Versta bók sem ég hef lesið
Ég hef sjaldan lesið jafn leiðinlega bók og Gunnlaðarsaga eftir Svövu Jakobsdóttur. Við þurftum að lesa hana í íslenskuáfanga í skólanum mínum og ég hef aldrei upplifað aðra eins kvöl. Bókin er ekki í neinu sambandi við eitt né neitt nema e.t.v. ímyndunarafl höfundsins sem ekki er nokkur leið að tengja við. Íslenskukennarinn minn var alltaf að benda skilningslausum bekknum á að það lægi í augum uppi að bókin væri tenging við ásatrú og gömlu goðsögurnar og þarna væri á ferðinni ein fyrsta kvenréttindasagan með tengingu við fornaldir. enginn gat lesið það út úr bókinni. Þá var okkur bent á að það þyrfti að lesa á milli línanna. Lesa á milli línanna?! Það stóð nákvæmlega ekkert á milli þessarra lína! Ef að bók hefur ekki skrifaða í sig nákvæmlega það sem hún vill koma til skila þá er hún ekki fullunninn. Ég þoli ekki þegar listamenn fara svo fram úr sjálfum sér að þeir eru ekki í nokkurri tengingu við raunveruleikann. Þá túlka þeir afleiðingu gróðurhúsaáhrifa með því að sletta rauðri málningu á stranga, og svo er fullt af fólki sem horfir á “listina” með lotningu og meðtekur borðskapinn. Kannski er ég skert öllu ímyndunarafli og of jarðbundin, en bók sem endar á setningunni …“tvö tré á ströndu.” á ekki upp á pallborðið hjá mér.