Margt bókmenntafólk staðhæfir að bandaríski rithöfundurinn Raymond Carver sé besti smásagnahöfundur 20. aldarinnar. Sögur hans virka þó á suma lesendur eins og hver önnur meðalmennska, en þeir sem skynja dýptina í hversdagsleikanum og dást að tærum og einföldum stíl fá aldrei nóg af sögum Carvers og óska þess eins að þær væru fleiri.


Verk hans hafa verið margendurútgefin í hinum og þessum safnritum en í rauninni gaf hann aðeins út fimm smásagnasöfn (þar af eitt fremur viðvaningslegt byrjandaverk) og nokkrar ljóðabækur. Að auki lét hann eftir sig fimm óbirtar sögur er hann lést og hafa þær nýlega verið gefnar út. Ljóð Carvers eru góð en sögurnar eru óviðjafnanleg snilldarverk þeim sem kunna að meta þær. Því má segja að það bitastæðasta eftir Carver, það efni sem í raun vitnar um snilld hans, rúmist í fjórum smásagnasöfnum sem hvert um sig er á bilinu 125-200 blaðsíður.
Raymond Carver átti erfitt uppdráttar framan af ævi. Hann var fátækur verkamaður og hafði fyrir konu og börnum að sjá. Bókmenntaástríða gerði þó snemma vart við sig en erfitt reyndist að finna tíma og afdrep til ritstarfa. Drykkjusýki Carvers var síðan ekki til að bæta stöðuna.

Segja má að afrakstur þessarar erfiðu baráttu hafi skilað sér með útgáfu smásagnasafnsins Will you please be quiet, please? árið 1976. Raunar hafði hann áður gefið út smásagnasafnið Furios Seasons, en sú bók nær ekki máli. Will you please be quiet, please? vakti hins vegar verðskuldaða athygli og kann að hafa valdið straumhvörfum í bandarískri smásagnagerð, því upp úr þessu má segja að tilraunamennska og framúrstefna hafi verið lagðar á hilluna í þessari grein og höfundar fóru í auknum mæli að fást við líf venjulegs fólks og skrifa lipran og einfaldan raunsæisstíl. Mikill vöxtur hljóp í smásagnagerð og smásögur tóku að seljast betur en nokkru sinni fyrr, segja má að um miðjan níunda áratuginn hafi smásagnasöfn selst jafn vel og skáldsögur víða í Bandaríkjunum.

Umfram allt olli bókin og velgengni hennar straumhvörfum í lífi Carvers sjálfs. Hann skildi við eiginkonu sína og kynntist og giftist skáldkonunni Tess Gallagher. Hann fór í áfengismeðferð og drakk ekki síðustu 12 ár ævi sinnar sem reyndust þau gjöfulustu á skáldskaparsviðinu. Auk ljóðabóka og ritgerðasafns sendi hann frá sér þrjú önnur smásagnasöfn áður en hann lést af krabbameini fimmtugur að aldri, árið 1988: What We Talk About When We Talk About Love, Cathedral og Elephant.

Afköst og ferill Raymonds Carver eru ekki dæmigerð fyrir jafnfrægan höfund og hann. Aldrei tókst honum að koma saman skáldsögu og hafði raunar misst áhugann á því formi þegar hann hafði loks nægan tíma til skrifta. Mörg ár liðu milli bóka hans og á meðan aðrir höfundar voru að hamast við að skrifa ný verk sat hann og endurskrifaði sögurnar sínar, var stöðugt að lagfæra setningar, hnika til orði, lagfæra kommusetninguna, pússa og slípa. Þessi vinnubrögð eru meðal þess sem gerir margar sögur Carvers einstæðar: þær eru í senn hráar og ofurfágaðar. Hráleikinn kemur fram í þeim grámyglulega hversdagleika sem oft er viðfangsefni sagnanna, og sköpun þeirra frumstæðu persóna sem oft koma við sögu. Fágunin lýsir sér í stíl sem er undurtær og einfaldur en einkennist jafnframt af einstaklega næmri tilfinningu fyrir smáatriðum. Besta lýsingin á sögum Carvers væri í rauninni talsmálskennd: “Þær eru rosalega raunverulegar.” Þær anga af lífi, raunverulegu lífi sem þó hefur verið umbreytt í skáldskap. Viðfangsefnið er algengar mannlegar aðstæður og vandamál, t.d. drykkjuskapur, hjónaskilnaðir, dauðsföll; svartnættið þó ekki allsráðandi því margar sögur hans eru bráðfyndnar og í öðrum eiga persónurnar von, t.d. í hinni eftirminnilegu og hjartnæmu sögu, Where I´m calling from, sem gerist á meðferðarhæli fyrir drykkjumenn. Carver trúði á það góða í lífinu, ástina, vináttuna og jafnvel guð. Persónur hans eiga sér oftar en ekki hógværar óskir um velgengni en eiga þó erfitt með að láta þær rætast enda margar hverjar nánast mállausar, geta ekki mótað skýrar hugsanir og því síður orð úr tilfinningum sínum.

Viðfangsefni Carvers voru alla tíð nokkuð lík, en stíll hans þróaðist töluvert. Sögurnar í fyrri tveimur bókunum eru yfirleitt fremur stuttar, stíllinn afar knappur og persónurnar fjarlægari en í seinni bókunum tveimur þar sem sögurnar eru teknar að lengjast, stíllinn orðinn mýkri og lýrískari auk þess sem meira er um innihaldsrík samtöl; lesandanum er einnig boðið lengra inn í hugskot persónanna.

Þau verk sem hér hafa verið nefnd eru öll til sölu í íslenskum bókaverslunum. Allir sem hafa minnsta áhuga á smásögum ættu að lesa þau. Þær fimm óbirtu sögur sem fundust eftir dauða Carvers eru prentaðar í safnritinu Call If You Need Me ásamt öðru efni sem ekki er eins bitastætt.
Eitt af mörgum safnritum Carvers, Short Cuts, er til í íslenskri þýðingu Sigfúsar Bjartmarssonar. Þar er að finna sögur úr þremur bókum Carvers, en við þær studdist Robert Altman við gerð samnefndrar kvikmyndar. Þýðing Sigfúsar hefur verið nokkuð umdeild í kaffihúsaspjallinu en er prýðileg að dómi undirritaðs og í raun ágætis upphafslesning fyrir þá sem vilja kynnast verkum þessa mikla smásagnahöfundar. Bókin heitir Beint af augum í þýðingunni og var gefin út af Bjarti fyrir fáum árum.