Í þessari grein ætla ég að fjalla um æviferil Gunnars Gunnarssonar og hans helstu verk. Þykir mér miður að þessi fremsti rithöfundur okkar Íslendinga hafi fallið svo í gleymsku, einkum hjá ungu kynslóðinni, því þau vita þá ekki af hverju þau missa. En Gunnar var á sínum tíma frægastur íslenskra rithöfunda og einn vinsælasti höfundur í Danmörku og Svíþjóð. Þekktasur er hann fyrir Fjallkirkjuna, Svartfugl, Aðventu, Sælir eru einfaldir og Sögu Borgarættarinnar. Verk hans voru þýdd á fjölda tungumálaog hans bestu verk eiga skilið að nafn hans gleymist ekki þó fé og frændur deyi.

Gunnar Gunnarsson fæddist á Valþjófsstað í Fljótsdal árið 1889, sonur hjónanna Gunnars Gunnarssonar og Katrínar Þórarinnsdóttur. Föðurbróðir Gunnars, séra Sigurður Gunnarsson var prestur á staðnum. Þegar Gunnar var 7 ára fluttist fjölskyldan í Vopnafjörð. Árið eftir dundi þungur harmur yfir þegar hann missti móður sína ú lungabólgu. Þessi skelfilega lífsreynsla setti djúp spor á allt líf Gunnars.

Gunnar var snemma bókhneigður og las allt sem hönd á festi, hvort sem það voru íslenskar fornbókmenntir eða heimsbókmenntir. Þar á meðal má nefna Dante og Milton. Hann samdi snemma ljóð og smásögur og fékk útgefið, ljóðaheftin Vorljóð og Móðurminning komu út þegar hann var sautján ára. Hann fékk grunnmenntun í barnaskóla en sökum fátæktar virtist hann ekki eiga möguleika á æðri menntun. Þar til hann rakst á grein í Eimreiðinni um lýðháskóla í Askov. Hann sigldi til Danmerkur og lærði þar í nokkur ár, lagði aðallega áherslu á tungumál og bókmenntir.

Næstu ár bjó hann við mikla fátækt, oft lapti hann nánast dauðann úr skel. Hann dró fram lífið með þeim litlu launum sem hann fékk fyrir smásögur og kvæði. Hann samdi verk sín á dönsku, því þá gat hann náð til stærri hóps. Fyrsta smásaga hans Þrándur Örn sem hann hafði haft mikið fyrir, var hafnað af útgefendum. Höfundur sagði seinna að það hafi í raun verið gott, miðað við verkið, og hann hafi fengið góða lífsins lexíu út úr þessu. Sagan var um ungann uppreisnarmann og var víst e-ð í líkingu við Hermann Bang.
Á þessum tíma umgekkst Gunnar einnig marga þekkta íslendinga, t.d. Einar Jónsson m.a. Jóhann Sigurjónsson en þeir Gunnar voru miklir vinir og Gunnar aðstoðaði hann við að þýða Fjalla-Eyvind. Hann kynntist lífsförunaut sínum, Franzisku Josephinu Höger og tileinkaði henni ljóðakverið Digte. Þau giftist 1912.

Loks sló hann í gegn með Sögu Borgarættarinnar. Hún fékk fádæma lof og naut gífurlegra vinsælda, var þýdd á þýsku. Þessi saga er undir merkjum raunsæisstefnu en er einnig mjög rómantísk og ljóðræn. Með þriðju bókinni, Gesti eineygða varð Gunnar þekktur og virtur rithöfundur. Örlygur ríki er ættfaðirinn og kemur til átaka milli sona hans; Ormars og séra Ketils. Í Gesti eineygða leitar kvalinn syndarinn að fyrirgefningu og friðþægingu og spyr sig hvort illvirki hans sé svo hræðilegt að góðverkin sem hann hefur varið ævi sinni í síðan þá geti ekki friðþægt þá skömm.
Bókin var kvikmynduð 1919 á Íslandi og komu þá einnig íslenskir leikarar við sögu.

Eftir að heimsstyrjöldin skellur á hveður við nýjan tón hjá Gunnari, bölsýnin verðpur meiri og rilvistarleg viðhorf sterkari. Veröldin var breytt og í bókunum edurspeglast glíma mannsins við breytta heimsmynd og leit að uppfyllingu, skilningi og réttlætingu á lífinu. Í öllum verkum Gunnars áttu þessar hugmyndir sem hann kynntist í Evrópu eftir að glíma við gömlu heimsmyndina, menningararfinn sem hann ólst upp við og norræna örlagahyggju. Gunnar sótti ávallt söguefni sitt í íslenskan jarðveg.

Strönd lífsins fjallar um séra Sturlu sem lendir í miklum hörmum, ekki ósvipað Job og tapar loks trúnni, hann sér að hann hefur trúað í blindini á algóðan almáttugan guð og að slík trú fær ekki staðist.
Vargur í véum fjallar um Úlf Ljótsson, ungan uppreisnarmannn sem er utangarðsmaður í samfélaginu og rís upp gegn spillingu.

