Það var eitt sumar þegar ég var um 12 ára að ég fór í sumarbústað með foreldrum mínum. Það er náttúrulega engin frétt en það sem mér þótti hvað merkilegast í þessum sumarbústað var að þar var fjöldinn allur af bókum eftir konu nokkra sem ber nafnið Snjólaug Bragadóttir og bætti við eftir nafnið: Frá Skáldalæk. Bækurnar báru heldur klisjukennd nöfn á borð við Ráðskona óskast í sveit, má hafa með sér barn. Nöfn sem ekki vekja neinn sérstakan lestarþorsta. En nafn höfundarins: Snjólaug Bragadóttir frá Skáldalæk gerði það hinsvegar. Auk þess þóttist ég kannast við nafnið úr sjónvarpinu. Gott ef þetta var ekki bara konan sem þýddi hvern og einn einasta þátt úr þáttaröðinni Nágrannar.
Viti menn, áður en langt um liðið hafði ég klárað hverja einustu bók. Þær eru náttúrulega auðlesnar -sjoppubókmenntir í fallegu bandi- en ég hefði aldrei gert það nema mér hefði þótt þær skemmtilegar. Og því verður ekki neitað að bækurnar eru hin ágætasta skemmtun.
Þær fjalla allar um kvenhetju. Hetjan ber mismunandi nafn og hefur örlítið frábrugðið útlit en allar eru þær í raun og veru sami karakter. Þær eru einmana og óánægðar, ástlausar og ófullnægðar. Þær breyta þó undantekningarlaust aðstæðum sínum, flytja til dæmis í sveit, og finna ALLTAF ástina í formi draumaprinsins.
Bækurnar eru langt í frá snilldarverk, þær eru týpískar afþreyingarbókmenntir. En sem slíkar þjóna þær hlutverki sínu frábærlega. Þó maður viti alltaf hvernig þær enda leggur maður þær ekki frá sér og þó persónurnar séu í flestum tilvikum grunnar og tvívíðar hefur maður samúð með þeim og lýkur lestrinum þannig að mann langar að lesa meira, vita hvað gerist meira.
Ég mæli með bókunum við alla þá sem hafa gaman af léttum og skemmtilegum bókum, og ekki veitir af ef allir þeir sem svöruðu “ég ætla” spurningunni ætla að standa við að lesa 10 bækur í sumar! :)