldur frekar taka afstöðu með sjálfum sér. Þetta finnst mér vera alveg hreint snilldarlega vel úthugsað hjá strák sem var bara táningur þegar hann skrifaði þetta. Mér fannst að höfundurinn væri að reyna að miðla því til fólks að það er best að vera samkvæmur sjálfum sér og breyta rétt eftir því sem manni sjálfum finnst en ekki eftir því hvernig öðrum finnst.
Persónulýsingar
Aðalpersóna bókarinnar er Eragon. Hann er 15 ára og verður fullorðinn innan árs, augun einbeitt og áköf undir dökkum brúnum. Fötin voru snjáð af erfiðisvinnu. Svona er Eragon lýst í bókinni. Honum þykir alveg óendanlega vænt um frænda sinn Roran og son hans Garrow. Eftir að Eragon kynnist Safíru þá eru hugar þeirra tengdir og þau tala þannig saman. Það er ekki hver sem er sem getur orðið drekariddari, heldur bara þeir útvöldu, og Eragon fékk þann heiður. Aðeins þrjú drekaegg voru eftir þegar Safíra klakktist út og er það eina eggið sem hafði klakist út í meira en heila öld. Drekaungar geta beðið í eggjunum eins lengi og þeir vilja og það er aðeins þegar þeir vilja koma út sem það gerist. Þess vegna er Safíra einstaklega vitur dreki og veit margt sem hún hefur einungis heyrt innan í drekaegginu. Eragon hittir mann sem heitir Brom. Brom er sagnaþulur sem býr í Carvahall og það er hann sem varð förunautur Eragons. Hann var eitt sinn drekariddari en drekinn hans var einn af þeim drekum sem var drepinn í árás Galbatorix. Hann var ein af meginástæðum þess að drekaeggið komst í hendur Eragons og klakktist út. Þannig var mál með vexti að álfkonan Arja ætlaði að senda drekaeggið til Broms en hitti ekki alveg og sendi það þessvegna á fjallið Hrygg og það leyddi til þess að Eragon fann drekaeggið. Hún er valdamikil og öflug og var þess vegna kosin til að flytja eggið milli álfa og manna innan Varðanna. Eragon bjargaði henni með Mortagh, syni Morzans, og flúðu þau til varðanna. Murtagh vill, ólíkt föður sínum, að drekariddararnir snúi aftur og steypi Galbatorix af stóli. En þegar þeir koma til Varðanna getur Ajihad því miður ekki treyst honum til fulls og sendir hann í fangavist, reyndar mætti frekar kalla þá fangavist fimm stjörnu hótel en þetta þurfti hann að gera. Ajihad er leiðtogi Varðanna og býr í Farthen Dur með dvergunum.
Umhverfi og tími
Sagan gerist í Alagesíu á um það bil einu ári. Það er svolítið erfitt að áætla hvenær þetta gerðist svo ég myndi segja fyrir svona 1000-4000 árum. Lýsingar á umhverfinu eru stórbrotnar og hverju smáatriði líst. Það var alveg hreint ótrúlegt að lesa þetta og vita af því að höfundurinn var aðeins táningur þegar hann skrifaði þessar línur, byrjaði fimmtán ára að skrifa og lauk við hana átján ára. Það var frekar auðvelt að ímynda sér hvernig allt var og leit út. Einnig hvernig hann lýsir aðstæðum fólks. Það var augljóst að fólk lifði ekki allt í sama menningarheimi, bændur nyrst í Carvahall bjuggu í húsum með leirþökum á meðan fólkið í hafnarborginni Teirm bjó í vel skipuðum og fallegum húsum og allt var þrifalegt. Hins vegar voru til aðrir menningarheimar eins og Dras Leona þar sem menn tilbáðu fjöllin og fórnuðu mönnum í dimmum musterum og engin regla var á húsum. Verðirnir bjuggu hins vegar hjá Dvergunum og sváfu þar í húsum sem voru grafin inn í veggi Trónheims sem er fjall byggt af dvergum inn í risastóran gíg og er um míla á hæð. Svo eru líka til borgir sem eru í rauninni herstöðvar, eins og t.d. Gilead, nyrsta borg Veldisins. Ekkert er hinsvegar vitað hvernig álfarnir búa, nema svona nokkurnvegin hvar.
Lokaorð
Þegar ég var búinn að lesa þessa bók var mér aðeins eitt í huga, ég yrði að fá að lesa framhaldið. Þetta stórvirki 15 ára drengs hafði heillað mig upp úr skónum. Það var snilldarhugmynd, jafnvel þó að aðrir rithöfundar viðurkenni það ekki, að taka það besta og vinsælasta úr nokkrum stærstu og skemmtilegustu bókum sögunnar og setja það saman í eina sögu. Eins og þarna koma fram bardagar tveggja liða, s.s. Veldisins og uppreisnarmanna. Þarna koma líka fram saga eins og George Lucas sagði um dreng sem var sterkari en aðrir og gekk betur á framabrautinni en öðrum, en endaði svo með því að verða fyrir missi og missti við það vitið og varð illmenni. Þarna koma einnig Nazgúlar J.R.R. Tolkiens í líki hinna 13 eiðsvörnu og númenarnir hans sem Drekariddarar. Einnig fannst mér stórmerkilegt að Christopher Paolini hefði búið til tvö tungumál, tungumál dverga og tungumál úrgala. Hins vegar bjó hann til forntunguna, tungumál álfa og töframanna, upp úr “forn íslensku”. Þessi söguþráður er náttúrulega of flókinn til að geta hafa gerst nokkurn tímann í alvörunni og sýnist alls ekki raunsær, en er þó svo heillandi og skemmtilegur að maður dettur alveg inn í hann. Bókin er vel skrifuð, jafnvel þó að Cristopher sjálfur segi að það sé fullt af villum í henni. Bókin er samt svolítið drungaleg og ég myndi ekki lesa hana fyrir 6 ára krakka, það má kannski segja að hún sé svona unglingabók og alls ekki við hæfi yngri barna en tíu ára, þar sem mikið er um manndráp og allskonar óhugnað sem getur látið börn hafa martraðir. Höfundi tókst allveg frábærlega upp við verkið og ætti að vera stoltur af því. Ég gef bókinni fimm stjörnur og mæli eindregið með henni.
Ég hef bara alltaf rétt fyrir mér, þannig er það bara.