Ég hef verið að spá í það hvað gerir góða bók góða og hvað er “góð bók”? Þessum spurningum virðist kannski auðsvarað í fyrstu -söguþráðurinn- en ég held það þurfi meira til.
Söguþráðurinn skiptir auðvitað máli, hann bindur verkið saman og heldur manni við lesturinn. Stundum tekur maður upp bók og les hana í einni bunu án þess að geta lagt hana frá sér. Svo eru það aðrar bækur, maður gleypir hvert orð í sig og smjattar á! Og þá kem ég að öðru atriði sem mér finnst þurfa að einkenna góðar bækur, orðunum. Þegar ég les bækur eftir Halldór Laxness og Márquez, til dæmis, les ég hægar en vanalega, ég vil ekki missa af einu einasta orði. Eins ólík og verk þessara höfunda eru, eiga þeir það sameiginlegt að skrifa snilldarlega vel. Eitt til viðbótar sem ég get talið upp er stíllinn. Margir höfundar hafa skapað sér sinn persónulega stíl sem lesendur þekkja um leið og þeir opna bók eftir hann.
Þetta tvennt síðast nefnda getur tapast við þýðingu. Það er gífurlega erfitt fyrir þýðendur að færa stemmingu, orðaleiki og þess háttar yfir á annað tungumál. Ég hef lesið margar bækur eftir Gabriel García Márquez á spænsku og þýðingar Guðbergs Bergssonar á nokkrum þeirra. Nýlega gerði ég samanburð á Hundrað ára einsemd á frummálinu og íslensku og ég verð að segja að Guðbergi tókst mjög vel upp. Maður upplifir stemminguna mjög vel í íslensku útgafunni. Því miður er talsvert um nafnavíxl og aðrar villur, en það breytir því ekki að Guðbergur er frábær þýðandi. En þetta var nú útúrdúr.
Sem sagt, að mínu mati þarf góðan söguþráð, stíl og gott vald á tungunni til að gera bók góða. Það er eflaust hægt að bæta mörgu við þennan lista og án efa eru einhverjir ósammála mér. Hvað finnst ykkur, hvað gerir góða bók góða?