Sælir eru einfaldir kom út 1920 og þótti ein besta bók á Norðurlöndum. Hún er harmræn og myrk, með nokkuð gotnesku yfirbragði, án þess að vera án vonar eða skorta húmor og hún inniheldur bæði hrylling og fegurð.
Sagan gerist á sjö dögum í Reykjavík árið 1918. Katla gýs og bærinn er formyrkvaður. Spánska veikin herjar á bæjarbúa. Dauði, drungi og myrkur ríkir hvarvetna. Aðalpersónur er vinahópur menntamanna; Sögumaðurinn Jón Odsson skáld, málfræðingurinn Benjamín Pálsson, andatrúarmaðurinn Björn Sigurðsson, Páll Sigurðsson, nýskipaður prófessor í sagnfræði við háskólann og Grímur Elliðagrímur læknir. Í upphafi er okkur tjáð að Grímur Elliðagrímur hafi á sjöunda degi farið á geðveikrahæli að eigin ósk. Svo eru raktir þeir atburðir sem leiddu til þessa hörmulega atviks. Í sögunni mætast ólík sjónarmið, Grímur trúir á hið góða í manninum og er um leið flltrúi þess en Páll er maður bölsýni, túir að lífið spyrji einungis hver sé sterkastur í hinni hörðu lífsbaráttu og tilgangur lífsins sé að sigra og bjóta sér aumari menn undir sig. Og þessa heimspeki sýnir hann í verki, sem hefur skelfilegar afleiðingarnar, án þess að skeita um fórnarlömbin. Hann er gersamlega siðlaus og fulltrúi hins illa í manninum.
Eymdin, drungalegt myrkrið og dauðinn stigmagnast og það endurspeglast í sálarlífi persónanna uns kemur að óhjákvæmilegu uppgjöri á sjöunda degi.

Gunnar fjallar um réttlætingu tilveru okkar, sem sjaldan hafði sýnst myrkari, og hverfuls lífs, dauðanum og eilífðinni. Hann veltir fyrir sér einmanaleika, gildi vináttu, ástar og trausts og einstaklingshyggju gengt húmanisma og valdi tortímingar í formi náttúruafla og í brjósti mannanna.

Þvínæst var komið af höfuðverki Gunnars, sem margir vilja meina að sé besta bók hans, og er af mörgum talin eitt helsta meistaraverk norrænna nútímabókmennta. Sjálfur tek ég fúslega undir það, og er þessi bók ein eftirlætis bókin mín. Þetta var sjáfsævisögulega skáldsagan Fjallkirkjan, sem kom út í fimm bindum á árunum 1923-1928, Leikur að stráum, Skip Heiðríkjunnar, Nótt og Draumur, Óreyndur ferðalangur og H ugleikur . Halldór Laxness þýddi bókina og launaði þar Gunnari að Gunnar hafði þýtt Sölku Völku yfir á dönsku og greitt Halldóri veg á dönskum markaði.
Fjallkirkjan er mjög innblásin af ævi Gunnars sjálfs og rekur þroskasögu Ugga Greipssonar, frá því hann elst upp ungur og saklaus drengur á Austfjörðum, þar til hann heldur til náms í Danmörku og fylgir svo erfiðum árum hans þar, þar sem hann reynir að draga fram lífið við ritstörf, uns hann öðlast viðurkenningu fyrir verk sín.
Fegurð og stílsnilld einkennir þetta verk og hann skapar djúpa samkennd með öllum persónunum. Hún vetir okkur ekki síst einstaka innsýn í líf íslenskrar alþýðu í sveitum við lok 19. aldar, lýsir lífi þeirra, gleði og sorgum í þaula. Fyrsta bókin, sérstaklega veitir okkur heillandi innsýn í hugarmeim barnsins. Bókin er bæði tilvistarleg og heimspekileg og veltir einnig fyrir sér guðdómnum, en slík lýsing væri þó engan veginn tæmandi fyrir hana.
Höfundur hafði ætlað sér að reyna með þessari sögu að lýsa lífinu í eins mörgum myndum og honum væri unnt, miðað við reynslu sína, þekkingu og skilning. Og hún innheldur stef sem var gegnumgandandi í verkum Gunnars; Leit mannsins að sjálfum sér, tilgangi og réttlætingu lífsins.

Svartfugl kom út 1929. Sagan er byggð á þekktu morðmáli sem átti sér stað um 1800 á Rauðasandi á Vestfjörðum. Þá var Bjarna Bjarnasyni og Steinunni Sveinsdóttur stefnt fyrir dóm fyrir að hafa myrt maka sína, Guðrúnu Egilsdóttur og Jón Þorgrímsson.

Í upphafi sögunnar rifjar séra Eyjólfur Kolbeinsson, eftir missi sonar síns, upp þá ógnarlegu atburði sem áttu sér stað 17 árum áður, þegar hann var ungur. Hann rifjar upp þátt sinn í dómsmálinu og ásakar sjálfan sig vegna þeirra áhrifa sem orð hans og gjörðir hafi haft á málið.

