Ég komst í þessa bók um daginn af algjörri tilviljun, vantaði eitthvað til að lesa og mamma lét mig fá bók eftir Arthur S. Golden sem heitir Minningar geisju. Jú ég settist niður og byrjaði að lesa og ég ætlaði ekki að geta hætt, las langt fram á nótt og píndi mig til að fara að sofa svo ég fengi nú a.m.k. 2ja tíma svefn fyrir vinnuna.

Sagan segir frá ævi japanskrar geisju og hefst árið 1929 þegar hún er 9 ára gömul. Þessi saga leiðir mann inn í alveg sérstakan heim og færði mér stórkostlega vitneskju um hvernig litið var á geisjur í Japan og hvernig lífi þær lifðu, eitthvað sem ég hafði ekki haft nokkara hugmynd um. Þessi saga er ekki byggð á alvöru minningum einnar ákveðinnar geisju, en höfundurinn hefur aflað sér heilmikils fróðleiks um líf og heim þessara kvenna og fyrir mér var aðalpersónan ljóslifandi þó hún hefði aldrei verið til í raun og veru.

Ég allavegana mæli hiklaust með þessari bók og þætti gaman að heyra álit ykkar sem hafa lesið hana.
Kveðja,