Það er alltof oft sem SciFi virðist vera fast í sama farinu. Oft á tíðum eru rithöfundarnir menn sem fá frábærar hugmyndir en hafa ekki mikla rithæfileika og/eða persónusköpunargáfu.
Ekki ætla ég þó að gera lítið úr SciFi enda stór hluti af því sem ég les úr þeim geira. Ein bók sérstaklega vakti trú mína að SciFi bókmenntir væru lifandi grein en það er bókin Snow Crash eftir Neal Stephenson. Bók sú er skrifuð á síðasta áratug og er líklegast það verk sem helst kom Stephenson á blað.
Það sem er skemmtilegt við þessa bók er heimsmyndin í henni og persónurnar í henni. Fléttan er einnig spennandi, en á tölvuneti framtíðarinnar geta menn fengið tölvuvírusa. Ekki nákvæm lýsing en ég vill ekki vera að gefa of mikið upp um söguþráðinn enda er þetta bara toppurinn á ísjakanum. Söguþráðurinn kemur víða við og nær að fletta Babýlonskri goðafræði við tækniþáttinn sem mér þótti einkar áhugavert.
Bókin er að nálgast það að falla undir Cyberpunk geiran en sleppur léttilega með því að gerast í “a not so dark future”. Í staðinn fyrir að heimsmyndin sé dimm er hún bara öðruvísi, skrítin en samt svo kunnugleg. Allt hefur verið einkavætt og þjóðríki er fjarlæg hugmynd. Þetta umhverfi gefur sögunni lit og gefur oft tækifæri til skrítinna uppákoma eins og menn hlaupandi um í vindjökkum líkt og FBI notar í dag nema merktir “MAFIA” á bakinu.
Aðalpersóna sögunnar er líka verulega sérstök, Hiro Protagonist er hálfur afrískur bandaríkjamaður og hálfur japani. Nafnspjaldið hans kynnir hann sem skylmingameistara (swordfighter), tölvuhakkara, pizzasendil og útsendara hins einkavædda CIA. Þetta hljómar nokkuð OTT en smellur samt skemmtilega inn í söguna enda eru það ólíklegasta (en rökrétt) bandalag sem sameinast um að standa gagnvart mögulegum ósköpum.
Einnig hefur Neal Stephenson skrifað The Diamond Age sem er prýðis SciFi bók með frumlegri tækni að vanda, Zodiac sem er “eco-thriller” sem gerist á síðasta hluta 20. aldar og Cryptonomicon sem fléttar saman sögu frá seinni heimsstyrjöld og nútímanum á merkilegan hátt en fellur því miður um snubbóttan endi. Ég held reyndar að hann hafi skrifað a.m.k. eina bók í viðbót.
Þess má geta að Zodiac er skrifuð undir áhrifum frá James Crumley sem er vafalaust með betri spæjararithöfundum seinni hluta aldarinnar og þó víðar í tíma sé leitað.