Astrid Lindgren er sænsk, fæddist 14. nóvember 1907, á sveitaheimili foreldra sinna rétt utan við litla bæinn Vimmerby í Småland. Faðir hennar hét Samuel August Ericsson og móðir hennar hét Hanna. Astrid átti þrjú systkini og hún segir að tvennt hafi einkum einkennt æskuárin sín – öryggi og frelsi. Systkinin fengu mikinn og frjálsan leiktíma; léku sér og léku ásamt því að aðstoða foreldra sína við bústörfin. Kringum rauða húsið með eplatrjánum höfðu þau mikla og fjölbreytta náttúru að leika sér í. Margt vinnufólk bjó í nágrenninu svo það var ætíð nóg af leikfélögum.
Þegar Astrid var 13 ára var ein ritgerða hennar birt í bæjarblaðinu; Wimmerby Tidning. Eftir það var henni strítt og hún gjarnan uppnefnd: ,,Selma Lagerlöf Vimmerbæjar“. En á skólaárunum sagði fólk oft við hana að hún yrði ábyggilega rithöfundur er hún yrði stór. Þetta varð til þess að hún tók snemma þá ákvörðun að skrifa aldrei bækur þótt hún fyndi innst inni að það gæti verið gaman.
Astrid kvaddi æskuheimili sitt 18 ára gömul er hún varð ófrísk af syninum Lars. Það þótti algjör skandall á þessum tíma að ganga með barn án þess að vera í hjónabandi, en Astrid vildi alls ekki giftast barnsföðurnum. Til þess að forðast umtal ákvað hún því að yfirgefa heimaslóðirnar og halda til Stokkhólms þar sem hún fékk vinnu sem ritari. Erfiðleikarnir voru samt rétt að byrja því það var eiginlega gersamlega vonlaust að vera einstæð móðir á þessum tíma. Engin dagheimili og engin dagmamma. Því neyddist Astrid til að láta Lars á fósturheimili og reyndist það henni mjög erfitt. Astrid giftist árið 1931 yfirmanni sínum Sture Lindgren og gat þá tekið son sinn til sín að nýju. Lars var þá 5 ára gamall. Þremur árum síðar eignuðust þau dótturina Karin.
Astrid var mjög hamingjusöm móðir, gerðist heimavinnandi og lét allt sitt líf snúast algjörlega um börnin. Henni var það mikill heiður að fá að vera mamma. Hún vildi fá að njóta barnanna sem lengst og þau léku og léku, fóru vítt og breitt, í almenningsgarða, á leikvelli og víðar til að leika. Astrid var engin venjuleg móðir sem fylgdist með börnunum að leik, heldur tók hún sjálf mjög virkan þátt í leikjunum og vildi leika sér sjálf.
En Astrid lék sér ekki bara við börnin sín heldur skáldaði hún upp margar sögur til að segja þeim, rétt eins og faðir hennar hafði gert fyrir hana. Sögurnar voru bæði um hana sjálfa, um fólk fyrr á tímum og bara allt mögulegt sem upp í hugann kom. Þannig urðu margar aðalpersónurnar hennar og sögufígúrur til. Lína Langsokk varð t.d. til eitt sinn er Karin var 7 ára og lá lasin í rúminu. Eins og svo oft áður bað hún móður sína um sögu. ,,Hvaða sögu á ég að segja þér?” spurði Astrid dóttur sína, og ekki stóð á svarinu: ,,Segðu mér frá Línu Langsokk". Hún fann upp á nafninu um leið og hún nefndi það. Astrid þótti nafnið kyndugt og því hlyti súlkan sem bæri það að vera líka kyndug stelpa og skáldaði upp söguna um Línu sem féll vel í kramið. Karin vildi heyra meira og meira og eftir að henni batnaði tók hún upp á því að koma heim með vini sína úr skólanum svo þeir gætu líka heyrt sögurnar um Línu Langsokk. Þremur árum síðar, rétt áður en Karin verður 10 ára, vildi svo illa til að Astrid rennur til í hálku og fótbrotnar svo illa að hún mátti ekki hreyfa sig í 14 daga. Astrid gat samt skrifað og nú datt henni í hug að skrifa allar sögurnar um Línu Langsokk og gefa Karin þær í afmælisgjöf. Hún ákvað einnig að prófa að senda afrit til útgefanda en fékk handritið í hausinn aftur. Á meðan hún beið skrifaði hún stúlknabókina Britt-Mari leysir frá skjóðunni. Það sendi hún í verðlaunasamkeppni, bókaforlagsins Rabén & Sjögren, um bestu stúlknabókina 1944. Bókin hafnaði í öðru sæti. Ári síðar hélt sama bókaforlag keppni um bestu barnabókina og þangað sendi Astrid Línuhandritið með smábreytingum. Nú vann hún fyrstu verðlaun sem engan undrar í dag því bækurnar um Línu hafa verið þýddar á tugi tungumála og börn um allan heim þekkja hana og elska.
