Ég hef lengi gengið með smá draum í maganum, og hef gert nokkrar tilraunir til að hrinda honum í gang. Hins vegar er frumskilyrðið fyrir því að hann gangi upp að skipulagið sé gott og að ÖLLUM þáttakendum sé treystandi.
Bækur eru nefnilega einstaklega góðir vinir, og manni finnst það alltaf jafn blóðugt þegar að bók sem hefur verið lánuð skilar sér ýmist seint eða ekki.
Hugmyndin er í stuttu máli sú að stofna einhverskonar bókaklúbb, þar sem að eigendur bóka hittist kannski 1-2 í mánuði og skiptist á bókum til að lesa. Ég á t.d. allan Terry Pratchett eins og hann leggur sig (fyrir utan The Truth og Thief of Time) í kilju, bæði Discworld og aðrar. Einnig á ég nánast Tom Holt eins og hann leggur sig, bæði fantasy bækurnar hans og sögulegu skáldsögurnar, sem eru mesta snilld hans. Að auki er ég með sæmilegt safn af Iain M. Banks, eitthvað af Arthur C. Clarke og svo framvegis.
Þar sem maður hefur bara svo mikinn tíma, þá liggja þessar elskur uppí hillu mánuðum saman óhreyfðar (nema þegar konan tekur tiltektaræði). Þetta finnst mér blóðugt þar sem ég er svolítill trúboði í mér og finnst fátt jafn dapurlegt og fólk sem les ekki bækur, dapurlegra er þó góðar bækur sem ekki eru lesnar.
Að auki sem ungur maður sem er að safna fyrir eigin heimili og þess háttar er takmarkað hversu miklu er hægt að eyða í bækur. Bókasöfnin hafa frekar rýrt úrval af þessum bókum sem maður einkum les, og margt þarf að auki að panta að utan með tilheyrandi slagsmálum við misgáfaða tollara og reglur.
Því hef ég nokkrum sinnum imprað á því að hefja svona útvaldan bókaklúbb, þar sem að alvöru elskendur bóka geta lánað hvor öðrum verk sem þeir eiga, og geta verið vissir um að elsku bækurnar verði ekki illa úti. Alvöru elskendur bóka brjóta nefnilega ekki kjöl kilja, þeir brjóta ekki upp á horn á blaðsíðum og þeir sulla bækur ekki út í mat. Notkun sést náttúrulega á lesnum bókum, en það er munur á góðri meðferð og vondri.
Þessi klúbbur yrði því að vera svolítið lokaður, þar sem að meðlimir verða að geta treyst hinum fyrir því að skila bókinni á réttum tíma, og að bækurnar verði vel með farnar. Í staðinn fengi maður mikið magn lesefnis, og ekki síst, maður fengi ábendingar um skemmtilega nýja höfunda sem að hægt er að kynna sér. Þetta myndi breikka sjóndeildarhring allra þáttakenda að mínu mati.
Ég hef ekki útfært skipulagið í smáatriðum, en ekkert mál væri í rauninni að henda upp lokuðum vef, hvar meðlimir geta skráð inn hvaða bækur þeir eiga, skoðað hvað aðrir eiga og í raun sett fram beiðni um að fá bók lánaða. Þessi vefur myndi halda utan um allt og hver notandi ætti því auðvelt með að fylgjast með hvort að bók sem hann langar til að lesa er til, hjá hverjum bók sem hann hefur lánað er og svo framvegis. Svo yrði hægt að hittast öll saman t.d. í klukkutíma á laugardegi þar sem að bókum yrði komið í réttar hendur, og kannski stutt spjall um höfunda (jafnvel kynningar en nú er ég farinn útfyrir efnið).
Sjálfur er ég tilbúinn til þess að forrita þetta, og setja meira að segja vefinn upp á bok.betra.is eða einhverju þvílíku nafni (undir betra.is ).
Þá er það bara stóra spurningin, hverjir hafa áhuga á þessu?
Ég geri mér grein fyrir því að erfitt gæti verið að ákveða hverjir fengu inngöngu, ættum við að senda skoðunarnefnd heim til umsækjenda sem skoðar í hvernig ástandi bækur hans eru? Skondin hugmynd :), hver veit hvernig við munum útfæra þetta, en núna vil ég bara fá feedback um þetta. Útfærslan getur farið fram ef að við söfnum hópi nokkurra einstaklinga, þá er hægt að ákveða þetta betur.
Bókarkveðja,
Ágústus
Summum ius summa inuria