Project Gutenberg og þú! Heilir og sælir landsmenn góðir!

Project Gutenberg er verkefni sem byggist á því að gera gögn aðgengileg almenningi í einföldu stafrænu formi. Stærsta verkefnið eru “e-texts” sem eru í raun einfaldar textaskrár sem hafa að geyma hvað eina sem er ekki háð hugverkaréttindum.

Meðal efnis sem má lesa án endurgjalds hjá Project Gutenberg eru verk Shakespeare, þýddar glósur Leonardo Da Vinci og verk Knut Hamsun auk þúsunda annara verka. Sem stendur er aðeins eitt íslenskt rit þarna á skrá en nú er að hefjast langtímaverkefni sem á að bæta úr því.

Einungis verk sem ekki njóta lengur höfundarréttar (eða höfundur hefur afsalað hugverkarétti) mega vera á Project Gutenberg og er efnið því í eldri kantinum. Enginn Harry Potter þar því (en væntanlegur eftir á að giska 70 til 90 ár!).

Distributed Proofreaders (dreifðir prófarkalesarar) var stofnað árið 2000 af Charles Frankcs til að styðja við stafræna yfirfærslu bóka sem voru ekki háðar hugverkarétti. Upphaflega stofnað til að styðja Gutenberg verkefnið (PG), í dag er Distributed Proofreaders (DP) helsta auðlind PG á sviði rafrænna bóka. Árið 2002 varð Distributed Proofreaders opinberlega Project Gutenberg vefur og er því stutt af Project Gutenberg.

Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn hefur valið Distributed Proofreaders Europe sem samstarfsaðila í þeirri viðleitni að fjölga íslensku efni á Project Gutenberg, sjá nánar á þessari síðu.

Byrjað var á skondinni bók sem fyrsta verkefni, búið er að prófarkalesa helming hennar í fyrstu umferð (hver bók fer í tvær umferðir yfirlestrar). Eftir prófarkalestur fer hún í sannreyningu og að afloknu því ferli mun hún birtast á Project Gutenberg og tvöfalda þar með íslenskt efni sem þar er að finna.

Algengt er að prófarkalesarar taki eina til tvær síður á dag, svona til að finna að þeir séu að taka þátt og er það framlag ómetanlegt. Þeir hörðustu taka tugi blaðsíðna á dag!

Sú framtíðarsýn að geta kallað fram nánast hvaða texta sem er, hvort sem um er að ræða skáldsögu eður ei, er óðum að færast nær og nær. Mörg augu og margar hendur leggjast á eitt og þátttaka þín getur fært okkur nær þessu.

Hægt er að nýskrá sig sem prófarkalesara og hefja prófarkalestur strax, verkið þarf ekki að vera íslenskt né einu á tungumáli sem er þér tamt. Ég prufaði sjálfur að prófarkalesa gömul bandarísk bindi frá Filippseyjum sem voru á handritaðri spænsku!

Fjölbreytnin er mikil, verkefni eru merkt með erfiðleikastuðli og hver sem er ætti að geta unnið í auðveldu verkefnunu, á hvaða tungumáli sem þau eru.

Ein síða á dag kemur skapinu í lag!

P.S. Ekki gleyma að skoða ykkur betur um á Timarit.is, þar er um að ræða ógurlegt safn blaða og tímarita, þar má meðal annars lesa og leita í Morgunblaðinu frá upphafi (1913) til 1981 (og bætist við vikulega).


Höfundur er núverandi umsjónarmaður þessa verkefnis við Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn
Summum ius summa inuria