Astrid Lindgren er einn þekktasti barnabókahöfundur á heimsvísu sem uppi hefur verið. Hún hefur verið einstaklega afkastamikill rithöfundur og hafa bækur hennar verið þýddar á tugi tungumála og allsstaðar hlotið góðar viðtökur. Sögur hennar búa oft yfir einhverjum ævintýraljóma, eru dularfullar og spennandi allt í senn. Stemningin sem höfundur nær fram í verkum sínum er líkastu töfrum einum sem verður ógleymanleg í hugum lesenda. Enda gleymast sögupersónur hennar ekki svo auðveldlega og þær eldast vel.
Astrid var orðin 37 ára gömul þegar fyrsta bók hennar var gefin út. Það er því ótrúlegt hversu afkastamikil hún hefur verið og margt gott efni komið út eftir hana og verið þýtt á fjölda tungumála. Það var eins og þegar hún byrjaði loks að skrifa gæti hún ekki stoppað flóðið sem virtist renna endalaust.
Eitt helsta einkenni Astridar Lingren er hvernig hún samsamar sig börnum í bókum sínum og tekur afstöðu með þeim. Oft gegn fullorðnum. Hún skrifar frá sjónarhóli barnsins og lætur sig lítt varða um fullorðna lesendur sína eða skoðanir þeirra. Hún skrifar um börn fyrir börn. Algengasta þema hennar eru börn, vinátta og fjölskyldan. Persónumynstrið getur verið ýmiskonar fjölskyldur; einstæðir foreldrar, systkin eða vinir. Aðalpersónurnar eru samt alltaf börn. Síðan tekur hún gjarnan fyrir eitt efni í hverri bók og sýnir þá gjarnan fleiri en eina mynd af því. Sögurnar eru oft með dálitlum ævintýrablæ. Persónur eða aðstæður ýkir hún á skringilegan hátt til að undirstrika kímnina og léttleikann sem ávallt er áberandi í bókum hennar. Bækur hennar hafa ævinlega fallið vel í kramið hjá börnum og lífgað og auðgað hugmyndaflug þeirra, þótt fullorðnum hafi oft á tíðum sýnst sitt. Gagnrýni á bækur hennar hafa verið af ýmsum toga; Lína Langsokkur þótti of spillt og alltof sjálfstæð, auk þess sem hún sýndi fullorðna fólkinu ekki virðingu. Emil í Kattholti var alltof óþekkur og uppátektasamur. Bræðurnir Ljónshjarta þótti of óraunveruleg eða alltof sorgleg fyrir börn, þótt hún sé einnig að margra áliti einhver fegursta bók sem til er um ást og dauða. En Astrid lét skoðanir fullorðna; félagsfræðinga, uppeldisfræðinga og annarra, sem vind um eyru þjóta. Svo lengi sem börnin elskuðu bækurnar að þá gladdist hún.
Just ask yourself: WWCD!