Kurt Vonnegut er bandarískur rithöfundur sem hefur skrifað margar frábærar bækur, þar á meðal Slaughterhouse 5, Hocus Pocus, Breakfast of Champions og The Sirens of Titan. Ég var einmitt að ljúka við að lesa þá síðast nefndu. Hún fjallar um auðkylfinginn Malachi Constant, ríkasta og spilltasta mann á jörðinni. Hann missir aleiguna og gerist hermaður á Mars. Plánetan Tralfamadore kemur fyrir í bókinni, eins og til dæmis í Slaughterhouse 5, en misheppnaði rithöfundurinn Kilgore Trout er fjarri öllu gamni. Meira segi ég ekki, til að spilla ekki lestrinum fyrir ykkur.
Þessi bók er uppfull af svörtum húmor Vonneguts og kaldhæðnislegri sýn á þjóðfélagið. Á bókarkápunni er vitnað í ritdóm sem birtist í Time þar sem Vonnegut er kallaður “George Orwell, Dr. Caligari and Flash Gordon compounded into one writer”.
Kurt Vonnegut mun seint vinna Nóbelsverðlaunin, en hefur þó haft mikil áhrif í bókmenntaheiminum. Það segir kannski eitthvað að út hafa komið bækur eftir karakter sem hann skapaði, Kilgore Trout.
Kíkið á hann ef þið hafið gaman af satíru, svörtum húmor, já og bara húmor yfir höfuð!