Magnus Mills

Bretinn Magnus Mills er heimsfrægur fyrir að vera fyrsti strætisvagnastjórinn sem tilnefndur hefur verið til Booker-verðlaunanna og þekktur hér á landi fyrir að hafa komið hingað á bókmenntahátíð í fyrra.



Mills, sem er að nálgast fimmtugt, hefur sent frá sér tvær skáldsögur, The Restraint of Beasts og All Quiet on the Orient Express, og smábók með fjórum smásögum, Only When the Sun Shines Brightly. Frumraun Mills, The Restraint of Beasts, kom út í íslenskri þýðingu í fyrra undir heitinu Taumhald á skepnum. Þessi fræga saga segir frá kostulegum ævintýrum og hrakförum nokkurra verkamanna sem vinna við uppsetningu girðinga.

Erfitt er að líta á Mills sem raunsæishöfund þó að raunveruleiki sagna hans sé nokkuð trúverðugur. Segja má að hann lýsi óvenjulegu og afbrigðilegu mannlífi sem hann síðan kryddar með súrrealískum ýkjum. Gott dæmi um það eru hin tíðu dauðsföll og viðbrögð við þeim í Taumhaldi á skepnum. Þó að menn deyi af slysförum bregðast málsaðilar við líkt og þeir séu að leyna morði. Sagan hefur að dómi undirritaðs hvorki til að bera boðskap né tilgang sem vísar út fyrir hana sjálfa; þetta er ekki saga sem lesandinn speglar sig í. Öðru nær hefur höfundurinn skapað sjálfstæðan heim sem líkist veruleikanum en er um leið súrrealískur og fáránlegur. List sögunnar felst í andrúmslofti hennar og stílbrögðum en ekki endurspeglun veruleikans.

Taumhald á skepnum er í huga undirritaðs umfram allt skemmtisaga en skemmtunin er jafnframt list vegna snilldartakta höfundarins á stíl og sögubyggingu. Kolsvartur húmorinn hefur t.d. gildi í sjálfu sér en er laus við ádeilu. Húmorinn nýtur sín afskaplega vel í þeim úrdrætti sem Mills beitir í stíl sínum: sögumaður lýsir fáránlegu og frámunalega heimskulegu atferli samferðamanna sinna af hógværð og án nokkurra dóma.

Seinni skáldsaga Mills, All Quiet on The Orient Express, segir frá ferðalangi sem hyggur á ferðalag til Asíu en verður innlyksa í sveitaþorpi á Englandi þar sem hann dregst inn í málefni íbúanna. Verður það til þess að ferðalag hans austur á bóginn dregst sífellt á langinn. Lesandanum er augljóst að söguhetjan er að láta fólk misnota sig en söguhetjan sjálf finnur sífellt eðilegar skýringar á undanlátsemi sinni. Slík íronísk fjarlægð höfundar (og lesenda) á sögupersónurnar er eitt af helstu höfundareinkennum Mills.

Einn af hornsteinum skáldsagna Magnúsar Mills er frásagnaruppbyggingin: hægt og sígandi magnast ógæfa sögupersónanna og fáránleiki aðstæðnanna, án þess að persónurnar sjálfar viðurkenni ástandið. Þetta mikilvæga höfundareinkenni skortir í smásögurnar fjórar í smábókinni Only When the Sun Shines Brightly. Í smásögunum er að finna veruleikafirrtar aukapersónur og kurteisa sögumenn rétt eins og í skáldsögunum en smásagnaformið virðist ekki henta því andrúmslofti og þeirri persónusköpun sem Mills er þekktur fyrir. Sögurnar virka sem endsleppar og nokkuð tilgangslausar frásagnir af sérkennilegum atvikum. Lengra frásagnarform hentar höfundinum greinilega betur og ástæða er til að bíða næstu skáldsögu hans með eftirvæntingu.