Það eru margar bækur sem koma út og njóta gríðarlegra vinsælda á sínum tíma. En einhverra hluta virðast þær gleymast og rykfalla á bókasöfnum. Þetta eru einmitt örlög einnar af mínum uppáhaldsbókum. Bókin sem er eftir Auði Haralds heitir Læknamafían og er eitt mesta snilldarverk íslenskrar bókmenntasögu. Stór fullyrðing en í þessari stuttu grein ætla ég að reyna að færa rök fyrir máli mínu.
Bókin er vissulega barn síns tíma, lýsingar á spítölum og heilsugæslu eru kannski ekki eins og lýsingar á spítölum nútímans, en textinn sjálfur er tímalaus. Hnífbeitt háðið og stórkostlegar lýsingar verða til þess að lesandinn veltist um af hlátri. Sjálfur hef ég sjaldan fengið jafn góða magavöðvaæfingar og þegar ég las bókina. En þó bókin státi af einhverjum besta húmor sem ég hef lesið er hún alls ekki bara einhver grínbók. Háðið þjónar tilgangi, bókin er þannig háðsádeila. Auður fellur þó ekki í þá gryfju að fara að predika, allavega ekki þannig að maður finni svo glöggt fyrir því.
Læknamafían er vissulega þess virði að taka hana á bókasafninu. Ég efast ekki um að þið hafið jafn gaman af henni og ég. Að minnsta kosti hafa allir sem ég hef mælt með henni við skemmt sér konunglega hver svo sem þeirra bókmenntasmekkur annars er.
Ég ætla ekki að fylgja í fótspor hins mikla snillings octavio og þylja upp allar bækur Auðar, en þess í stað ætla ég að mæla með nokkrum sem mér þóttu góðar þegar ég las þær á sínum tíma:
Elíasbækurnar -allar eins og þær leggja sig. Frábærar!
Baneitrað samband á Njálsgötu -klassík
Hvunndagshetjan -líka frábær en ögn torlæsari en hinar… líklega mest fyrir kvenfólk :Þ
Jæja, ég vona að ég hafi víkkað út bókmenntasmekk ykkar hér… það virðist fátt annað en vísindaskáldssögur. Þær eru vissulega góðar til síns brúks en það borgar sig alltaf að kynna sér allt litrófið! :)