Sagan er, líkt og Fjallkirkjan, skrifuð af dýpt og mannþekkingu. Andrúmsloftið sem mér fannst ég skynja í bókinni mætti lýsa sem ,,myrkri nótt sálarinnar”. Hér lýsir vofeiflegum glæp í afskekktri byggð og í bókinni kafar Gunnar í djúp mannsálarinnar. Hann kannar þann breyskleika, girnd, kvöl og syndir sem geta sprottið í fylgsnum hjartans og haldast í hendur. Hann fjallar um hvernig rógur getur myrkvað og eitrað hugi fólks og um það vald sem mennirinir taka sér yfir lífi og dauða náungans í nafni Réttvísi. Á móti bölinu teflir göfundur samúðinni, og samkenndinni. Örlög allra manna eru samofin. Þeir verða að taka ábyrgð á sjálfum sér og hver á öðrum, gæta bróður síns og koma honum til bjargar ef hann misstígur sig eða líf hans myrkvast.
Og þrátt fyrir sorgir og dimm örlög má skynja trú á lífið og sigur þess.
1931 gaf Gunnar út Vikivaka. Það er eflaust sérstæðasta bókin hans, fantasíukennd og daðrar bæði við módernisma en sækir einnig mjög í íslenska forneskju, þjóðtrú og menningu. Rithöfundurinn Jaki Sonarson hefur byggt sér nýtískulegt setur á gamalli eyðijörð, Fokstöðum. Á áramótum verður lúðragnýr í danska útvarpinu til þess að vekja upp framliðnar sálir í Kirkjugarðinum sem snúa sér ráðvilltar til Jaka, í þeirri trú að hann sé Guð almáttugur að kalla þær til dómsdags. Og þá eru góð ráð dýr.

Árið 1939 kom út sú bók hans sem hefur selst í flestum upplögum, Aðventa. Mörgum finnst hún jafn ómissandi um jólin og jólaguðspjallið og lesa hana ´æa hverju ári. Þetta er saga af góða hirðinum. Benedikt er íslensku þurfamaður sem tekur að sér vinnu fyrir aðra, fer eftirleitarferð upp á öræfi um hávetur í verstu hríð að leita uppi kindur. Hann er í sterkt bundinn náttúrunni og á sér þrjá dýrmæta vini, hestinn Faxa, hundinn Leó og hrútinn Eitil. hann lifir ekki fyrir sjálfan sig, heldur aðra líf hans er fórn. Manngæskan, fórnin og ábyrgðin gagnvart öllu kviku er sterk í þessari bók.

Gunnar var á þessum tíma orðinn frægur rithöfundur, hann var einn vinsælasti höfundur í Danmörku og Þýskalandi og var lesinn víða um Norðurlönd. Bækur hans voru gefnar út á mörgum og tök hans á dönsku þótti með ólíkindum.

Gunnar lét samstímastjórnmál ekki fara fram hjá sér og ritaði hann um ísland og hugmyndir sínar um sameiginleg Norðurlönd. Hann hóf einnig flokk sögulegra skáldsagna, sem hófst með Fóstbræðrum, um landnám Ingólfs og Hjörleifs, hélt svo áfram og stldraði við merkilegustu atburði Íslandssögunnar.

1926 fluttist Gunnar aftur heim til Íslands. Hann endaði með að kaupa jörðina Skriðuklaust í Fljótsdal, lét reisa þar mikið hús í bæheimskum stíl og hugðist stunda þar stórbúskap.
Eftir heimförina sendi Gunnar frá sér þrjár skáldsögur; Heiðaharm, Sálumessu og Brimhendu.
En eftir seinni heimsstyrjöld, veikindi konu hans og breytt efnahagsástand þá gekk það ekki lengur og hjónin gáfu Ríkinu Skriðuklaustur 1948, með þeim fyrirmælum að þar skyldi starfrækt menningarsetur, sem starfar enn í dag.

Þá fluttu þau til Reykjavíkur og bjuggu þar til Dauðadags. Gunnar Gunnarsson lést 21. nóvember 1975, 84 ára að aldri. Árið eftir lést Fransizka Þau hvíla saman í Viðey.


Af þessum bókum hef ég nú lesið Fjallkirkjuna, Svartfugl, Sælir eru einfaldir og Vikivaka. Persónulega finnst mér Fjallkirkjan best en Svartfugl fylgir fast á eftir. Ég get ekki gert upp á milli Sælir eru einfaldir og Vikivaka.

Fleiri hafa bersýnilega hugsað svipað og ég; Einar Már Guðmundsson vinnur nú að kvikmyndahandriti að Svartfugli og bandarískt kvikmyndafyrirtæki vill gera mynd eftir Aðventu.

Ég vona að þessi grein hafi verið lesendum til nokkurs fróðleiks og ánægju og rr það enn fremur von mín að hún verði til að kveikja aukinn áhuga á Gunnari og verkum hans.

Heimildir eru fengnar af Skriðuklaustur.is og Skólavefnum, auk viðtals Morgunblaðsins við Matthías Viðar Sæmundsson út af bók hans Myndar nútímamannsins –um tilvistarleg viðhorf í skáldsögum Gunnars Gunnarssonar.